6.2.2010 | 12:45
Kópavogur stendur vörð um barnafjölskyldur
Þeir efnahagserfiðleikar sem ganga yfir íslenskt þjóðfélag rista æ dýpra og nú er að koma í ljós að viðkvæmustu einstaklingarnir í þjóðfélaginu, börnin okkar, eru ekki undaskilin. Barnafjölskyldur hafa margar farið sérstaklega illa út úr efnahagshruninu. Tilvera margra þeirra hefur snúist á hvolf og óréttlætið er mikið. Fasteignir hafa lækkað, erlend lán hafa stökkbreyst og íslensk lán hækkað upp úr öllu valdi. Atvinnuleysi ógnar öllum.
Börn fara verst út úr kreppunni
Í nýlegu viðtali segir landlæknir að það séu börnin sem fara verst út úr kreppunni. Tilkynningum til stofnana sem fylgjast með líkamlegri og andlegri velferð þeirra fjölgar stórum skrefum. Ástæðurnar eru margar. Börn skynja aukna spennu í samskiptum foreldra auk þess sem þrengri fjárhagur kemur beint niður á daglegri tilveru þeirra með ýmsu móti.
Það er ljóst að þau vandamál sem efnhagshruninu fylgja koma öllum við, ungum sem öldnum, fyrst svo er komið að þau koma svona hart niður á börnum okkar. Enginn er undanskilinn og hver og einn verður að gera sitt besta.
Byrðum verður dreift á sanngjarnan máta í Kópavogi
Eitt mikilvægasta verkefni Kópavogsbæjar er að standa með barnafjölskyldum á þessum erfiðu tímum. Það verður að dreifa auknum byrðum samfara kostnaðarhækkunum með sanngjörnum hætti og standa sérstakan vörð um þá er verst hafa farið út úr þessum mestu efnahagshamförum lýðsveldissögunnar. Í nýrri fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar er því hækkunum á grunnþjónustu sem barnafjölskyldur treysta á stillt mjög í hóf og eru þær innan verðlagshækkana.
Ég er sannfærður um að almenn sátt ríki um þessa nálgun hjá Kópavogsbúum, ungum jafnt sem öldnum. Ég er jafnframt sannfærður um að friður mun ríkja um þær aðgerðir bæjarstjórnar Kópavogs sem byggjast á þessari nálgun. Auknum byrðum vegna almennra kostnaðarhækkana verður að dreifa á sanngjarnan máta.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook