1.2.2008 | 11:17
Stöðugleiki er forsenda þess að taka upp annan gjaldmiðil
Það er einungis nokkrir dagar síðan ég byrjaði að blogga og þessar örfáu færslum mínar tengjast allar borgarstjórnarskiptunum. Nú er mál að linni.
Í þinginu í gær var mikil og góð umræða um Evrópumálin og komu margar skoðanir fram. Bjarni Benediktsson formaður utanríkismálanefndar þingsins fjallaði, eins og hann hefur reyndar gert áður, um mikilvægi þess að Alþingi kæmi mun meira og fyrr að stefnumótun og einstökum ákvörðunum varðandi Evrópumálin. Þá var mikil umræða um Evruna og hvort rétt væri að taka hana upp. Steingrímur J. Sigfússon og varði krónuna með kjafti og klóm á meðan Árni Páll Árnason hélt fram kostum þess að taka upp Evruna. Mörg rök eru með og á móti en hvar sem menn standa í pólitík er ljóst að staða krónunnar er orðin miklu veikari eftir að alþjóðavæðingin hélt innreið sína inn í íslenskt efnahagslíf.
Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins vekur athygli á því í blaðinu í dag að það sé rétt að staða okkar innan Evrópu sé að veikjast vegna þess að alþjóðastofnanir sem við erum aðilar að eru orðnar veikari en áður. Staða Evrópu er líka að breytast, valdahlutföll heimsins eru önnur en fyrir nokkrum árum síðan og því verður að skoða stöðu Íslands í því samhengi. Kína er orðið mikið efnahagsveldi nú þegar, Indland stefnir í sömu átt og Rússland hefur styrkt stöðu sína hratt í efnahagslegu tilliti.
Af þessu má sjá að staðan er ekki einföld og engan veginn augljóst að hagsmunir Íslands liggi í því að taka upp Evruna. Hins vegar þurfum við að koma efnahagsmálum okkar í þann farveg að við getum tekið upp annan gjaldmiði ef við teljum það rétt. Til þess þarf að koma á stöðugleika í efnahagsmálunum, ná verðbólgunni og vaxtastiginu niður og auka jafnvægi í inn- og útflutningi svo eitthvað sé nefnt. Það er nærtækasta verkefnið og stendur stjórnmálamönnum næst. Eitt af því sem er nauðsynlegt til að árangur náist er að einbeita sér að ríkisútgjöldunum og vonast ég til þess að þeir stjórnmálamen sem horfa til upptöku annars gjaldmiðils en krónunnar einbeiti sér að þessu verkefni og skal ég styðja þá í því hvar og hvenær sem er.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt 2.2.2008 kl. 23:03 | Facebook