17.4.2008 | 14:37
Jafnræði þarf að vera í refsingum þegar svikið er fé úr ríkissjóði
Mikið hefur verið skrifað og rætt um skattlagningu undanfarin misseri. Mjög ólíkar skoðanir hafa komið fram um það hvaða leiðir séu bestar til þess að skattkerfið sé sem sanngjarnast. Ýmsir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að skattar hafa verið hækkaðir undir forystu Sjálfstæðisflokksins og hefur það komið fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið kallaður skattpíningaflokkur. Á hinn bóginn hafa ýmsir fjármálasérfræðingar margra fjármálafyrirtækja gagnrýnt stjórnvöld fyrir hið gagnstæða, bæði opinberlega og í heimsóknum sínum til fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Hefur sú gagnrýni fyrst og fremst snúið að tímasetningu skattalækkana. Það er því ekki er nema von að umræðan sé ruglingsleg þegar hún er með þessum hætti innan og utan veggja þingsins.
Málið er samt í raun langt frá því að vera flókið ef útúrsnúningum er sleppt. Skattprósenta á tekjur einstaklinga og fyrirtækja hefur verið lækkuð heilmikið. Tekjuaukning ríkisins kemur til vegna þess að laun hafa undanfarin ár hækkað mikið svo og hagnaður fyrirtækja. Þess vegna hafa tekjur ríkissjóðs hækkað. Það samræmist því markmiði sem skattkerfið byggir á sem er að þeir sem hafa mest á milli handanna borgi hæstu skattana.
Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að skattar eigi vera réttlátir og til þess að gera lágir. Slík stefna dregur úr skattsvikum og eykur kraftinn í samfélaginu. Sanngjarnir skattar hafa það líka í för með sér að samstaðan í þjóðfélaginu um að þeir skuli greiddir verður meiri um leið og nauðsynlegt er að búa svo um hnútana að viðurlög við brotum á skattkerfinu bíti. Almennt hefur þetta verið gert og refsingar við brotum miklar.Um leið og rætt er um sanngjarna skatta er líka nauðsynlegt að tryggja sanngjarna og eðlilega úthlutun úr ríkissjóði, sameiginlegum sjóði okkar allra. Í skattumræðunni er gjarnan rætt um nauðsyn þess að bæta kjör þeirra sem minnst hafa á milli handanna og nauðsynlegt sé að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Þetta eru réttmæt markmið sem vert er að taka undir.
Rúv skýrði frá því í vikunni að dómur hefur fallið í svo kölluðu Tryggingarstofnunarmáli þar sem karl og kona voru dæmd fyrir að taka þátt í að aðstoða starfsmann stofnunarinnar við að svíkja fé úr ríkissjóði. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlinn í 8 mánaða fangelsi en konan fékk 6 mánaða dóm, skilorðsbundinn til 3 ára. Fólkið heimilaði starfsmanni Tryggingastofnunar að nota bankareikninga sína til að geyma fé sem hann sveik út úr stofnuninni og að hylma yfir með starfsmanninum gegn þóknun. Samtals sveik starfsmaðurinn hátt í 76 milljónir króna út úr Tryggingastofnun og lagði peningana inn á reikninga 19 manns sem flestir voru bótaþegar.
Alls lagði starfsmaðurinn tæpar 7 milljónir inn á reikning konunnar sem fékk í sinn hlut helming fjárins, sem hún vissi að væri illa fengið. Starfsmaðurinn lagði rúmar 9 milljónir inn á reikning karlsins sem segist hafa fengið rúmlega milljón í sinn hlut. Karlinn fékk hins vegar þyngri dóm þar sem hann á sakaferil að baki en konan var með hreint sakavottorð.
Rétt eins og það er grafalvarlegt að svíkjast undan skatti er ekki síður alvarlegt að svíkja fé út úr ríkinu með beinum hætti. Samt sem áður er refsiramminn miklu skýrari hvað varðar viðurlög við skattsvikum en svikum út úr almannatryggingarkerfinu. Mér er sagt af mér fróðari mönnum að sennilega hefðu skipulögð skattsvik fyrir jafn háa upphæði og að ofan greinir leitt til mun harðari refsingar. Þessu þarf að breyta og fullkomið samræmi að vera milli skipulagðrar sjálftöku úr ríkissjóði. Það á ekki að skipta máli hvort um skattsvik er að ræða eða svik út úr stofnunum ríkisins með beinum hætti.
ES. Pistill þessi birtist einnig á vef Tryggingastofnunar ríkisins; http://www.tr.is/
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 21:50 | Facebook
Athugasemdir
Já skattar hafa sannarlega lækkað í stjórnartíð sjálfstæðisflokksins, á fyrirtæki og hjá hátekjufólki (sem borgar 10% fjármagnstekjuskatt). Ekki hjá þeim sem hafa lægstu tekjurnar, vegna þess að skattleysismörkin hafa ekki hækkað í takt við launaþróunina hefur skattbyrði á öryrkja, aldraða og eldra fólk hækkað verulega í stjórnartíð flokksins.
Ég bendi á skýrslu Stefáns Ólafsonar prófessors við HÍ um skattastefnu Íslendinga sem er aðgengileg á www.thjodmalastofnun.hi.is
Sigrún Eva (IP-tala skráð) 17.4.2008 kl. 23:28