Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag
21.6.2008 | 23:22
Lengri sólardaga og lengri helgarfrí
Í morgunblaðinu í Sunnudaginn 22. júní var fréttaskýring sem bar yfirskriftina: “Sól en flestir sofa”, fjallaði Rúnar Pálmason fréttamaður um kosti og galla þess að taka upp sumartíma. Í lok fréttaskýringarinnar segir hann: “Miðað við áhugaleysi þingheims er reyndar ekki mikil hætta á að slík breyting verði gerð”. Þar á hann við að klukkunni verði flítt yfir sumartímann.
Það má vera að þetta sé rétt hjá fréttaskýrandanum en þetta á að minnsta kosti ekki við um mig. Á þingflokksfundi í vor tilkynnti ég þingflokki Sjálfstæðisflokksins að ég mundi leggja fram þingsályktunartillögu um að Alþingi myndi fela ríkisstjórninni að kanna hvort ástæða sé til annars vegar að taka upp sumartíma á Íslandi og hins vegar að flytja sumardaginn fyrsta, verkalýðsdaginn og hugsanlega fleiri frídaga að helgum í því skyni að landsmenn fái betra tækifæri til þess að njóta sumarsins og lengri helga á öllum árstímum. Því miður náði ég þessu ekki þar sem síðustu dagar vorþings snúast um annir í kringum frumvörp ríkisstjórnarinnar en ekki óbreyttra þingmanna.
Ofangreindar hugmyndir hafa oft verið til umræðu og tillögur þess efnis fluttar á þinginu áður. Það hefur þó ekki gengið eftir að skipulega hafi verið tekið á þessum málum af hálfu stjórnvalda. Vonast ég til eins og aðrir sem hreyft hafa við málinu að farið verði yfir kosti málsins og galla út frá þeim þjóðfélagsbreytingum og í raun breyttum lífsstíl landans frá því að ákveðið var að festa tímann.
Ef tekinn er upp sumartími færist hið náttúrulega hádegi frá um hálf tvö til um hálf þrjú á daginn. Þetta þýðir að í raun mundi þjóðin vakna fyrr á sumrin og byrja daginn fyrr. Það þýðir líka að sólarinnar nýtur lengur þegar fólk kemur úr vinnu og það verður hlýrra fram eftir deginum yfir sumarið. Þetta gæfi okkur því betra tækifæri til þess að njóta sumarsins og skapaði án efa betri sumarstemningu með öllu sem því fylgir, svo sem auknum möguleikum á frekari samverustundum með fjölskyldunni.
Þessu til viðbótar hafa landsmenn verið minntir á það síðustu daga að breyting á sumartíma er mikilvægara fyrir suma íbúa þessa lands en aðra, eins og fréttaskýringin kemur inn á og sjálfsagt að taka tillit til þess. Háir fjallagarðar hafa það í för með sér að misjafnlega kvöldsett er eftir því hvar búið er á landinu. Seyðfirðingar hafa bent á þetta og berjast nú fyrir því að flýta klukkunni um tvo klukkutíma vegna þess hve snemma sól sest þar á daginn. Sömu sögu má segja á Bíldudal og mörgum öðrum stöðum á landinu. Það er því eðlilegt að horfa til þessarar sérstöðu sem ýmsir landsmenn búa við.
Í frettaskýringunni er bent á að flýting sumartíma hefði það í för með sér að kaldara yrði á morgnana sem hefði það í för með sér að t.d. að þeir sem legðu snemma á Esjuna myndu finna fyrir meiri kulda. Eins er bent á það að hafgola eða innlögn kæmi seinna um daginn. Hafandi búið á Akureyri og Patreksfirði og verið í sveit í Eyjafirði verð ég að segja eins og er að ég hefði verið þessu feginn. Þannig hefði ég haft betra veður á vinnutíma þar sem ég hef ekkert að segja um stund og stað. Hins vegar hefði ég getað farið í skjól eftir vinnu án þess að nokkur amaðist yfir því.
FrídagarÍslendingar taka aðjafnaði þrjá fasta frídaga á fimmtudögum, skírdag, uppstigningardag og sumardaginn fyrsta ef svo háttar ekki til að skírdagur og sumardagurinn fyrsti falli saman. Skírdagurinn hefur þá sérstöðu í hópi fimmtudagsfrídaganna að falla inn í páskahelgina með föstudeginum langa og öðrum í páskum en hinir tveir, uppstigningardagur og sumardagurinn fyrsti, falla á fimmtudaga án þess að frídagur sé á undan eða á eftir. Annar hátíðisdagur um sama leyti er verkalýðsdagurinn 1. maí.
Hafandi verið bæði launþegi og atvinnurekandi þykir mér augljóst að hagræðing yrði að því að tengja staka frídaga við helgi. Það er þekkt víða um heim að stakir frídagar eru notaðir til þess að fjölskyldur geti átt langa fríhelgi sem væntanlega er öllum kærkomin. Jafnframt er augljóst óhagræði af því fyrir margar atvinnurekendur að brjóta um vinnuvikuna með stökum frídögum þar sem slíkar vikur eru í raun með tvo “föstudaga” sem víða veldur miklu losi á á vinnustöðum. Um þetta hefur verið rætt tengslum við kjarasamninga og a.m.k. einu sinni voru aðilar vinnumarkaðarins mjög nálægt því að gera sameiginlega tillögu í þessa veru.
Ég hef alltaf verið fylgjandi því að gera breytingar í þessa veru og því mun ég fylgja málinu eftir strax eftir að þing kemur saman í haust. Ég geri mér fulla grein fyrir því að það er rétt sem fram kemur hjá Rúnari Pálmasyni að ekki eru allir á einu málu um þessar breytingar en vonandi tekst að vinna þeim fylgi.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 22.6.2008 kl. 11:08 | Slóð | Facebook
21.6.2008 | 17:18
Af frábærum landsleik og kynbundnum sektarmun
Var að koma af frábærum landsleik Íslands og Slóveníu. Ísland var algert yfirburðarlið á vellinum og sáu andstæðingarnir aldrei til sólar en leikurinn endaði með 5-0 sigri Íslands. Allar áttu íslensku stelpurnar frábæran leik en Margrét Lára sýndi það enn og sannaði hvað hún er mikilvæg fyrir liðið þar sem hún var með þrennu í leiknum og skoraði sitt 40. mark fyrir landsliðið. Þóra markmaður var heppin að sólin skein því enga fékk hún hreyfinguna. Nú er næsta skref bara EM, þær klára það dæmi ef þær leika eins og í dag. Hefði bara viljað að fleiri hefðu notið þess að fylgjast með leiknum því mætingin var ekki nógu góð.
Gæti verið að slök mæting sé Bílastæðasjóð að kenna?
Það voru fleiri en leikmenn íslenska landsliðisins sem gengu vasklega fram. Starfsmenn Bílastæðasjóðs áttu líka flottan leik fyrir borgina og spiluðu djarfan sóknarbolta þar sem þeir mættu á bílastæðin kl. 14.00, á sama tíma og leikurinn byrjaði og sektuðu alla sem lögðu utan stæða við Laugardalinn. Ég Kópavogsbúinn borga þessa sekt auðvitað glaður þar sem ég þekki stöðu borgarsjóðs. Það hlýtur samt að vera umhugsunarvert fyrir KSÍ hvort jafnræðis sé gætt á milli karla og kvennaknattspyrnu í þessum efnum og eins hvort þessari aðferð er beitt við alla viðburði í Laugardalnum eins og t.d. stórsýningum og tónleikum. Þarna hlýtur að þurfa að gæta jafnræðis og eitt er víst að ef um kynbundin sektarmun er að ræða þá er Bílastæðasjóður ekki í góðum málum. Sendi hér með boltann yfir til Jafnréttisstofu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:19 | Slóð | Facebook
12.6.2008 | 11:35
Óþægir Írar kjósa um framtíð ESB
Írar ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu í dag um hinn svonefnda Lissabon-sáttmála. Þótt heiti sáttmálans láti ef til vill ekki mikið yfir sér er efni hans gríðarlega þýðingarmikið fyrir Evrópusambandið, enda er sáttmálinn efnislega sá sami og stjórnarskrá sambandsins. Örlög hennar réðust einmitt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þremur árum í Frakklandi og Hollandi, þar sem stjórnarskráin var felld.
Hún gengur nú aftur í formi Lissabon-sáttmálans en munurinn er sá að Írar eru eina aðildarþjóð Evrópusambandsins þar sem íbúarnir greiða atkvæði um sáttmálann. Allar aðildarþjóðir sambandsins verða að samþykkja sáttmálann til þess að hann öðlist gildi og segja má að almenningur á Írlandi hafi því framtíðarþróun sambandsins í höndum sér.
Það er alls ekki auðvelt að átta sig á þeim breytingum sem sáttmálinn boðar, því hann er í sjálfu sér ekki annað en langur listi yfir breytingar á tilteknum lagagreinum annarra sáttmála sambandsins. Ekki er langt síðan unnt var að nálgast heildaryfirlit yfir það hvernig regluverkið myndi líta út ef sáttmálinn yrði samþykktur. Charles McCreevy, fyrrverandi fjármálaráðherra Írlands og stuðningsmaður þess að írska þjóðin samþykki sáttmálann, viðurkenndi til að mynda á dögunum að enginn heilbrigður einstaklingur gæti lesið sig í gegnum sáttmálann, svo flókin væri uppsetning hans! Þetta er ágætis dæmi um skrifræðið í Evrópusambandinu, embættismennirnir skilja kerfið (vonandi) en enginn gerir ráð fyrir að almenningur í Evrópu botni neitt í neinu.
Í stuttu máli gengur Lissabon-sáttmálinn út á að breyta ákvörðunartökuferlinu innan Evrópusambandsins og setja á fót ný forystuembætti innan sambandsins. Verði sáttmálinn staðfestur tekur Evrópusambandið stórt skref í átt til sambandsríkis í anda Bandaríkjanna. Þriggja stoða kerfi ESB verður lagt af og Evrópusambandið gert að lögpersónu. Ráðherraráðið mun ekki lengur hafa neitunarvald og þingið fær mjög aukin völd í nánast öllum málum. Embætti forseta og utanríkisráðherra Evrópusambandsins (kallast reyndar „foreign representative") verður komið á fót og þessir nýju leiðtogar munu tala fyrir munn Evrópu út á við.
Kosningin á Írlandi verður tvísýn. Lengi framan af voru „já" sinnar með töluverðan meðbyr í könnunum en dæmið virðist vera að snúast við. Í nýlegri könnun kom í ljós að „nei"-hliðin fengi 35% greiddra atkvæða, „já"-liðar 30% greiddra atkvæða, 28 af hundraði eru óákveðnir og 7% segjast ekki ætla að kjósa.
Ef Lissabon-sáttmálinn verður samþykktur á Írlandi er ljóst að brautin fyrir frekari dýpkun á Evrópusamrunanum er greið. Verði sáttmálinn felldur er framtíðarþróun sambandsins hins vegar í uppnámi. Slík niðurstaða er ekki vinsæl meðal ráðamanna í Evrópu. Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, tjáði sig á dögunum um afleiðingar þess ef Írar myndu fella sáttmálann og sagði að það myndi bitna mest á Írum sjálfum. Hann tók einnig fram að Frakkar, sem taka við forystu í ráðherraráði Evrópusambandsins í júlí, myndu halda áfram að vinna að innleiðingu sáttmálans þó Írar felli hann í atkvæðagreiðslu og reyna að sannfæra Íra um að setja sáttmálann aftur á teikniborðið.
Það er athyglisverður tónn í þessum ummælum. Viðhorfið er á þá leið að óhjákvæmilegt sé að sambandið þróist í áttina að sambandsríki og jafnvel þótt íbúar einstaka aðildarríkis neiti að samþykkja nauðsynlegar breytingar, þá verða þær einfaldlega settar í þann búning sem til þarf svo að rétt niðurstaða fáist. Rétt eins og þegar stjórnarskráin var felld. Nú heitir hún Lissabon-sáttmálinn og var markmiðið með þessum nýja (grímu)búning að aðildaþjóðir Evrópusambandsins létu ekki kjósa um málið. Það markmið tókst nema gagnvart Írum en hótun utanríkisráðherra Frakklands er hins vegar grímulaus gagnvart írsku þjóðinni.
