3.3.2008 | 18:47
Báknið kjurt eða báknið burt?
Þrátt fyrir að sífellt sé verið að tala um nauðsyn þess að draga úr umsvifum hins opinbera þá er þróunin stöðugt í þá veru að umsvifin aukast. Gjarnan er gripið til þeirrar skýringar að þar sem þjóðfélagsgerðin sem hefur mótast á undanförnum árum og áratugum í kjölfar upplýsingabyltingarinnar sé mjög flókin og mun flóknari en sú sem mótaðist samfara iðnbyltingunni. Má þá að sama skapi spyrja er það eðlilegt að sú tækni sem við skópum til að einfalda okkur lífið skuli gera það sífellt flóknara?
Í svari við fyrirspurn sem ég lagði fyrir fjármálaráðherra fyrr í vetur kemur fram að þrátt fyrir mikinn vöxt í íslensku atvinnulífi og tilkomu margra nýrra atvinnugreina þá hefur störfum hins opinbera fjölgað meira sl. 10 ár en á almennum vinnumarkaði. Þá er mikil umræða um eflingu einstakra stofnana og nauðsyn þess að stofna til nýrra. Nýjasta dæmið er frumvarp um skipulags og byggingarlög sem gerir ráð fyrir því að koma á fót sérstakri byggingarstofnun vegna þess að Skipulagsstofnun sinnti því hlutverki ekki nægilega vel.
Í þessum vangaveltum mínum bæði í þinginu og í fjölmiðlum hef ég talað um "báknið kjurt" sem er skírskotun til gamla frasans "báknið burt". Hef ég með því reynt að undirstrika það að við erum ekki að ná árangri í að minnka báknið. Í skýrslunni; Alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi, sem gefin var út í október 2006 er komið inn á aðgerðir til að einfalda stjórnkerfið. Ein aðgerð sem ætti að mínu mati að geta komið til framkvæmda strax fjallar um að hvert og eitt ráðuneyti geri áætlun um einföldun stjórnsýslu þeirra málaflokka sem undir það heyra. Það getur falist í því að uppfæra og einfalda lög og reglugerðir, samræma reglur og einfalda þær með þarfir borgaranna í huga. Slíkar áætlanir skulu byggja á raunhæfum og mælanlegum markmiðum.
Ég tel að þetta þetta sé eitthvað sem ráðast ætti í sem allra fyrst. Þegar búið væri að móta málið betur ætti reglan að vera sú að með hverju frumvarpi fylgdi greinargerð sem skýrði með hvaða hætti ný lög einfölduðu stjórnsýsluna. Er eftir einhverju að bíða?
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 18:50 | Facebook
Athugasemdir
Já, ótrúleg þróun og okkur Sjálfstæðismönnum a.m.k. verulegt umhugsunarefni nú þegar við höfum setið í stjórnarráðinu í tæp 17 ár. Það hlýtur að vera hægt að hægja á þessari sífelldu útþennslu, fækka stofnunum og nefndum og spara þannig í ríkisrekstrinum. Lykillinn að þeirri yfirferð er örugglega sá að spyrja sig í hverju tilfelli fyrir sig hvort ríkið þurfi að hafa hönd í bagga með málinu eða hvort verkefnið sé betur komið hjá öðrum. Af nógu er að taka, því miður.
Gunnlaugur Auðunn Ragnarsson, 4.3.2008 kl. 10:35
Bákið kjurt, fjölgun opinbera starfa á ekki minnst rót sína að rekja til stærðar Sjálfstæðisflokksins (regnhlífarsamtakanna) hann hefur flesta munna að metta, og á þar að auki óhægt með að hreyfa við starfsmönnum er hafa verið ráðnir á pólítískum forsendum af samtökunum. Skif þin Ármann lýsa vel hver er munur á milli þess sem talað er um mismuninn á milli orðs og æðis.
haraldurhar, 4.3.2008 kl. 12:30
Sjálfstæðismenn tala samkvæmt venju tungum tveim! Skattar sem hlutfall af landsframleiðslu hækkar og hækkar, djélistinn kallar það skattalækkanir. Flokkurinn segist vilja minni umsvif hins opinbera: Báknið burt! Báknið þennst út, og þennst aldrei meira út en einmitt þegar djélistinn situr að völdum. Enda er flokkurinn regnhlífasamtök fyrir einkavinafyrirgreiðslu og sjálfshygli. Sem sagt sukk og svínarí! Flokkurinn er stór. Það þarf mikið ríkisbatterí til að hægt sé að koma flokksmönnum, vinum þeirra og ættingjum á ríkisjötuna! Eitt lítið dæmi: Sendiherraskipanir Davíðs Oddssonar þessa fáu mánuði sem honum tókst að hanga í embætti Utanríkisráðherra. Annað dæmi: Skipun Ólafs G. Einarssonar þáverandi menntamálaráðherra á hugmyndafræðingi flokksins í starf við Háskóla Íslands. Og reyndar má svo benda á allar mislukkuðu embættisveitingar flokksins fyrr og síðar.
Auðun Gíslason, 4.3.2008 kl. 15:35