2.5.2008 | 11:36
Fastur í gamla farinu
Þó við lifum í síbreytilegum heimi þá er eitt sem ekki breytist en það er afstaða Ögmundar Jónassonar til einkaframtaksins. Þetta kristallast á forsíðu Morgunblaðsins í dag þar sem haft er eftir honum að einkarekin velferðarþjónusta sé óhagkvæmari. Þá er jafnframt notað það gamla "trix" að segja að úthýsing sé á kostnað láglaunastéttanna. Þetta er sagt þótt allir stjórnmálaflokkar hafi lýst því yfir að allir skuli standa jafnir frammi fyrir velferðarþjónustunni burt séð frá því hvort hún er veitt af einkaaðilum eða opinberum starfsmönnum.
Fullyrðingar af þessum toga verða að teljast hæpnar ekki síst þegar horft er til þess að "einkareknu" heilsugæslustöðvarnar hafa verið að koma mjög vel út rekstralega og mikil ánægja með þjónustuna. Sem dæmi má nefna Salus, heilsugæslustöðina í Salarhverfi í Kópavogi. Hún er ódýrust í rekstri en um leið hefur ánægja viðskiptavina verið mest þar. Þessi heilsugæslustöð var boðin út en það breytir í engu um aðkomu viðskiptavina að öðru leyti en því að þeir eru ánægðari. Þá má nefna þjónustu Orkuhússins sem hefur þótt til mikillar fyrirmyndar.
Annað sem vert er að draga fram er að samkvæmt úttekt OECD er íslenska heilbrigðiskerfið allt of dýrt hér á landi og eitt það dýrasta í heimi, sem ætti ekki að vera, þegar horft er til þess hversu ung þjóðin er. Í skýrslunni segir að við verðum að stokka upp í kerfinu í þeim tilgangi að fá meira fyrir það fjármagn sem við leggjum fram. Þegar hlutlægir aðilar eins og OECD koma fram með síkar fullyrðingar hljótum við að leggja við hlustir og taka mark á slíkum athugasemdum. Við megum ekki festast í kreddum. Ég er þeirrar skoðunar að það geti verið gott að hafa bæði rekstrarformin og fá með því ákveðin samanburð og samkeppni. Þá hljótum við að geta lagst saman á árarnar með að auka hagkvæmni í velferðarþjónustunni. Slíkt er oft hægt að gera um leið og komið er til móts við óskir og þarfir viðskiptavinarins eins og til dæmis aukin heimaþjónusta við eldri borgara undirstrikar.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Getur verið að þú sért fastur í djúpum hjólförum Ármann? (eða bara fastur í umferðarteppu á bílastæðinu við Alþingi!) Einkavæðing, einkavinavæðing, einkarekstur, sjálfstæðisrekstur eða hvað þið kallið þetta.. á ekki við í félagslegri þjónustu. Það þarf ekki að horfa langt til að sjá þess mörg dæmi. Komdu þér nú upp úr frjálshyggjuhjólförunum áður en þú sekkur dýpra.
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 2.5.2008 kl. 12:05
Ég held að það væri verðugt verkefni fyrir trúarbragðafræðinga að "stúdera" þessa einkarekstrartrú hægrimanna! Af því þú minnist á "einkarekna" heilsugæslustöð í Salahverfi vil ég segja þér, að ég er í svona einkarekinni heilsugæslu og er mjög óánægður með þjónustuna. Ætla svo sem ekkert að útlista það neitt frekar. Ég set "einkarekna" innan gæsalappa, þar sem þessi svokallaði "einkarekstur" er allur fjármagnaður með almannafé og það er nú varla einkarekstur. Eru einhver svona einkafyrirtæki önnur rekin fyrir almannafé, t.d bílaverkstæði, uppsláttargengi eða húsgagnaverslanir? Varla væri það "einkarekstur". En þegar pilsfaldakapítalistar skrapa undir sig einhvern rekstur, sem ríki og sveitarfélög hafa yfirleitt séð um og sjá yfirleitt um er það kallað "einkarekstur". Heilsugæsla, skólar, leikskólar, ræsting í opinberum byggingum og svo framvegis, það er kallað "einkarekstur" sem einkaaðilar taka að sér að reka fyrir almannafé. Í gamladaga hét þetta einfaldlega pilsfaldakapítalismi!
Af því þú vitnar í þann ágæta leiðtoga Ögmund Jónasson þá má benda á að Ingibjörg Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, er sömu skoðunar, s.s. að "einkarekin" almannaþjónusta sé óhagkvæm.
Spurning: Eru þessir pilsfaldakapítalistar, sem vilja reka "einkarekin" fyrirtæki fyrir almannafé ekki bara fólk sem ekki "plummar" sig á hinum almenna markaði kapítalismans?
Það eru í minningunni nokkrir svoleiðis úr röðum forystumanna Sjálfstæðisflokksins. Menn sem ríkið þurfti sífellt að vera lappa uppá reksturinn hjá með gengisfellingum og undanþágum og afslætti á ýmsum opinberum gjöldum. Má þar nefna Einar Odd Kristjánsson og fleiri sægreifa. Jóhann Bergþórsson í Hagvirki, sem ekki greiddi söluskatt af rekstrinum, og svo framvegis. Ísland er sennilega eina ríkið á vesturlöndu þar sem formaður heilbrigðisnefndar þings landsins kæmist upp með að vera með rekstur í heilbrigðiskerfinu; "einkarekstur" greiddan af skattfé ríkisins!
Auðun Gíslason, 2.5.2008 kl. 16:50
"Einkarekin heilbrigisþjónusta óhagkvæmari" !!! Já kannski er einkarekin heilbrigðisþjónusta dýrari á hverng einstakling en ríkisrekin. En það er vegna þess að þá fær fólk aðgang að þjónustu sem það hefur ekki í biðlistakerfinu í dag. Læknar mega ekki heldur auglýsa í dag og mjög takmarkað hvað einstaklingar geta keypt mikla þjónustu beint.
Það er líka hægt að gera verslunarrekstur ódýrari á haus með því að ríksvæða allar búðir og takmarka aðgang að vörum með biðröðum og skömmtunum. Við bara viljum það ekki.
Þorsteinn Sverrisson, 2.5.2008 kl. 23:48
Það er ekki pilsfaldakapítalisti ef aðilar fá verkefni á grundvelli útboðs, einhver misskilningur á ferðinni. Í raun gætum við sett allt í ríkisrekstur eins og það var í austantjaldslöndunum en það er fullreynt að mínu mati þó svo að Hlynur sakni þess fyrirkomulags. En sumir hafa það markmið að ríkisstarfsmenn verði sem flestir og vilja svo hafa þá undir pilsfaldi sínum.
Það að ríkið kaupi þjónustu á markaði telst nú varla til trúarbragða. Hins vegar ef menn geta ekki hugsað sér blandað kerfi opinbers reksturs og einkareksturs þá eru einhverjir aðrir en ég fastir í bókstafstrúnni. Í þessu tilviki Kommúnismanum.
Ármann Kr. Ólafsson, 3.5.2008 kl. 11:13
Sæll Ármann Kr.
Ég sakna ekki "þess fyrirkomulags ("austantjalds...")) Veit ekki hvaðan þú hefur þær upplýsingar en vil síður að þú sért að gera mér upp skoðanir þó að það sé bara hér á blogginu þínu. Dæmigerður útúirsnúningur af þinni hálfu og tilraun til að slá ryki í augu fólks.
En af þessum viðbrögðum þínum sé ég enn betur að þú ert staddur á síðustu öld og pikkfastur í gamalkunnugum hjólförum, þó að þú áttir þig ef til vill ekki á því, enda bara "úti að aka" :)
Bestu kveðjur,
Hlynur Hallsson, 5.5.2008 kl. 12:32