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að kosningaþátttaka í Evrópuþingskosningum er undir 50% því á meðan kerfið tekur undir sig fleiri og fleiri svið fjarlægist það hinum venjulega borgara sem sér að atkvæði hans skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli. Staðan er umhugsunarefni fyrir okkur. Þegar horft er fram á veginn er erfitt að sjá annað fyrir sér en að Evrópusambandið þróist í átt að sambandsríki þar sem áhrif stofnana sambandsins aukast á kostnað aðildarríkjanna. Lítil kjörsókn og lýðræðishalli innan sambandsins hafa verið viðvarandi vandamál innan ESB undanfarin ár og áratugi og með auknum samruna og áhrifum stofnana ESB verður vægi almennings enn minna. Fyrir þjóð eins og Ísland, sem býr við mikla kjörsókn (80-90% í þing- og sveitarstjórnarkosningum) og nálægð við kjörna fulltrúa er hætt við að áhrifaleysið og fjarlægðin innan Evrópusambandsins yrðu okkur framandi.
24.5.2008 | 14:33
Makríll bannaður við veiðar í Þingvallavatni
Það var gott hjá Þingvallanefnd að leyfa einungis flugu, spón og maðk við veiðar í Þingvallavatni. Nú þegar stórurriðastofninn er loksins að hjarna við er nauðsynlegt að fara varlega við veiðar á honum. Það er líka ánægjulegt að nefndin skildi ekki falla í þá gryfju að takmarka veiðarnar einungis við flugu.
Nýja reglan þýðir að eftir sem áður hafa allir tækifæri til að veiða við vatnið þar sem gamla góða kaststöngin er áfram leyfð. Ég hvet allar fjölskyldur til þess að gera sér ferð í vatnið til að veiða og njóta útiverunnar í einu fegursta umhverfi jarðarinnar.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:40 | Slóð | Facebook
23.5.2008 | 23:34
Til hamingju Jakob Frímann
24 Stundir réðust að Jakobi Frímanni í dag. Mér finnst augljóst að einhver lausatök séu á ritstjórninni um þessar mundir þegar einn besti blaðamaður landsins Ólafur Þ. Stephensen er að færa sig yfir á Morgunblaðið. Persónuleg árás af þessum toga hefði ekki verið liðin undir stjórn Ólafs, ritstjórans sem gerði Blaðið að virtu dagblaði.
Jakob hefur eins og allir vita marga fjöruna sopið og oft lagt allt sitt undir til þess að þjóna listagyðjunni-, ást sinni á tónlist, leik- og kvikmyndalist. Svo þegar Stuðmaðurinn lendir í því að fá tekjur umfram það sem hann hafði reiknað með þá virðist hlakka í mönnum yfir því að hann nær ekki að greiða skatta á tilsettum tíma.
Sjálfur gleðst ég alltaf yfir því að greiða skatta eftirá. Ástæðan er sú að þær greiðslur undirstrika að vel hefur gengið það árið. Til hamingju Jakob með það hversu vel þér gekk á skattaárinu mikla. Ég veit að það sama mun gilda í nýju starfi og þú munt eiga stóran þátt í að bæta ímynd Reykjavíkur.
Stjórnmál og samfélag | Breytt 24.5.2008 kl. 14:42 | Slóð | Facebook
23.5.2008 | 17:45
Hagsmunir almennings felast í minni umferð vöruflutningabíla á vegum úti
Í fyrirspurn til Samgönguráðherra spurði ég um það hversu mikið meira vöruflutningabílar slitu götunum í samanburði við fólksbíla. Í svari hans kom fram að slíkir bílar yllu 9-12.000 sinnum meira niðurbroti á burðarlagi vega m.v. ákveðnar forsendur.
Af þessu má sjá að kostnaður við þungaflutninga er mjög mikill og langt umfram þau gjöld sem greidd eru af þungaflutningabílum. Þar með má segja að þungaflutningar í landinu eru niðurgreiddir af fólksbílaeigendum og öðrum skattgreiðendum. Þetta hefur meðal annars leitt til þess að stórum vöruflutningabílum hefur fjölgað mikið á þjóðvegum landsins.
Eftir að þessi fyrirspurn kom fram hafa mjög margir haft samband við mig og deilt þeirri skoðun með mér að það væri mikils virði ef hægt væri að minnka umferð vöruflutningabíla á þjóðvegum landsins. Það er í raun orðið hvimleitt að fara út á vegi landsins vegna þess hversu mikil umferð þeirra er orðin. Sumir hafa sagt að eðlilegt væri að flutningabílar borguðu í samræmi við slitið sem þeir valda á meðan aðrir hafa talið að rétt væri að létta undir með strandsiglingum fyrst verið er að niðurgreiða vöruflutninga með bílum hvort sem er.
Eitthvað fór þetta allt saman fyrir brjóstið á Signýju Sigurðardóttur forstöðumanni flutningasviðs SVÞ og mátti helst skilja á grein hennar í Morgunblaðinu að svarið sem ég fékk frá samgönguráðherra hafi verið samið af mér sjálfum. Ennþá síður var hún sátt við þær hugmyndir að gera átak í því að minnka vöruflutninga á vegum úti.
Almennt séð er ég á móti niðurgreiðslum. Ég verð þó að segja að í ljósi þess að ekki er raunhæft að auka álögur á flutningabíla þannig að af þeim sé greitt í samræmi við það slit sem þeir valda er rétt að skoða strandflutninga án þess að raun kostnaður sé lagður til grundvallar. Það gæti jafnað samkeppni milli þessara flutningaleiða og þar með dregið úr þungaflutningum á vegum úti. Einkaaðilar myndu engu að síður sjá um flutningana. Auknir strandflutningar myndu fækka slysum, auka gæði þjóvegakerfisins, draga úr sjón- og hávaðamengun. Eðlilegt næsta skref væri að fá hagfræðiúttekt á mismundandi kostnaði þjóðfélagsins við ólíka tegund flutninga. Yrði þá að taka alla þætti inn í útreikninginn eins og t.d. slys og umhverfisþætti.
13.5.2008 | 14:45
Tók Mogginn skortstöðu í íslensku bönkunum?
Er nema von að maður spyrji sig að ofangreindu miðað við áherslurnar sem fram koma hjá blaðinu. (Með skortstöðu hagnast viðkomandi á lækkunum)
Á forsíðu Moggans á þriðjudaginn í siðustu viku var flennistór aðalfyrirsögn þar sem stóð "Bankaáhlaup hafið? Bandarískur hagfræðiprófessor segir litlar líkur á að bankarnir komist hjá áhlaupi".
Í dag var svo önnur frétt um bankana og var fyrirsögnin "Bankarnir inn úr kuldanum". Er þar verið að vitna í fyrirsögn Financial Times.
Svolítið merkilegt að þessi frétt skildi ekki einu sinni fá að birtast sem aukafyrirsögn á forsíðunni án þess að ég vilji gera lítið úr grænmetisfréttinni sem þar var. Ekki fékk hún heldur pláss á innsíðunni, heldur var hún birt á síðu 13.
Er jafnvægi í þessum fréttaflutningi? Ég veit það ekki!
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 14:55 | Slóð | Facebook
11.5.2008 | 18:12
Ánægður með svar fjármálaráðherra
Þegar ég fór í prófkjör í aðdraganda síðustu kosninga var það eitt af stefnumálum mínum að koma á húsnæðissparnaðarreikning fyrir ungt fólk sem væri að kaupa í fyrsta sinn. Slíku kerfi skildi ætlað að hvetja til sparnaðar í stað þess að hvetja til lántöku eins og núverandi vaxtabótakerfi gerir. Ég var síðan svo heppinn að fjármálaráðherra skipaði mig í nefnd sem m.a. var ætlað að auðvelda þeim sem væru að kaupa sína fyrstu íbúð að stíga það skref. Ég gat því með hans fulltingi fylgt þessum hugmyndum eftir inni nefndinni sem varð til þess að ein af tillögum nefndarinnar var að koma á húsnæðissparnaðarrreikning.
Þessi sértæki sparnaður rataði svo inn yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 17. febrúar, í tengslum við kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Þar er sagt að komið verði á húsnæðissparnaðarkerfi með skattafrádrætti fyrir einstaklinga 35 ára og yngri til að hvetja til sparnaðar hjá þeim sem hyggja á fyrstu kaup eigin húsnæðis eða búseturéttar.
Það var svo í óundirbúnum fyrirspurnum síðastliðinn síðastliðinn þriðjudag að ég spurði fjármálaráðherra að því hvenær von væri á tillögum um ofangreinda sparnaðarleið.
Í lokin á svari sínu segir hann: "Ég geri mér vonir um að geta lagt fram til kynningar á þessu þingi frumvarp um húsnæðissparnaðarreikninga en það gengur auðvitað á tímann, það er ekki mikill tími eftir. En ég mun kappkosta að geta lagt slíkt frumvarp fram til kynningar áður en þingið fer í sumarleyfi".
Ég verð að viðurkenna að ég var ánægður með ráðherrann þennan dag því það er eitt helsta einkenni Árna M. Mathiesen að tala varlega og yfirleitt segir hann minna heldur en meira. Þegar hann svo tekur til máls með þessum hætti veit ég að það er farið að sjá fyrir endann á þessu máli.
Svar fjármálaráðherra. http://www.althingi.is/raeda/135/rad20080506T135918.html
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:28 | Slóð | Facebook
5.5.2008 | 23:21
Átta starfsmenn Landspítala ávítaðir
Ofangreind fyrirsögn var fyrirsögn í Fréttablaðinu 29. apríl. Það hefur komið á óvart hversu litla umfjöllun þetta mál hefur fengið. Ástæða áminninganna var sú að rannsókn innan LSH leiddi í ljós að tugur starfsmanna hafði skoðað sjúkraskrá þekkts manns sem þar hafði leitað lækninga.
Tveir starfsmenn gátu sýnt fram á að þeir höfðu gildar ástæður fyrir að skoða gögn um manninn en átta starfsmenn hafi gert það af hnýsni einni saman.
Hvernig hefði umfjöllunin orðið ef þetta hefði gerst í hjá einkaaðilum? Hvað hefði Ögmundur Jónasson sagt ef þetta hefði gerst í einkafyrirtæki?
4.5.2008 | 23:00
Siv fer með rangfærslur
Það var fróðlegt að horfa á Silfrið í dag og sjá Siv Friðleifsdóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra takast á við Guðlaug Þór Þórðarson núverandi heilbrigðisráðherra. Ráðherrann fór ítrekað yfir það að hans markmið, markmið Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar væri að veita enn betri þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Maður skildi ætla að það gæti verið markmið sem þverpólitísk samstaða næðist um. Svo var alls ekki, heldur virtist það skipta höfuð máli í hvaða stéttarfélagi þeir væru sem veita ættu þjónustuna og ljóst að hún yrði alveg ómöguleg ef opinberir starfsmenn sæju ekki um hana. Heilbrigðisráðherra benti á að ekki skipti máli hvort ríkið væri að kaupa þjónustu af einkaaðilum eða opinberum aðilum svo framarlega sem verið væri að bæta þjónustu við almenning.
Siv lét sér ekki segjast og sagði að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að einkavæða heilbrigðisþjónustuna þrátt fyrir að bæði Guðlaugur Þór og Björgvin G. Sigurðsson segðu að það yrði ekki hvikað frá því að allir myndu standa jafnir frammi fyrir þjónustunni og ríkið yrði kaupandinn. Á þetta var ekki hlustað og hélt hún því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sett það í ályktun sína að einkavæða ætti heilbrigðisþjónustuna: "Það stendur einkavæðing", sagði Siv.
Hvar spyr ég? http://xd.is/?action=landsfundur_nanar&id=591
Það er ekki búið að einkavæða Vegagerðina þó svo að einkaaðilar annist einstakar framkvæmdir fyrir hana.