Engin slys takk

Mér brá nokkuð í brún þegar ég var að lesa frétt í 24 stundum í gærkvöldi þar sem verið var að fjalla um ungan mann sem bjargaðist giftusamlega er vinnupallar í Boðaþingi hrundu. Það var auðvitað mjög gott að hann skildi sleppa svo vel frá þessu slysi en hins vegar slasaðist vinnufélagi hans alvarlega. Það sem vakti þó mestu undrun mína var viðhorf byggingastjórans þar sem vitnað er í ummæli hans; það verða alltaf slys.

Ef byggingastjórar hafa almennt þetta viðhorf er komin skýring á því hvers vegna við erum sífellt að fá fréttir af vinnuslysum. Ekki síst fallslysum í byggingariðnaði. Það vakti t.d. athygli mína að með fréttinni var mynd af vinnupöllum við umrædda byggingu en þeir vor ekki með áföstu öryggisneti.

Í mínum huga er með réttu hugarfari og markvissum aðgerðum hægt að koma í veg fyrir öll þessi slys. Fróðlegt væri að vita hvaða reglur og markmið umræddur verktaki hefur sett sér í öryggismálum fyrirtækisins.

Ég hef vakið athygli á þessum málum á Alþingi og sagt að það sé óásættanlegt fyrir alla, bæði einstaklingana og fjölskyldur þeirra, að slasast í vinnunni. Allir eiga rétt á að koma heilir heim að vinnudegi loknum. Ég vil að við setjum okkur núllslysastefnu og til þess að stíga fyrstu skrefin hef ég lagt fram þingsályktunartillögu sem sjá má hér að neðan ástamt krækju í hana og greinargerðina inn á vef Alþingis.

Þá er meðfylgjandi grein sem birtist í Fréttablaðinu 16/2 sl.

 Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að endurskoða innkaupastefnu ríkisins með það að markmiði að:
    a.      tryggja sem best öryggi, heilsu og aðbúnað starfsfólks bjóðenda svo að tíðni slysa og atvinnutengdra kvilla verði lægst á Íslandi meðal OECD-landa,
    b.      koma í veg fyrir óhöpp eða slys við framkvæmdir á vegum hins opinbera.

http://www.althingi.is/altext/135/s/0375.html

 

Engin slys takkÖll viljum við snú heil heim að vinnudegi loknum en því miður eru ekki allir svo heppnir. Rekja má fjölda slysa til þess að ekki hefur verið hugað að öryggismálum við ýmsar framkvæmdir. Slík slys eru með öllu ólíðandi og mega ekki eiga sér stað.Af þessum sökum er ástæða til þess að brýna stjórnvöld til þess að vera fyrirmynd þegar kemur að öryggi við framkvæmdir og gera ríkari kröfur en nú er gert til ýmissa verktaka. Til þess að stuðla að slíkri hugarfarsbreytingu hef ég flutt þingsályktunartillögu sem miðar af  því að fela fjármálaráðherra að endurskoða innkaupastefnu ríkisstjórnarinnar með það að markmiði;a) að tryggja sem best öryggi, heilsu og aðbúnað starfsfólks bjóðenda svo að tíðni slysa og atvinnutengdra kvilla verði lægst á Íslandi meðal OECD landab) að koma í veg fyrir að framkvæmdir hins opinbera valdi óhöppum eða slysum (hér er átt við utanaðkomandi aðila, eins og t.d. vegfarendur, þar sem um vegaframkvæmdir er að ræða). Sem stærsti framkvæmdaraðili á Íslandi getur hið opinbera haft mikið að segja í þessum efnum með því að sýna gott fordæmi og setja reglur þar af lútandi um að val á verktökum og birgjum m.t.t. frammistöðu þeirra í öryggismálum og heilsuvernd.Íslenskt atvinnulíf og samfélag hefur alla burði til þess að verða fyrst til þess að setja sér núll-slysa stefnu rétt eins og við setjum okkur háleit markmið þegar kemur að umferðaröryggismálum.Ríkiskaup og sveitarfélög geta komið miklu til leiðar ef val á verktökum/birgjum byggist á   árangri viðkomandi aðila í öryggis- og heilsuverndarmálum, þ.e.a.s. að bjóðendur þurfi að leggja fram slysa- og atvinnusjúkdómatölfræði og áætlun um hvernig öryggis- og heilsuverndarmálum skuli fylgt eftir. Það er því mikilvægt að setja sér markmið um engin slys, því lág tölfræði slysa bætir ekki stöðuna fyrir þann sem lendir í því eða aðstandendur þeirra. Því hlýtur núll-slysastefna að vera markmiðið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Óskandi væri að eitthvert átak yrði sett af stað og aðhald og eftirlit með framkvæmdum aukið.

Tölur um vinnuslys eru sláandi og banaslysin á Kárahnjúkum og þau fallslys sem hafa orðið í þenslunni eru með öllu óásættanleg. Vonandi verður ekki slegið slöku við þegar kreppir að skóinn í efnahagslífinu. Verktakar sýni meiri ábyrgð!

kær kv.

Kristjana

Kristjana Guðbrandsdóttir (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 12:55

2 identicon

Aðalatriðið er að byggingaverktökum er ekki refsað vegna vinnuslysa,  verk eru stöðvuð smá tíma meðan málið er skoðað. Sektin er aðeins hundrað þúsund þrátt fyrir að afleiðingar af slysinu séu lömun hjá verkamanninum sem fyrir slysinu verður. Þannig var það þegar sonur minn slasaðist við sumarvinnu fyrir nokkrum árum og allar fallvarnir vantaði. Ég held því miður að  mjög margir verktakar séu kærulausir hvað öryggismál varðar.

Hulda Jónsdóttir. (IP-tala skráð) 12.3.2008 kl. 23:32

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband