Er rétt gefið úr ríkissjóði, sameiginlegum potti okkar allra?

Gjarnan er rætt um nauðsyn þess að bæta kjör þeirra sem minnsta hafa á milli handanna og hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Þetta eru göfug markmið sem ég tek undir. Um leið er ljóst að það er Alþingis að ákveða hvernig deilt er úr okkar sameiginlega potti, ríkissjóði.

Mikið hefur verið talað um mannréttindi einstaklinganna og rík krafa gerð um það við útdeilingu allskyns bóta að ekki sér horft til tekna maka og ýmissa aukatekna. Þ.e. að bætur skerðist ekki hjá einum vegna tekna sem annar aflar og t.d. vaxtatekjur skerði ekki bætur. 

Þessar breyttu nútímaáherslur hafa haft það í för með sér að Alþingi hefur verið að hækka mest bætur hjá þeim sem oft á tíðum hafa það best, að því gefnu að við séum tilbúin til þess að horfa á fjölskylduna sem einingu. Þannig hafa hjón, fjölskyldur, með mörg hundruð þúsund í tekjur á mánuði verið að fá hækkun sem nemur tugum þúsund á mánuði. Þetta gerist á meðan í kerfinu eru fjölmargir einstaklingar, fjölskyldur, með um 130 þúsund krónur á mánuði.

Það sem mér hefur líka þótt merkilegt er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lent í því hlutverki að verja tekjutengingar á meðan fulltrúar gamla Alþýðuflokks og Alþýðubandalags sem höfðu forgöngu um tekjutengingar hafa viljað sleppa þeim í mörgum tilfellum. Fyrirfram hefði ég haldið að þessu væri öfugt farið.

Burt séð frá Því; hver er hvað og hvur er hvurs þá standa eftir þessar spurningar. Er verið með sanngjörnum og eðlilegum hætti að deila úr okkar sameiginlega potti, ríkissjóði? Erum við að ná fram markmiðum okkar að bæta kjör þeirra verst settu og hjálpa fólki til sjálfshjálpar? Það held ég ekki.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Heimir Lárusson Fjeldsted

"Erum við að ná fram markmiðum okkar að bæta kjör þeirra verst settu og hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Það held ég ekki."

Ég hlakka til að sjá tillögur þínar Ármann.

Heimir Lárusson Fjeldsted, 6.3.2008 kl. 11:52

2 Smámynd: haraldurhar

    Góður pistill Ármann.

haraldurhar, 6.3.2008 kl. 12:57

3 identicon

Gaman að rekast á þig hér Ármann, þakka þér góðan pistil.

Ég  tek  undir hugrenningar þínar um hvort rétt sé úthlutað úr ríkissjóði.  Klárt mál að ekki eru allir sammála að svo sé.

Okkar stóri sameiginlegi pottur er barmafullur og ekki  öruggt  að rétt sé ausið í „skálarnar“. 

Það er skelfilegt til þess að hugsa að innkoma sumra heimila jaðri við hungurmörk í okkar annars ágæta velferðarþjóðfélagi.    Ef til yrði stofnaður sjálfshjálparstyrkur, ekki er ég viss um að allir nýttu sér styrkinn á þann hátt sem til væri ætlast, við erum misjöfn eins og við erum mörg, þar þyrfti að koma til einhver góð úrræði ef vel ætti til að takast.   

Ég ætla að gefa mér að þú lumir á góðri tillögu, til lausnar þessu máli.

Hitt ber á að líta að hverjum þeim, sem þannig er statt hjá, ber að fá bætur úr almenna tryggingakerfinu sem einstaklingi,  á tillits til tekna maka, ef einhver er, annað er brot á mannréttindaákvæði stjórnarskrárinnar.

Rannveig Margrét Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 6.3.2008 kl. 23:27

4 Smámynd: Ármann Kr. Ólafsson

Sæl Rannveig og þakka þér athugasemdirnar. Þú endurspeglar í raun vandamálið við að deila úr þessum sameiginlega potti okkar, ríkissjóði. Ríkissjóður er ekki barmafullur og tekjur hans munu lækka í kjölfar tekjuminnkunar ýmissa fyrirtækja ekki síst bankanna.

Spurningin sem við stöndum því frammi fyrir er þessi: Ef það minnkar í pottinum eigum við þá að lækka alla jafnt burt séð frá því hverjar heildartekjur fjölskyldunnar eru. Einfaldað dæmi; ef tekjur ríkissjóðs lækkuðu um helming, ættum við þá að lækka alla um helming. Þ.e.a.s. ef einstaklingur á bótum sem er í fjölskyldu þar sem maki er með 1 m. kr. á mánuði ættum við þá að lækka bótaþegan úr þeirri fjölskyldu um helming eins og einstaklinginn (einn í fjölskyldu) sem er með um 130.000 kr. á mánuði? Þetta þýddi að milljón krónu fjölskyldan færi niður í c.a. 925.000 kr. en einstaklingurinn niður í c.a. 65.000 kr. Ef þetta eru mannréttindi þá hef ég misskilið hugtakið en burt séð frá því þá þætti mér þetta siðferðilega rangt. 

Ármann Kr. Ólafsson, 7.3.2008 kl. 21:26

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband