12.6.2008 | 11:35
Óþægir Írar kjósa um framtíð ESB
Írar ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu í dag um hinn svonefnda Lissabon-sáttmála. Þótt heiti sáttmálans láti ef til vill ekki mikið yfir sér er efni hans gríðarlega þýðingarmikið fyrir Evrópusambandið, enda er sáttmálinn efnislega sá sami og stjórnarskrá sambandsins. Örlög hennar réðust einmitt í þjóðaratkvæðagreiðslu fyrir þremur árum í Frakklandi og Hollandi, þar sem stjórnarskráin var felld.
Hún gengur nú aftur í formi Lissabon-sáttmálans en munurinn er sá að Írar eru eina aðildarþjóð Evrópusambandsins þar sem íbúarnir greiða atkvæði um sáttmálann. Allar aðildarþjóðir sambandsins verða að samþykkja sáttmálann til þess að hann öðlist gildi og segja má að almenningur á Írlandi hafi því framtíðarþróun sambandsins í höndum sér.
Það er alls ekki auðvelt að átta sig á þeim breytingum sem sáttmálinn boðar, því hann er í sjálfu sér ekki annað en langur listi yfir breytingar á tilteknum lagagreinum annarra sáttmála sambandsins. Ekki er langt síðan unnt var að nálgast heildaryfirlit yfir það hvernig regluverkið myndi líta út ef sáttmálinn yrði samþykktur. Charles McCreevy, fyrrverandi fjármálaráðherra Írlands og stuðningsmaður þess að írska þjóðin samþykki sáttmálann, viðurkenndi til að mynda á dögunum að enginn heilbrigður einstaklingur gæti lesið sig í gegnum sáttmálann, svo flókin væri uppsetning hans! Þetta er ágætis dæmi um skrifræðið í Evrópusambandinu, embættismennirnir skilja kerfið (vonandi) en enginn gerir ráð fyrir að almenningur í Evrópu botni neitt í neinu.
Í stuttu máli gengur Lissabon-sáttmálinn út á að breyta ákvörðunartökuferlinu innan Evrópusambandsins og setja á fót ný forystuembætti innan sambandsins. Verði sáttmálinn staðfestur tekur Evrópusambandið stórt skref í átt til sambandsríkis í anda Bandaríkjanna. Þriggja stoða kerfi ESB verður lagt af og Evrópusambandið gert að lögpersónu. Ráðherraráðið mun ekki lengur hafa neitunarvald og þingið fær mjög aukin völd í nánast öllum málum. Embætti forseta og utanríkisráðherra Evrópusambandsins (kallast reyndar foreign representative") verður komið á fót og þessir nýju leiðtogar munu tala fyrir munn Evrópu út á við.
Kosningin á Írlandi verður tvísýn. Lengi framan af voru já" sinnar með töluverðan meðbyr í könnunum en dæmið virðist vera að snúast við. Í nýlegri könnun kom í ljós að nei"-hliðin fengi 35% greiddra atkvæða, já"-liðar 30% greiddra atkvæða, 28 af hundraði eru óákveðnir og 7% segjast ekki ætla að kjósa.
Ef Lissabon-sáttmálinn verður samþykktur á Írlandi er ljóst að brautin fyrir frekari dýpkun á Evrópusamrunanum er greið. Verði sáttmálinn felldur er framtíðarþróun sambandsins hins vegar í uppnámi. Slík niðurstaða er ekki vinsæl meðal ráðamanna í Evrópu. Bernard Kouchner, utanríkisráðherra Frakklands, tjáði sig á dögunum um afleiðingar þess ef Írar myndu fella sáttmálann og sagði að það myndi bitna mest á Írum sjálfum. Hann tók einnig fram að Frakkar, sem taka við forystu í ráðherraráði Evrópusambandsins í júlí, myndu halda áfram að vinna að innleiðingu sáttmálans þó Írar felli hann í atkvæðagreiðslu og reyna að sannfæra Íra um að setja sáttmálann aftur á teikniborðið.
Það er athyglisverður tónn í þessum ummælum. Viðhorfið er á þá leið að óhjákvæmilegt sé að sambandið þróist í áttina að sambandsríki og jafnvel þótt íbúar einstaka aðildarríkis neiti að samþykkja nauðsynlegar breytingar, þá verða þær einfaldlega settar í þann búning sem til þarf svo að rétt niðurstaða fáist. Rétt eins og þegar stjórnarskráin var felld. Nú heitir hún Lissabon-sáttmálinn og var markmiðið með þessum nýja (grímu)búning að aðildaþjóðir Evrópusambandsins létu ekki kjósa um málið. Það markmið tókst nema gagnvart Írum en hótun utanríkisráðherra Frakklands er hins vegar grímulaus gagnvart írsku þjóðinni.
Það þarf kannski ekki að koma á óvart að kosningaþátttaka í Evrópuþingskosningum er undir 50% því á meðan kerfið tekur undir sig fleiri og fleiri svið fjarlægist það hinum venjulega borgara sem sér að atkvæði hans skiptir í sjálfu sér ekki miklu máli. Staðan er umhugsunarefni fyrir okkur. Þegar horft er fram á veginn er erfitt að sjá annað fyrir sér en að Evrópusambandið þróist í átt að sambandsríki þar sem áhrif stofnana sambandsins aukast á kostnað aðildarríkjanna. Lítil kjörsókn og lýðræðishalli innan sambandsins hafa verið viðvarandi vandamál innan ESB undanfarin ár og áratugi og með auknum samruna og áhrifum stofnana ESB verður vægi almennings enn minna. Fyrir þjóð eins og Ísland, sem býr við mikla kjörsókn (80-90% í þing- og sveitarstjórnarkosningum) og nálægð við kjörna fulltrúa er hætt við að áhrifaleysið og fjarlægðin innan Evrópusambandsins yrðu okkur framandi.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Góð grein, Ármann.
Jón Valur Jensson, 13.6.2008 kl. 03:19
Sæll Ármann. Þetta er fín grein hjá þér og ánægjuleg niðurstaðan úr kosningunni hjá Írunum. kveðja Kolbrún.
Kolbrún Stefánsdóttir, 15.6.2008 kl. 19:14