Ábyrg fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar

Sveitarfélög landsins glíma nú sem best þau geta við afleiðingar kreppunnar. Vandinn er í hnotskurn sá að tekjustofnar eru að dragast saman um leið og útgjöld aukast samfara verðlagshækkunum og neikvæðri gengisþróun. Við aðstæður sem þessar reynir á ábyrg vinnubrögð bæjarfulltrúa og vilja til samstarfs. Sundrung og tortryggni leysir engan vanda, nema síður sé.

Allir kostir í stöðunni metnir

Fjárhagsáætlun fyrir Kópavog þarf líkt og fyrir önnur sveitarfélög að laga að breyttum aðstæðum. Innan bæjarstjórnarinnar var gengið samstiga til verksins. Meginútgangspunkturinn var að verja grunnþjónustu bæjarins og samfélagslegt velferðarnet og halda gjaldskrárhækkunum í lágmarki. Við vorum jafnframt sammála um mikilvægi þess að dreifa byrðum sem jafnast, með heildarhagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi. Í því árferði sem nú er verða allir að leggjast á árarnar eftir aðstæðum og getu hvers.

Hækkun gjalda langt undir raunhækkunum

Í fjárhagsáætluninni er gert er ráð fyrir að rekstur bæjarins skili 44 milljóna króna afgangi á árinu, sem er ásættanleg niðurstaða með hliðsjón af aðstæðum. Framkvæmt verður fyrir ríflega 1.200 milljónir króna á árinu og 100 milljónum króna verður varið sérstaklega til atvinnuskapandi verkefna, m.a. í samvinnu við Vinnumálastofnun.

Vegna kostnaðarhækkana varð ekki hjá því komist að endurskoða gjaldskrár bæjarins og í þeim tilvikum sem breytingar reyndust nauðsynlegar er um lágmarkshækkanir að ræða. Þessar hækkanir eru undir raunhækkun kostnaðarverðs og því um raunlækkun gjaldskrár að ræða. Sú fjárhagsaðstoð sem veitt er á vegum bæjarins, mun á hinn bóginn hækka í takt við vísitöluþróunina.

Tekið á málunum

Athugasemdir hafa komið fram vegna fjárhagsáætlunarinnar, reyndar úr óvæntri átt. Nú þarf hins vegar að taka á málum af festu og ákveðni og það er ekki öllum gefið að flytja vondar fréttir. En þetta mun hafast.

Mikilvægasta verkefnið nú er að standa vörð um innviði bæjarfélagsins og þá metnaðarfullu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað, m.a. á sviði skóla- og fræðslumála, íþrótta- og æskulýðsmála og félags- og öldrunarmála. Óneitanlega eru þungar byrðar nú lagðar á bæjarbúa og gæta þarf þess að dreifa þeim byrðum á sanngjarnan máta. Standa þarf sérstakan vörð um barnafjölskyldur sem byggt hafa sér heimili í Kópavogi en horfast nú í augu við atvinnuleysi, fallandi fasteignaverð og stökkbreyttar skuldir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Grétar Guðmundsson

1.2.2010 | 17:06

Megi skömm Bæjarstjórnar Kópavogs verða uppi meðan land byggist

Ráðandi öfl í bæjarmálum Kópavogs skortir ekki samherjana til vondra verka. Þeir fundu heldur en ekki matarholu sem gæti stórbætt fjárhag þessa stærsta sveitarfélags utan höfuðborgarinnar, Kópavogs, sem að sjálfsögðu þarf á því að halda eftir mörg ár óstjórnlegrar útþenslubólu sem að fór eftir línu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarfloks.

Það sem á að bjarga fjárhag þessa fjölmenna sveitarfélags er að svipta eldri borgara ókeypis aðgangi að sundstöðum Kópavogs!!!

En þetta vaki svo sem ekki svo mikla furðu hjá mér, þessi sveitastjórnarmeirihluti Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks virðist höfuðlaus her eftir að Gunnar Birgisson varð að fara í óumbeði frí til að sinna uppeldisma uppeldismálum heima fyrir. Þannig fer oft þegar undirsátar eiga að fara að stjórna þar sem einræðisherra hefur ríkt en verður svo skyndilega óvígur

En meirihlutinn höfuðlausi var ekki einn í ráðum um að ræna þessari litlu sporslu frá þeim öldruðu. Þeir sem hafa hreykt sér af umhyggju fyrir þeim minnimáttar, fulltrúar félagshyggjuflokkanna þau Guðríður frá Samfylkingunni og Ólafur frá Vinstri grænum voru hjartanlega sammála meirihlutanum, engin ástæða að vera að púkka undir þetta gamla drasl, þeir gætu annaðhvort borgað eins og aðrir eða þá bara setið heima og farið í sitt eigið baðker.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem þeir sem velta sér upp úr því að vera réttsýnni og umhyggjusamari en aðrir gleyma því æði oft þegar kemur að málefnum aldraðra. Aftur og aftur kemur þetta berlega í ljós þegar aldraðir eiga í hlut

Má ég koma með annað dæmi: Mig minnir að það hafi verið í tíð Þtngvallstjórnarinnar þar sem núverandi forsætisráðherra var félagsmálaráðherra, sá sami ráðherra kom með þau gleðilegu fyrirmæli að frítekjumark aldraðra hækkað ríflega, færu upp 1.300.200 kr. Þetta þýddi að aldraður lífeyrisþegi, sá sem hafði náð 67 ára aldri, mátti hafa árlegar tekjur upp að þessu marki án þess að lífeyrir skertist. Persónulega fannst mér að þarna væri ég að ganga í endurnýjun lífdaganna. Ég er svo drýldinn að halda því fram að ég búi yfir talsverðri þekkingu í mínu fagi, pípulögnum, og hef leyft mér a titla mig orkurágjafa. Þarna kemur til löng ævi þar sem sífellt hefur safnast í þekkingarsarpinn, en ekki síður að nú er svo komið að þekking á eldri hitakerfum af sérstakri gerð er að mestu glötuð, helst að hún væri finnanleg í gömlum kolli eins og mínum.

En Adam var ekki lengi í Pardís!

Ekki man ég hvort flokkssystkini mitt það var sem sá að þannig ætti alls ekki að mylja undir gamlingja sem ættu að sitja heima og bíða þess að hrökkva upp af. Eitt er víst að annaðhvort var það Ásta Ragnheiður eða Árni Páll sem að sjálfsögðu settu undir lekann og lækkuðu frítekjumarkið niður í 480.000 kr. á ári.

Nú er ég ekki í nokkrum vafa um að þetta gera hæstvirtir ráðamenn í þeim göfuga tilgangi að auka tekjur hins opinbera, sveitarfélags og ríkis. Kópavogur áætlar að afnám bruðlsins til gamlingjanna gefi 7 millj. í aðra hönd, ekki veit ég hvað Árni Páll reiknar sér í tekjur af lækkun frítekjumarksins, en eflaust á það að skila umtalsverðum tekjum. 

En sem aldaður borgari í þessu landi langar mið að segja þetta við ykkur Árni Páll, Guðríður og Ólafur. Þessar gjörði lýsa í fyrsta lagi heimsku og í öðru lagi botnlausu skilningsleysi á því hvað er að vera aldraður. Þið munuð ekki uppskera mikinn fjarhagslegan ábata af þessum gjörðum ykkar. Það er næsta fullvíst að margir aldraðir í Kópavogi, sem þurfa að velta fyrir sér hveri krónu verða að spara neita sér um þá heilsulind sem sundið er. Ég er viss um það Árni Pall að þessi gjörð að lækka frítekjumarkið skilar litlu sem engu. Þér væri nær að hugsa til þess að frítekjumarki eins og það var hefði skila þó nokkrum tekjum í ríkissjóð. Láttu þér ekki detta  í hug að fjöldi ellilífeyrisþega muni halda áfram að afla sér tekna og sjá það hverfa með lækkandi lífeyri. Gæti það verið að aldraður maður héldi betri heilsu ef hann fengi lengur að vera frjáls maður á vinnumarkaði að einhverju leyti? Gæti það jafnvel sparað heilbrigðiskerfinu umtalsverð útgjöldum?

Ég veit að margir eru svo grunnhyggnir að segja sem svo; við lögum þetta aftur þegar efnahagurinn batnar eftir svo sem 5 - 10 ár!

Ég hef náð þeim háa aldri að vera orðinn 75 ár.

En hvar verð ég eftir 5 - 10 ár?

(Tel frekar ólíklegt að þú lesir bloggið mitt, þessvegna færðu það beint í æð. SGG)

Sigurður Grétar Guðmundsson, 4.2.2010 kl. 10:01

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband