10.10.2009 | 21:28
Er Svandísi Svavars illa við Ísland?
Framganga Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra hefur verið með ólíkindum að undaförnu. Í fyrsta lagi stóð hún í vegi fyrir því að undirbúningsvinna við álverið á Bakka héldi dampi. Í öðru lagi kom hún í veg fyrir að undirbúningur fyrir byggingu álvers í Helguvík héldi dampi. Þar virti hún lög um tímafrest að vettugi og tók því ákvarðanir sem hún mun sennilega ekki geta staðið við. Í þriðja lagi réðist hún svo á Orkuveitu Reykjavíkur með svo ósmekklegum og skaðlegum hætti að fjárhagslegur trúverðugleiki fyrirtækisins er verulega skertur. Í kjölfarið sáu stjórnendur fyrirtækisins sig knúna til þess að gefa út sérstaka yfirlýsingu vegna málsins.
Þegar maður lítur til verka umhverfisráðherra rifjast upp fyrir manni það sem formaður Framsóknarflokksins sagði, en það var eitthvað á þann veg að þessari ríkisstjórn tækist alltaf að taka vitlausar ákvarðanir í öllum málum. Þótt ég sé enginn sérstakur aðdáandi Framsóknarflokksins verð ég að viðurkenna að ég er Sigmundi algerlega sammála. Af hverju, af hverju getur þetta blessaða fólk í ríkisstjórninni ekki gert neitt rétt? Af hverju vill það gera allt til þess að koma i veg fyrir að Ísland nái vopnum sínum á ný og að erlendir aðilar öðlist trú á landinu? Ég bara spyr.
Flokkur: Stjórnmál og samfélag | Facebook
Athugasemdir
Svarið er einfallt,þetta er samansafn af fíflum.
Árni Karl Ellertsson (IP-tala skráð) 10.10.2009 kl. 21:43
Ótrúlega margt hefur lent í klúðri hjá þessari ríkisstjórn. Álver á álver ofan er auðvitað ekki lengur boðleg lausn í hverju máli og reynar óverjandi að fórna allri virkjanlegri orku í þennan iðnað sem greiðir lágt verð fyrir orkuna. Okkur ber auðvitað að umgangast þessar auðlindir með virðingu. Orkufyritækin eru skuldsett upp fyrir haus og greiðslubyrði þeirra þung; varla á hana bætandi. Við vonum að kynslóð okkar verði ekki síðasta kynslóð þessa lands og eitthvað þurfum við að skilja eftir af ónýttri orku fyrir ófædda Íslendinga.
Það var mikil gæfa í allri ógæfunni að umhverfisráðuneytið lenti hjá Svandísi sem hefur skilning út fyrir þarfir morgundagsins.
Árni Gunnarsson, 10.10.2009 kl. 21:55
Ekki hvarflar það að mér að verja þessa ríkisstjórn, það má vart á milli sjá hvor þeirra sé verri, hin verklausa Geirsstjórn eða sú sem nú er. Það er hins vegar alveg klárt að Ísland nær ekki vopnum sínum með fleiri álverum, ég hélt að öllum væri það ljóst núna. Það er líka jafnklárt að gamla stjórnin varð að víkja sem og Sjálfstæðismenn sem ættu að hafa vit á því að halda sig til hlés allavega um nokkra hríð.
Þóra Guðmundsdóttir, 10.10.2009 kl. 22:01
Flest af því sem stjórnarstefna Sjálfstæðisflokksins stóð fyrir hefur leitt hörmungar yfir þjóðina. Sparaðu því hrokann. Við vonum að álversstefnan fari ekki með okkur aukakollhnís. En nóg er komið af þeim eggjum í sömu körfuna.
Gunnlaugur B Ólafsson, 10.10.2009 kl. 23:34
Ha?
Hvernig stóð Svandís í vegi fyrir því að undirbúningsvinna við álverið á Bakka héldi dampi? Var það ekki Þórunn Sveinbjarnar sem var sökuð um að tefja verkið með úrskurði um sameiginlegt umhverfismat?
Annað, hvernig kom hún í veg fyrir að undirbúningur fyrir byggingu álvers í Helguvík héldi dampi? Er ekki enn verið að byggja á fullu. Það eru nærri 2 ár í að álverið hefji starfsemi og nokkurra vikna eða mánaða töf á línulögnum sem hugsanlega kemur fram ef endurskipulagningar er þörf getur varla skipt sköpum. Ef einhver vandamál eru með Helguvík, er það ekki frekar það að fyrirhuguð endastærð er meiri og orkufrekari en auðlindir á SV-Horninu ráða við, nú eða það að fjármagn er torfengið í dag á alþjóðavísu?
Ráðherrar verða hins vegar að tala varlega. Yfirlýsingar Svandísar um Orkuveituna eru klárlega varasamt frumhlaup hvort svo sem eitthvað er rétt í þeim yfirlýsingum eður ei.
En rétt skal vera rétt.
Jóhann F Kristjánsson (IP-tala skráð) 11.10.2009 kl. 15:50
Ég leyfi mér að vona að Svandís hafi pólitíska einurð til að viðurkenna að hún sé á móti orkusölu til álvera. Það okkur ekki sæmandi að þurrmjólka orkulindir Íslands og setja þær á bílskúrsútsölu handa útlendum hrávöruframleðiendum.
Árni Gunnarsson, 11.10.2009 kl. 16:16