Kópavogur hugi sérstaklega að ungum fjölskyldum

Kópavogsbær á að huga sérstaklega að ungum fjölskyldum á þeim krefjandi tímum sem nú ríkja. Margar ungar fjölskyldur kusu á síðustu árum að búa sér heimili og ala börn sín upp í Kópavogi. Eftir því sem fjölskyldumeðlimum fjölgaði stækkuðu fjölskyldurnar við sig í húsnæði, fólk skuldbatt sig og tók lán eins og gengur.

Tilvera margra ungra fjölskyldna hefur nú snúist á hvolf og óréttlætið er æpandi. Fasteignir hafa lækkað, erlend lán hafa stökkbreyst og íslensk lán hækkað upp úr öllu valdi. Nú er verið að byggja upp nýtt fjármálakerfi á Íslandi og eignir þess eiga að grundvallast á útþöndum skuldum ungra fjölskyldna á meðan skuldir þess samanstanda af innlánum í gjaldþrota bönkum sem ríkið tók ábyrgð á.

Í stuttu máli er staðan sú að nú er verið að byggja upp nýtt fjármálakerfi á herðum ungra fjölskyldna sem komu sér þaki yfir höfuðið í fasteignabólu á meðan skuldir þess sama fjármálakerfis eru tryggð innlán í gjaldþrota bönkum. Ungu fjölskyldurnar áttu ekki stór innlán í bönkum og njóta því ekki góðs af þessari aðferðafræði.

Kópavogur er réttlátt bæjarfélag

Eitt mikilvægasta verkefni Kópavogsbæjar er að standa með ungum fjölskyldum á þessum erfiðu tímum. Í því ástandi er nú ríkir verður að dreifa byrðunum með sanngjörnum hætti og standa sérstakan vörð um þá er verst hafa farið út úr þessum mestu efnahagshamförum lýðsveldissögunnar. Í nýrri fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar er því hækkunum á grunnþjónustu sem ungar fjölskyldur treysta á stillt mjög í hóf og eru þær innan verðlagshækkana.

Það er sannfæring mín að almenn sátt ríki um þessa nálgun í stórum jafnt sem smáum málum. Byrðunum verður að dreifa og það á sanngjarnan máta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband