Fjórflokkabræðingurinn var andvana fæddur

Síðustu 100 dagar hafa verið skrautlegir hvað pólitík varðar í borginni og örugglega ekki til þess fallnir að lyfta henni á hærra plan. En merkilegt er hvað vinstri menn eru glúrnir við að stimpla allt sem þeir sjálfir gjöra sem sjálfsagt, eðlilegt og í þágu lýðræðisins en ef Sjálfstæðisflokkurinn spilar eftir sömu leikreglum þá er það árás á lýðræðið. Þannig þótti R-listanum sjálfsagt og eðlilegt að láta völd í Reykjavík snúast um það að Sjálfstæðisflokknum væri haldið frá ráðhúsinu í 12 ár þrátt fyrir að vera stærsti flokkurinn með um 40% fylgi. Fyrir 100 dögum síðan þótti svo sjálfsagt að mynda fjögurra flokka borgarstjórn í sama tilgangi. 

Sá bræðingur var sagður traustur og af yfirlýsingum að skilja þá var ekki nokkur veikur hlekkur í samstarfinu. En auðvitað vissu allir að þetta gat aldrei gengið upp og strax á fyrstu dögunum kom vandræðagangurinn fram. Ekki var nokkur leið að bræðingurinn kæmi sér saman um málefnasamning. Gífuryrði um stöðu Orkuveitunnar gufuðu upp  og við tók ferli sem enginn skildi og nú síðast Laugavegsfarsinn þar sem 4 skoðanir jafn margra flokka tókust á. Þá var stöðnun á öllum sviðum enda fór allur tími í að miðla málum milli flokkanna fjögurra. Þetta var skv. forystumönnum "fjórflokksins" hinn stjórntæki meirihluti í Reykjavík og framgangur lýðræðisins.

Í þeirri stöðu sem nú er upp komin vilja sumir borgarfulltrúar og Alþingismenn breyta kosningalögunum þannig að hægt sé að efna til auka sveitastjórnarkosninga ef upp koma vandamál. Þetta er fullkomlega óábyrg afstaða. Hvað væri þá eiginlega oft búið að kjósa í Reykjavík á þessu kjörtímabili eða því síðasta?

Ein helsta ábyrgð sveitastjórnarmanna er að setja hagsmuni sveitarfélagsins í fyrsta sæti og mynda trausta sveitastjórn. Þeir sem eru í pólitík í þeim tilgangi að halda stjórnmálaflokki, sem hefur hátt í helming kjósenda á bak við sig, frá völdum af einhverjum óútskýranlegum ástæðum eru í pólitík á röngum forsendum. Slík afstaða er ólýðræðisleg og leiðir til þess að ekki er hægt að mynda þann meirihluta sem klárlega væri sveitarfélaginu fyrir bestu. Fyrir þetta hefur Reykjavíkurborg liðið um langt skeið og hefur borgarstjórafæribandið vart undan að flytja nýtt fólk inn og útúr ráðhúsinu.


Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnlaugur B Ólafsson

Stundum þegar menn eru að lýsa eiginleikum annarra lýsir maður sjálfum sér, en ekki alltaf. Held að þessi lýsing á að einhver meirihluti sé andvana fæddur sé góð lýsing á þeim sem að keypt hefur sig í stólana á morgun. Ekki mikill lífsneisti þar. Giísli Marteinn síkáti er meira að segja búin að tapa brosinu og geislabaugnum.

Gunnlaugur B Ólafsson, 23.1.2008 kl. 16:18

2 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Sæll Ármann

Ég hef ekkert nema góða sögu að segja af heiðarleika þínum og fjölmargra annarra Sjálfstæðismanna sem ég hef kynnst náið bæði persónulega og á pólitískum vettvangi í Kópavogi og annarstaðar. Mikilvægt er þá að rugla ekki saman því að vera á öndverðum meiði við einhvern og ráðvendni hans. 

- Það er því auðvitað ekki rétt að dæma allan Sjálfstæðisflokkinn af verkum félaga ykkar í Reykjavík, - en að mínu viti er ekki saman að jafna þegar samstarf Framsóknarflokks og Sjálfsstæðisflokks sprakk eftir mikinn fyrirgang í haust, og fyrirferðamikinn aðdraganda og mikil innri átök hjá Sjálfstæðisflokki og svo því að Sjálfstæðismenn sæki einn mann inn í það samstarf sem nú var tekið við með tilboði um „allt“ og spilar á persónulegan hégóma um borgarstjórastól og 70% af málefnaskránni eins og Ólafur segir sjálfur.

Þetta er með öllu óþekkt í íslenskri stjórnmálasögu en sannar nú fyrir almenningi að í stjórnmálum sé allt falt fyrir rétt verð hvenær sem er - bæði æra, stólar og málefni. 

Helgi Jóhann Hauksson, 23.1.2008 kl. 16:55

3 identicon

ÚPS.... Af hverju er sjáfstæðismönnum horfið allt siðgæði?  Jú valdabaráttan hefur farið svona með þá.  Þetta sjá meira að segja grunnskólakrakkarnir.

Siggi Þórarins (IP-tala skráð) 23.1.2008 kl. 18:41

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband