26.3.2008 | 16:51
Eru bankarnir að hafa óeðlileg áhrif á krónuna?
Fyrir páska og svo aftur í dag hafði ég samband við aðila sem fjármögnuðu bíl sem ég keypti á síðari hluta síðasta árs þegar gengisvísitala krónunnar var í kringum 118. Ég ákvaðað taka lán í íslenskum krónum sem var að því að mér var sagt undantekning þar sem vextir væru svo háir. Ástæðan frá minni hendi var einföld, ég taldi krónuna of hátt skráða og var viss um að hún ætti eftir að veikjast. Fyrir páska fór gengi krónunnar svo í 160 og ætlaði ég þá að breyta yfir í erlent lán, enda hafði mér verið sagt þegar ég tók lánið að það væri ekkert mál. En það var nú aldeilis ekki svo, mér hefur verið neitað í tvígang um slíka breytingu.
Mér finnst þetta vægast sagt döpur þjónusta af hendi viðkomandi fyrirtækis sem er dótturfélag eins stærsta banka landsins. Er nema von að krónan veikist þegar skrúfað er fyrir eftirspurn eftir henni með þessum hætti.
Í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri að bankinn hefði vísbendingar um að einhverjir kunni að haft óeðlileg áhrif á gengi krónunnar. Athyglisvert ekki síst í ljósi þess að kvittur hefur verið um að bankarnir hafi verið að skortselja krónu (selja krónu sem þeir eiga ekki en afhenda síðar) í þeim tilgangi að veikja hana með offramboði. Á sama tíma skrúfa þeir fyrir lántökur í erlendri mynt sem einnig verður til þess að takmarka eftirspurn eftir krónu og þar með veikja hana. Engu að síður eiga þeir yfir 500 milljarða í erlendum gjaldeyri.
Nú reynir á Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið sem hefur það hlutverk að tryggja eðlileg viðskipti fjármálafyrirtækja. Ég vona svo sannarlega að bankarnir hafi ekki verið að stýra genginu til að laga afkomuna hjá sér á kostnað viðskiptavina þeirra og almennings í landinu.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Það þýðir ekkert að vonast eftir heiðarleika þegar bankarnir eru annars vegar. Þetta eru glæpafyrirtæki sem stjórnað er af glæpamönnum sem íslenskir glæpamenn og þjófar meðal stjórnmálamanna stálu frá þjóðinni og gáfu vinum sínum. Áttir þú von á einhverjum messusöng frá þessu glæpahyski?
corvus corax, 26.3.2008 kl. 19:26
Bönkunum er þetta heimilt eins og öllum öðrum. Þeir geta keypt og selt krónur og pund eins og þeim sýnist. Við búum við kerfi þar sem einn stór leikandi á markaðnum getur ráðið gengi krónunnar til hækkunar eða lækkunar eins og honum sýnist. Þetta er jú minnsta myntkerfi í heimi. Þess vegna hef ég allt frá því að krónan var sett á flot hömulauss markaðsgengis gagnrýnt það einmitt á þeim forsendum að bankar eða önnur stórfyrirtæki gætu ráðið genginu og aflað sér gengishagnaðar svo tugum eða hundruðum milljóna skiptir. Þetta er því miður skýrasta birtingarmynd þeirrar gölnu hagstjórnar sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur staðið fyrir og er nú að lenda á fólkinu í landinu.
