Skattleggjum greiðslur í lífeyrissjóði

Almenningur hefur komið því skýrt til skila að stjórnmálamenn verði að hefja sig upp úr hefðbundnum hjólförum stjórnmálanna og sameinast um lausnir í efnahags- og atvinnumálum. Þetta hefur víða gengið eftir á sveitastjórnarstiginu en alls ekki í landsmálapólitíkinni. Á  þeim vettvangi er pólitíkin eins og ekkert hafi breyst. Það virðist ennþá hafa úrslitaáhrif á afstöðu þingmanna hver kemur fram með einstaka hugmynd. Í því sambandi má nefna að það sætir furðu að stjórnarflokkarnir skuli ekki hoppa á þá hugmynd að auka tekjur ríkissjóðs með því að greiddur verði tekjuskattur af lífeyrisgreiðslum við innborgun í lífeyrissjóðina. 

Þessi leið hefur marga augljósa kosti. Þeir helstu eru að ríkissjóður getur aukið tekjur sínar um tugi milljarða til skamms tíma litið án þess að skattgreiðendur verði varir við  það.  Aðgerðin veldur ekki vísitöluhækkun eins og margar aðrar skattahækkanir gera eins og t.d. aukinn skattur á eldsneyti, áfengi og sykur. Þá má færa fyrir því rök að ávöxtun þegnanna verði meiri með þessu móti þar sem þjóðin er að greiða hærri vexti af lánum sínum en ávöxtun lífeyrissjóðanna nemur. Skattlagningin minnkar ekki kaupmátt eins og hefðbundnar skattahækkanir, sem er mikilvægt við núverandi aðstæður. Sífellt lækkandi kaupmáttur þýðir að spírallinn niður á við verður lengri en ástæða er til. 

Það kemur ekki á óvart að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna séu á móti þessum breytingum því þær þýða að sjóðirnir hafa úr minni fjármunum að spila. Hins vegar finnst þessum sömu forsvarsmönnum ekkert mál að setja fjármuni okkar í svokallaðan endurreisnarsjóð. Sjóð sem er ekkert annað en áhættusjóður. Ég minnist þess ekki að slíkir sjóðir hafi skilað miklu. Dæmi um það eru byggðasjóður sem heyrir undir Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóður. Ávöxtun þeirra hefur verið afar léleg, við því mega lífeyrissjóðirnir ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Svona grefur þú eigin gröf Ármann.

Kveðja,

Guðmundur Bjarnason (IP-tala skráð) 15.10.2009 kl. 21:55

2 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Góð hugmynd!

Sigurður Þorsteinsson, 15.10.2009 kl. 22:07

3 Smámynd: Ármann Kr. Ólafsson

Þakka Guðmundi Bjarnasyni fyrir frábæran rökstuðning???

Ármann Kr. Ólafsson, 15.10.2009 kl. 22:47

4 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

Mér skilst að Sjálfstæðismenn vilji ekki skattahækkanir... hvað er þetta annað en skattahækkun ??

Jón Ingi Cæsarsson, 15.10.2009 kl. 23:13

5 Smámynd: Ármann Kr. Ólafsson

Þetta er hækkun á skatttekjum ríkissjóðs án þess að skattar séu hækkaðir, í því liggur ávinningurinn eins og ég var að reyna að benda á.

Ármann Kr. Ólafsson, 16.10.2009 kl. 08:27

6 identicon

Þetta er ekkert annað en þjófnaður á framtíðar skatttekjum barna okkar.  Í framtíðinni verða hlutfallslega miklu fleiri lífeyrisþegar á hvern vinnandi mann heldur en er í dag, hvernig halda menn að skattbyrði launþega yrði ef lífeyrisþegarnir væru skattfrjálsir.  Halda menn virkilega að það yrði sátt í þjóðfélaginu?
Það væri miklu nær og hreinlegra að fá langtímalán hjá lífeyrissjóðunum heldur að fara í þetta bókhaldsvindl sem myndi kosta þjóðina stórfé við að að halda úti tvöföldu lífeyriskerfi.

Pétur (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 09:18

7 Smámynd: Jón Sævar Jónsson

Þetta er bara mál sem menn verða að sameinast um að ræða í botn, vega og meta kosti og galla.

Jón Sævar Jónsson, 16.10.2009 kl. 09:20

8 Smámynd: Jón Ingi Cæsarsson

"Þetta er hækkun á skatttekjum ríkissjóðs án þess að skattar séu hækkaðir, í því liggur ávinningurinn eins og ég var að reyna að benda á."

Nú skil ég ekki... skatttekjur hækka án þess að nokkur borgi.. þetta er eins og útskýring Hannesar Hólmsteins á íslenska efnahagsundrinu.. ???

Jón Ingi Cæsarsson, 16.10.2009 kl. 09:25

9 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Sæll Ármann

Góður punktur með ávöxtun sjóðanna vs lánin.

Þetta er hugmynd sem verður að skoða í ljósi þess að almenningur þolir ekki frekari álögur. 

Ég skrifaði grein um þetta sem hægt er að skoða á blogginu mínu. Ég reiknaði allar hliðar málsins og var umþb. tvær vikur að vinna þetta. 

Jón Ingi og Guðmundur Bjarnason, þar sem kaupmáttur er í frjálsu falli, stefnir í algjört hrun íslensks efnahagslífs ef ríkið ætlar að setja frekari álögur á heimilin. Ríkið hefur nú þegar valdið nægum skaða með sköttum sem hækkað hafa neysluvísitölu osfrv.

Við erum nú þegar að missa út stærsta neytendahópinn í skuldasúpu. Hvað gera fyrirtækin án viðskiptavina?

Lífeyrissjóðir tala um að ávöxtun á framtíðarskattekjum skili 15% hærri lífeyri. Það er alveg rétt, miðað við 3,5%raunávöxtunarkröfu næstu 30 árin. Staðreyndin er að sú krafa er álíka raunhæf og lækning við samkynhneigð.

Raunávöxtun lífeyrissjóðanna síðustu 10 árin voru undir 3% miðað við þeirra útgáfu af tapinu sem er hlægileg svo ekki sé meira sagt.

Við höfum reiknað það út að ávöxtun lífeyrissjóðanna verði 50-70% betri ef við skattleggjum lífeyri fyrirfram. Þ.E. minna fjármagn veldur minni þennslu á markaði samanbr. verð hlutabréfa og annara fjárfestinga sem var allt of hátt vegna offramboðs á fjármagni.

Síðasta dæmið er ef lífeyrir verður 15% hærri með því að lífeyrisjóðirnir haldi framtíðarskatt tekjum til ávöxtunar, þarf tekjuskattur að hækka um c.a. 5% upp í 42,3% til að eyða þeim mun.

Hver verður tekjuskattur eftir 30 ár? Tekjuskattur á íslandi er ekki hár miðað við nágrannalöndin og því ekki al vitlaust fyrir sjóðsfélaga að nýta sér það.  

Ragnar Þór Ingólfsson, 16.10.2009 kl. 10:25

10 Smámynd: Ármann Kr. Ólafsson

Ragnar kemur fram með marga góða punkta og ég hvet alla til að lesa grein hans á blogginu. Við punkta Ragnars má bæta að inn í útreikning lífeyrissjóðanna vantar auknar tekjur þeim til handa vegna hraðari efnahagsbata sem þessi leið gefur af sér (sbr. Ragnar um mikilvægi kaupmáttar). Það væri áhugavert ef hagfræðingar gætu gefið einhverja hugmynd um það.

Ármann Kr. Ólafsson, 16.10.2009 kl. 10:58

11 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

Ég hefði haldið að það væri lögleysa að skattleggja greiðslur í lífeyrissjóði. Tvísköttun.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.10.2009 kl. 13:09

12 Smámynd: Jón Steinar Ragnarsson

"Þetta er hækkun á skatttekjum ríkissjóðs án þess að skattar séu hækkaðir, í því liggur ávinningurin..."

 Ég verð nú að segja að þetta ber nú ekki greind þinni gott vitni.

Jón Steinar Ragnarsson, 16.10.2009 kl. 13:11

13 identicon

Þetta er mjög góð tillaga og "óskiljanlegt" að lífeyrissjóðir séu á móti þessu. Margir sjóðir hafa sóað fjármunum með óábyrgum fjárfestingum síðustu misseri. Þessi tilllaga leiðir til hækkunar á skatttekjum ríkisjóðs án þess að skattar séu hækkaðir á almenning. Mjög góð tímabundin leið til að minnka fjárlagahallann.

Viggó Hilmarsson (IP-tala skráð) 16.10.2009 kl. 13:26

14 Smámynd: Ármann Kr. Ólafsson

Jón Steinar, það er ekki um tvísköttun að ræða þar sem ekki hefur verið greiddur skattur af inngreiðslum. Ekki verður heldur tekinn skattur af útgreiðslum ef greiddur hefur verið skattur af inngreiðslunum.

Aths. þín nr. 2 ber þess vitni að greind þín er greinilega langt fyrir ofan mína. Mest hissa á að þú skulir eyða tíma þínum í menn eins og mig.

Ármann Kr. Ólafsson, 16.10.2009 kl. 13:28

15 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Jón Steinar

Ef þú lest grein mína um málið sem er birt á bloggi mínu og mun birtast í mogganum, einhverja næstu daga sérðu betur um hvað málið snýst.

Þessir peningar eru komnir inn í hagkerfið er eru eyrnamerktir ríkinu í framtíðinni. Ríkið er að lána sjóðsfélögum framtíðarskattekjur til ávöxtunar.

Miðað við stöðuna í dag er ríkið að lána lífeyrissjóðunum framtíðarskattekjur sínar á 1,1% Raunvöxtum en eru að greiða vexti af Ice Save 5,5%. 

Icesave er skuld skattgreiðenda, og er þar af leiðandi greidd af okkur sjálfum með neikvæðum vaxtamun.

Ég hef bent á þá leið að gera þetta tímabundið í 5 ár, meðan við erum að komast í gegnum erfiðasta hjallan og stofna sérstaka deild um þær inngreiðslur sem skattlausan lífeyri, sem ekki er hægt að tekjutengja.

Það að skattekjur hækki vegna launahækkana eða vegna þess að skatttekjur eru innheimtar strax en ekki lánaðar til langs tíma (með tilheyrandi áhættu) gildir einu.

En það er ekki verið að hækka skatta sem er algjört grundvallaratriði ef ekki á kippa í burtu þeim litla kaupmætti sem eftir er af heimilum í landinu. Ég get ekki hugsað það til enda og varla þori því ef að ríkið ætlar að demba 60-80 milljarða álögum á fjölskyldur og fyrirtækin. En þá fyrst verður ALVÖRU kreppa.

Hvað ætli lífeyrissjóðirnir séu búnir að tapa nú þegar, miklu af framtíðarskatttekjum ríkissjóðs?

Þessi leið skilar tekjum sem jafngilda rúmlega 6% hækkun á tekjuskattstofni.

Ég spyr Jón Steinar: Hvaða aðra leið telur þú raunhæfa til tekjuöflunar? 

Ragnar Þór Ingólfsson, 16.10.2009 kl. 14:39

16 Smámynd: Ragnar Þór Ingólfsson

Mér barst tölvupóstur með ábendingu vegna samlíkingar minnar í fyrri færslu minni á þessu bloggi.Til að leiðrétta allan misskilning hef ég aldrei talað um að samkynhneigð væri sjúkdómur. Mér finnst hinsvegar broslegt þegar ég les málflutning, ákafra guðsmanna um að sllíkt sé læknanlegt og var skýrskotun minni beint að þeim.

Ragnar Þór Ingólfsson, 16.10.2009 kl. 18:58

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband