4.5.2008 | 23:00
Siv fer með rangfærslur
Það var fróðlegt að horfa á Silfrið í dag og sjá Siv Friðleifsdóttur fyrrverandi heilbrigðisráðherra takast á við Guðlaug Þór Þórðarson núverandi heilbrigðisráðherra. Ráðherrann fór ítrekað yfir það að hans markmið, markmið Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar væri að veita enn betri þjónustu í heilbrigðiskerfinu. Maður skildi ætla að það gæti verið markmið sem þverpólitísk samstaða næðist um. Svo var alls ekki, heldur virtist það skipta höfuð máli í hvaða stéttarfélagi þeir væru sem veita ættu þjónustuna og ljóst að hún yrði alveg ómöguleg ef opinberir starfsmenn sæju ekki um hana. Heilbrigðisráðherra benti á að ekki skipti máli hvort ríkið væri að kaupa þjónustu af einkaaðilum eða opinberum aðilum svo framarlega sem verið væri að bæta þjónustu við almenning.
Siv lét sér ekki segjast og sagði að Sjálfstæðisflokkurinn ætlaði að einkavæða heilbrigðisþjónustuna þrátt fyrir að bæði Guðlaugur Þór og Björgvin G. Sigurðsson segðu að það yrði ekki hvikað frá því að allir myndu standa jafnir frammi fyrir þjónustunni og ríkið yrði kaupandinn. Á þetta var ekki hlustað og hélt hún því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sett það í ályktun sína að einkavæða ætti heilbrigðisþjónustuna: "Það stendur einkavæðing", sagði Siv.
Hvar spyr ég? http://xd.is/?action=landsfundur_nanar&id=591
Það er ekki búið að einkavæða Vegagerðina þó svo að einkaaðilar annist einstakar framkvæmdir fyrir hana.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Í ályktun landsfundarins segir orðrétt:
Lagt er til að sjálfstæðum aðilum verði í auknum mæli gefið færi á að taka að sér verkefni á sviði heilbrigðis- og velferðarþjónustu og að kostir einstaklingsframtaks verði nýttir á þessu sviði.
Má þar t.d. nefna góða reynslu af samningum um einkarekna heilsugæslu.
Hvað er þetta annað en einkavæðing heilbrigðisþjónustunnar? Og til hvaða samninga um einkarekna heilsugæslu er verið að vitna þarna?
Theódór Norðkvist, 5.5.2008 kl. 00:42
Takk fyrir þetta Theódór.
Það er einkavæðing ef ríkið hættir að veita þjónustu og einkaaðilar taka við. Ef ríkið veitir þjónustu, þó svo að einkaaðilar framkvæmi hana, þá er ekki um einkavæðingu að ræða þar sem þjónustan er ennþá veitt af ríkinu. Ríkið borgar þjónustu Salus, heilsugæslunnar í Kópavogi. Sú þjónusta var boðin út af ríkinu og í tíð Framsóknarflokksins. Ef ríkið hefði ákveðið að hætta að veita slíka þjónustu í nýju hverfum Kópavogs og einkaaðilar opnað í staðinn og kúnninn greitt allt, þá væri búið að einkavæða þessa þjónustu.
Ef Siv leggur út frá orðinu einkavæðing eins og þú gerir, þá einkavæddi hún sjálf heilbrigðisþjónustuna í Kópavogi.
Ármann Kr. Ólafsson, 5.5.2008 kl. 07:39
Takk fyrir ágætt svar. Ég tek fram að ég er enginn talsmaður Sivjar, fyrrum undirmanns ykkar Sjálfstæðismanna.
Ég vil samt spyrja hvort það megi þá treysta því að ríkið verði alltaf kaupandi þjónustunnar og aukinn einkarekstur muni ekki bitna á þjónustunni og verðið hækka. Þú getur ekki neitað því að það er veruleg einkavæðingarlykt af þessari ályktun landsfundarins sem ég vitna til.
Ég minni á harkalega árás heilbrigðisráðherra ykkar á launakjör hjúkrunarfræðinga í nafni hagræðingar og það á stétt hverrar laun eru ekki nema til að hlæja að nú þegar.
Hinsvegar fagna ég því ef menn verði gerðir ábyrgir fyrir sinni heilsu í auknum mæli, t.d. með umbun til þeirra sem hugsa vel um sig, halda sér í kjörþyngd, reykja ekki, stunda líkamsrækt o.þ.h. Svoleiðis fólk á að njóta umbunar fram yfir þá sem fitna úr öllu valdi, reykja, drekka mikið og stunda þannig áhættusamt líferni.
Theódór Norðkvist, 5.5.2008 kl. 11:28
Sæll aftur, Theódór!
Meðfylgjandi eru tvær nýjar fréttir sem undirstrika stefnu heilbrigðisráðherra, Sjálfstæðisflokksins og ríkisstjórnarinnar.
Annarsvegar "Útrýma á bið eftir augnsteinsaðgerðum " http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2790 og hins vegar "Samið við hjartalækna " http://www.heilbrigdisraduneyti.is/frettir/nr/2789.
Sjálf hefur Siv gert sambærilega samninga þótt henni hafi ekki tekist að klára samninginn við hjartalækna á sínum tíma.
Ármann Kr. Ólafsson, 5.5.2008 kl. 17:07
Takk fyrir, þetta eru hvort tveggja mjög góð mál sem hafa náðst í gegn. Mín reynsla er samt sú að kostnaðarhlutdeild almennings í heilbrigðiskerfinu hafi aukist. Það er samt ekki um nein stór stökk að ræða, heldur hefur þetta gerst smátt og smátt.
Ég man alltaf eftir því þegar ég þurfti ekkert að greiða fyrir smyrsl sem ég hef þurft að nota samkvæmt læknisráði frá sex ára aldri, en þurfti að fara að greiða fyrir þau fyrir 15-20 árum síðan. Þá var Viðeyjarstjórnin við völd.
Eða þegar niðurgreiðsla á sýklalyfjum var felld niður í valdatíð sömu stjórnar. Það var mikill kostnaðarauki fyrir stórar fjölskyldur með mörg börn veik af eyrnabólgu.
Það kann að vera að kostnaðarhlutdeild hafi minnkað á sumum sviðum, þó hún hafi aukist á öðrum. Kannski væri það góð fyrirspurn að gera í þinginu hvað kostnaðarhlutdeild hafi aukist á síðust 10-15 árum, t.d. sem hlutfall af ráðstöfunartekjum?
Mér dettur ekki í hug að kenna þínum flokk um allt sem aflaga hefur farið í heilbrigðismálum, en hann ber mikla ábyrgð sem stærsti flokkurinn.
Jæja, ég ætla ekki að hafa þetta lengra og þú ræður hvort þú svarar aftur. En ég hef vonandi gefið þér eitthvað til að vinna með.
Með bestu kveðjum.
T.N.
Theódór Norðkvist, 5.5.2008 kl. 20:54
Hver færi í klippingu á Rakarastofu Ríkisins?
Júlíus Valsson, 5.5.2008 kl. 21:16
Hvað segirðu um þessa ályktun síðasta landsfundar:
"Einkavæðing bankanna hefur sýnt okkur þann kraft sem leysist úr læðingi við það að einkaaðilar taki við rekstri. Nýsköpun og þróunarstarf þessara fyrirtækja hefur skilað þeim góðum árangri bæði hér heima og erlendis. Því ber að huga að enn frekari einkavæðingu á öðrum sviðum s.s. á sviði heilbrigðis-, mennta- og orkumála."
http://www.xd.is/?action=landsfundur_nanar&id=601
Ábending (IP-tala skráð) 5.5.2008 kl. 22:50
Ég færi í klippingu á Rakarastofu Ríkisins ef ég vissi að þar væru góðir hárskerar með gott orð á sér.
Theódór Norðkvist, 5.5.2008 kl. 23:13
Ef aukasetning í ályktun um Iðnaðarmál þar sem segir "huga ber að" er tekin fram yfir það sem sagt er í ályktun um velferðarmál, stjórnmálaályktun flokksins, það sem formaður flokksins hefur sagt og heilbrigðisráðherra er um dæmigerða pólitíska leikfimiæfinguað ræða. Þarna er auk heldur ekki um fullyrðingu að ræða eins og þingmaðurinn hélt fram.
ES. annars finnst mér alltaf skemmtilegra að vita hverjir koma í heimsókn til mín.
Ármann Kr. Ólafsson, 6.5.2008 kl. 07:56