Jón Magnússon, 26.3.2008 kl. 19:30
Er Íslendingur sem er búsettur í Danmörku og fylgist því af miklum áhuga með því sem er að gerast heima. Mér finnst alveg ótrúlegt að Íslendingar sætti sig við það að fá neitun líkt og gerst hefur í þinu tilfelli og það yfir höfuð að bankarnir leyfi sér að stoppa lán í erlendri mynt þegar gengi krónunnar er veikt. Þeir voru meira en fúsir til þess að lána í erlendri mynt á meðan gengið hélst sterkt þannig að maður spyr sig hvort um eðlilega viðskiptahætti sé að ræða. Þegar ástandið er svona finnst mér ekki við hæfi að Seðlabankinn hlaupi undir bagga og leggi sitt af mörkum við að gera rekstrarumhverfi bankanna betra þ.s. almenningur hefur ekki kost á að skuldbreyta eða taka ný lán á hagkvæmari kjörum en ella. Eins sárt og það er að viðurkenna það þá á gagnrýni erlendra aðila á bankanna fyllilega rétt á sér og að mínu áliti er hún á réttum rökum byggð. Mæli með góðri grein sem ég las á Bloomberg í dag en ekki hefur verið minnst á hana í íslenskum fjölmiðlum. Ef einhver sannleikur er í henni þá hafa Íslendingar ekki séð það versta enn.
Iceland's currency dropped even after the country's central bank yesterday raised its main interest rate to a record 15 percent, which improves its return when bought in so-called carry trades. A rate hike won't reassure investors that the krona is the place to be when parts of the financial economy are falling apart,'' said Mats Olausson, an analyst at SEB AB in Stockholm. If one day of moves in the currency can wipe out a fifth of a year of returns, you're not going to touch it anyway.
Ísland best í heimi? (IP-tala skráð) 26.3.2008 kl. 19:56
Bankarnir eru hlutafélög og stjórnendum þeirra ber skv. skilgreiningu að fylgja hagsmunum hluthafanna. Þetta er augljóst og engin leið framhjá því. Ef þetta rekst á blaður einhverra bitlinga í ríkisstjórn og seðlabanka þá þarf að ræða það. Umræða skapar áhrif. Í hvaða átt hún leiðir þarf að koma í ljós.
Baldur Fjölnisson, 26.3.2008 kl. 23:37
Sæll Ármann,
hef einmitt verið í bílakaupahugleiðingum þessar vikurnar og hugsaði mér gott til glóðarinnar að taka lán í erlendri mynt þegar gengi krónunnar veiktist. Heyrði þá að bankarnir væru hættir að lána eins og þú nefnir og varð auðvitað mjög svekktur. Ég skoðaði þetta hins vegar betur síðast í gær og þá kemur í ljós að t.d. Lýsing er enn að bjóða þessi lán eins og ekkert hafi í skorist, jafnvel 90% af verðmæti bílsins. Þetta er a.m.k. hægt í gegnum Ingvar Helga, B & L og Brimborg og ættu einstaklingar ekki að eiga í neinum vandræðum með að fá þessi lán sjálfir, en tek það fram að ég hef ekki haft samband við Lýsingu til að kanna það til hlítar.
bestu kveðjur, Axel
Axel (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 09:34
Það hefur jákvæð áhrif á sálarlíf mitt að vita til þess að Alþingismönnum sé hafnað rétt eins og mér sótsvörtum almúganum sem þó hefur aldrei komist á skrá hjá Lánstrausti eða viðlíka fyrirtækjum.
Hefur staðið til að skuldbreyta a.m.k. helming núverandi húsnæðisláns í Erlent lán til að minnka verðbólguáhrifin á komandi misserum. Nei það er bara ekki í boði núna! Getur reynt aftur eftir nokkrar vikur (lesist þegar það er orðið hagstætt fyrir okkur í bankanum!)
Já við erum að tala um rétt rúmlega 35% veðhlutfall í húsinu svo það sé á hreinu! Svo ekki er það áhættan sem þeir hræðast!
Viktor (IP-tala skráð) 27.3.2008 kl. 10:21
Ég get verið sammála þeim sem hér hafa bent á frelsi í viðskiptum og að bönkunum beri að hugsa um hlutahafana. Það vill hins vegar þannig til að bankarnir eru lítið án viðskiptavina og þannig hanga hagsmunir viðskiptavina og hlutahafa saman. Þá yrði það ekki gott fyrir hluthafana ef aðgerðir bankana skilja eftir sig fjöldagjaldþrot. Þeir gætu staðið uppi með undirmálslán eins og bankarnir í USA, hverju hefur það skilað hluthöfunum?
Ármann Kr. Ólafsson, 27.3.2008 kl. 10:27
Það er nú líka þannig að stjórnmálamenn eru OFTAST ekkert án kjósenda, þótt að það sé ekki raunin á Íslandi.
Á meðan að stjórnmálamenn vinna ekki hörðum höndum að því að bæta hag kjósenda, get ég ekki skilið frá mínu sjónarhorni hvað það hefur uppá sig að vera að eyða púðri í þessa umræðu.
Það á líka við um þá sem að ekki lengur sitja á Alþingi.
Áddni, 27.3.2008 kl. 11:24
Kæri Ármann
Því miður þá vantar þig aðalatriði þessa máls sem því miður eyðileggur samsæriskenningarnar.
Fyrir þá sem mættu seint í tíma og/eða hafa ekki tekið eftir hvað er að gerast erlendis þá er svokölluð lánakrísa í gangi. Flestir hljóta samt að hafa heyrt af hækkun á "skuldatryggingarálagi" á banka og ríki en minna hefur farið fyrir hvað það þýðir í raun.
Þá erum við komin að kjarna málsins nefnilega að eigendur skuldabréfa sem gefin hafa verið út af íslenskum bönkum eru nauðbeygðir/viljugir að reyna að losna við slíka pappíra af sínum efnahagsreikning. Þegar skuldabréf eru seld með afslætti (bruanútsölu), uppreiknast slíkt yfir í ávöxtunarkröfu sem segja má að sé orðin stjarnfræðileg í dag.
Bankarnir standa semsagt frammi fyrir því vali að kaupa skuldabréf sem þeir eru sjálfir greiðendur að og því áhættulaus á mun hærri ávöxtunarkröfu heldur en íslenskur bílakaupandi er tilbúin að greiða en þar er jú alltaf til staðar skuldaraáhætta. Bottom line hámarksávöxtun og lágmarks áhætta v.s. lágmarksávöxtun og hámarksáhætta.
Það einfaldlega væri heimska af íslenskum bönkum að lána gjaldeyri nema á krónuvöxtum og ekki vilt þú þiggja það í þínum bílakaupum eða hvað ?
Svo er augljós þversögn í samsæriskenningum Davíðs. Með því að hætta að lána í erlendri mynt þvingast landsmenn í krónuvexti sem þannig styður miðlunarferli peningamálastefnunnar. Hver er á móti því núna ?
Jafnframt dregur núverand staða úr erlendri skuldasöfnun en á henni hefur svonefnt "góðæri" síðan 2001 byggt og mætti lýsa sem svo, þeim mun meiri skuldir þeim mun meira góðæri.
Ármann! Hvar varst þú þegar krónan styrktist af völdum lánaflæðis gegn hagsmunum útflutningsatvinnuvega en með hagsmunum innflytjenda og almennri eyðslu um efni fram ? Af hverju komst þú ekki með athugasemdir þá ?
Arnar Sigurðsson, 28.3.2008 kl. 11:36
Sæll Arnar og þakka þér athugasemdirnar.
Bara svo að það sé á hreynu þá bjóst ég við að kjörin sem ég fengi á erlendu láni myndi endurspegla ástandið á lánamarkaðnum. En af því að þú spyrð hvar ég var þegar krónan styrktist af völdum lánaflæðis þá vita þeir sem þekkja mig að ég hafði mikla áhyggjur af því, (var bara ekki byrjaður að blogga). En eins og ég sagði í pistli mínum þá tók ég lán í íslenskri krónu á háum vöxtum þegar gengið var 118. Ég held að það endurspegli það hvaða trú ég hafði á fyrrgreindri styrkingu. Ég gerði mér grein fyrir því að hún var bóla sem bankarnir tóku fullan þátt í. Að sama skapi held ég að nú sé ástandið orðið ýkt í hina áttina.
Þess vegna skil ég ekki af hverju það væri heimska af bönkunum að lána mér í erlendu nú með eðlilegu álagi. Ef svo er hefur heimskan ekki verið minni þegar þeir gerðu allt til þess að hvetja fólk til að taka lán hvort sem það var í íslenskum krónum eða erlendum gjaldeyri til að kaupa bíldruslur eða húsnæði lánað allt að 100%
Ármann Kr. Ólafsson, 28.3.2008 kl. 15:56
Sæll aftur,
Ég skal reyna að útskýra aðeins betur hvers vegna bankarnir vilja ekki lána þér erlendan gjaldeyri sinn með því sem þú kallar "eðlilegu álagi".
Eins og þú veist búum við í markaðshagkerfi. Bönkunum ber skylda til að ávaxta fjármuni sinna hluthafa á sem bestan og öruggastan hátt.
Hæsta ávöxtun sem þeim býðst núna er einmitt á skuldabréfum sem þeir hafa áður gefið út sjálfir. Augljóslega hlýtur slík ávöxtunarleið að vera sú öruggasta sem bankanum býðst. Þarna fer því saman lágmarks (engin) áhætta en hámarks ávöxtun.
Það er hinsvegar alveg rétt ályktað hjá þér að frá því að ljóst var hvert stefndi má segja að það sé með ólíkindum vitlaust af bönkunum að hafa lánað jafn mikið í erlendri mynt til einstaklinga og fyrirtækja. Svo er það annað mál að bankarnir hefðu vissulega mátt ítreka við fólk að erlend lán væru afar óráðleg og að bankarnir sjálfir væru að taka gagnstætt veðmál. Reyndar hef ég ítrekað heyrt bankastjóra íslensku bankanna bent á að gengi krónunnar væri allt of sterkt sem reyndar ætti að vera öllum augljóst út frá viðskiptahallanum.
Það er svo aftur annað mál að íslendingar virðast hafa rörsýn á gengisáhættuþátt erlendra lána og taka því ekki eftir þeim þætti sem á eftir að reyna skeinuhættastur þegar fram í sækir, nefnilega að lánin eru á breytlegum vöxtum og breytilegu vaxtaálagi.
Staðan erlendis er orðin sú að stöndug félög með lánshæfismat BB eða B þurfa að borga yfir 1.200 punta vaxtaálag ofan á LIBOR vexti. Skuldabréf á Hollenska bankann NIBC borga í dag yfir 2.000 punkta ofan á LIBOR. Öll íslensk fyrirtæki og einstaklingar að bönkunum frátöldum flokkasts sem "Junk" og ættu að borga miklu hærri vexti. Skuldatryggingarálag á Glitni og Kaupþing er komið í 1.000 punkta í dag. Hvers vegna ættu íslenskir bankar að lána út fé með lægra álagi ?
Já Ármann, erlenda lánið sem þér var bjargað frá því að taka mundi fyrr eða síðar hækka langt yfir íslenska krónuvexti! Hvers vegna íslenskir bankar hafa lánað út peninga í erlendri mynt á 100-350 punkta álagi undanfarin misseri er vitaskuld óskiljanlegt með öllu. En eitt er víst að þeir munu sjá eftir því í náinni framtíð.
Arnar Sigurðsson, 28.3.2008 kl. 18:30
Gengismunur gjaldmiðla hefur einnig áhrif á ákvarðanir fjármálastofnana að lána ekki út í erlendum myntum þessa dagana, burtséð frá vöxtum og vaxtaálagi. Það vill enginn með krónu sem grunnmynt lána út erlenda gjaldmiðla nú þegar krónan liggur á botninum, þ.e. sé samið um að endurgreiðsla sé í ISK. Taki krónan svo kipp upp á við fækkar krónunum sem koma í staðinn við hverja afborgun og það verður gengistap á láninu fyrir þann sem veitir það. Fjármálastarfsemi er zero-sum leikur þar sem einn hagnast og annar tapar, og fjármálafyrirtækin reyna eins og allir aðrir að vera réttu megin við það borð.
Hörður Tulinius, 3.4.2008 kl. 15:34