6.2.2010 | 12:45
Kópavogur stendur vörð um barnafjölskyldur
Þeir efnahagserfiðleikar sem ganga yfir íslenskt þjóðfélag rista æ dýpra og nú er að koma í ljós að viðkvæmustu einstaklingarnir í þjóðfélaginu, börnin okkar, eru ekki undaskilin. Barnafjölskyldur hafa margar farið sérstaklega illa út úr efnahagshruninu. Tilvera margra þeirra hefur snúist á hvolf og óréttlætið er mikið. Fasteignir hafa lækkað, erlend lán hafa stökkbreyst og íslensk lán hækkað upp úr öllu valdi. Atvinnuleysi ógnar öllum.
Börn fara verst út úr kreppunni
Í nýlegu viðtali segir landlæknir að það séu börnin sem fara verst út úr kreppunni. Tilkynningum til stofnana sem fylgjast með líkamlegri og andlegri velferð þeirra fjölgar stórum skrefum. Ástæðurnar eru margar. Börn skynja aukna spennu í samskiptum foreldra auk þess sem þrengri fjárhagur kemur beint niður á daglegri tilveru þeirra með ýmsu móti.
Það er ljóst að þau vandamál sem efnhagshruninu fylgja koma öllum við, ungum sem öldnum, fyrst svo er komið að þau koma svona hart niður á börnum okkar. Enginn er undanskilinn og hver og einn verður að gera sitt besta.
Byrðum verður dreift á sanngjarnan máta í Kópavogi
Eitt mikilvægasta verkefni Kópavogsbæjar er að standa með barnafjölskyldum á þessum erfiðu tímum. Það verður að dreifa auknum byrðum samfara kostnaðarhækkunum með sanngjörnum hætti og standa sérstakan vörð um þá er verst hafa farið út úr þessum mestu efnahagshamförum lýðsveldissögunnar. Í nýrri fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar er því hækkunum á grunnþjónustu sem barnafjölskyldur treysta á stillt mjög í hóf og eru þær innan verðlagshækkana.
Ég er sannfærður um að almenn sátt ríki um þessa nálgun hjá Kópavogsbúum, ungum jafnt sem öldnum. Ég er jafnframt sannfærður um að friður mun ríkja um þær aðgerðir bæjarstjórnar Kópavogs sem byggjast á þessari nálgun. Auknum byrðum vegna almennra kostnaðarhækkana verður að dreifa á sanngjarnan máta.
5.2.2010 | 10:44
Kópavogur hugi sérstaklega að ungum fjölskyldum
Kópavogsbær á að huga sérstaklega að ungum fjölskyldum á þeim krefjandi tímum sem nú ríkja. Margar ungar fjölskyldur kusu á síðustu árum að búa sér heimili og ala börn sín upp í Kópavogi. Eftir því sem fjölskyldumeðlimum fjölgaði stækkuðu fjölskyldurnar við sig í húsnæði, fólk skuldbatt sig og tók lán eins og gengur.
Tilvera margra ungra fjölskyldna hefur nú snúist á hvolf og óréttlætið er æpandi. Fasteignir hafa lækkað, erlend lán hafa stökkbreyst og íslensk lán hækkað upp úr öllu valdi. Nú er verið að byggja upp nýtt fjármálakerfi á Íslandi og eignir þess eiga að grundvallast á útþöndum skuldum ungra fjölskyldna á meðan skuldir þess samanstanda af innlánum í gjaldþrota bönkum sem ríkið tók ábyrgð á.
Í stuttu máli er staðan sú að nú er verið að byggja upp nýtt fjármálakerfi á herðum ungra fjölskyldna sem komu sér þaki yfir höfuðið í fasteignabólu á meðan skuldir þess sama fjármálakerfis eru tryggð innlán í gjaldþrota bönkum. Ungu fjölskyldurnar áttu ekki stór innlán í bönkum og njóta því ekki góðs af þessari aðferðafræði.
Kópavogur er réttlátt bæjarfélag
Eitt mikilvægasta verkefni Kópavogsbæjar er að standa með ungum fjölskyldum á þessum erfiðu tímum. Í því ástandi er nú ríkir verður að dreifa byrðunum með sanngjörnum hætti og standa sérstakan vörð um þá er verst hafa farið út úr þessum mestu efnahagshamförum lýðsveldissögunnar. Í nýrri fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar er því hækkunum á grunnþjónustu sem ungar fjölskyldur treysta á stillt mjög í hóf og eru þær innan verðlagshækkana.
Það er sannfæring mín að almenn sátt ríki um þessa nálgun í stórum jafnt sem smáum málum. Byrðunum verður að dreifa og það á sanngjarnan máta.
3.2.2010 | 13:38
Ábyrg fjárhagsáætlun Kópavogsbæjar
Sveitarfélög landsins glíma nú sem best þau geta við afleiðingar kreppunnar. Vandinn er í hnotskurn sá að tekjustofnar eru að dragast saman um leið og útgjöld aukast samfara verðlagshækkunum og neikvæðri gengisþróun. Við aðstæður sem þessar reynir á ábyrg vinnubrögð bæjarfulltrúa og vilja til samstarfs. Sundrung og tortryggni leysir engan vanda, nema síður sé.
Allir kostir í stöðunni metnir
Fjárhagsáætlun fyrir Kópavog þarf líkt og fyrir önnur sveitarfélög að laga að breyttum aðstæðum. Innan bæjarstjórnarinnar var gengið samstiga til verksins. Meginútgangspunkturinn var að verja grunnþjónustu bæjarins og samfélagslegt velferðarnet og halda gjaldskrárhækkunum í lágmarki. Við vorum jafnframt sammála um mikilvægi þess að dreifa byrðum sem jafnast, með heildarhagsmuni allra bæjarbúa að leiðarljósi. Í því árferði sem nú er verða allir að leggjast á árarnar eftir aðstæðum og getu hvers.
Hækkun gjalda langt undir raunhækkunum
Í fjárhagsáætluninni er gert er ráð fyrir að rekstur bæjarins skili 44 milljóna króna afgangi á árinu, sem er ásættanleg niðurstaða með hliðsjón af aðstæðum. Framkvæmt verður fyrir ríflega 1.200 milljónir króna á árinu og 100 milljónum króna verður varið sérstaklega til atvinnuskapandi verkefna, m.a. í samvinnu við Vinnumálastofnun.
Vegna kostnaðarhækkana varð ekki hjá því komist að endurskoða gjaldskrár bæjarins og í þeim tilvikum sem breytingar reyndust nauðsynlegar er um lágmarkshækkanir að ræða. Þessar hækkanir eru undir raunhækkun kostnaðarverðs og því um raunlækkun gjaldskrár að ræða. Sú fjárhagsaðstoð sem veitt er á vegum bæjarins, mun á hinn bóginn hækka í takt við vísitöluþróunina.
Tekið á málunum
Athugasemdir hafa komið fram vegna fjárhagsáætlunarinnar, reyndar úr óvæntri átt. Nú þarf hins vegar að taka á málum af festu og ákveðni og það er ekki öllum gefið að flytja vondar fréttir. En þetta mun hafast.
Mikilvægasta verkefnið nú er að standa vörð um innviði bæjarfélagsins og þá metnaðarfullu uppbyggingu sem þar hefur átt sér stað, m.a. á sviði skóla- og fræðslumála, íþrótta- og æskulýðsmála og félags- og öldrunarmála. Óneitanlega eru þungar byrðar nú lagðar á bæjarbúa og gæta þarf þess að dreifa þeim byrðum á sanngjarnan máta. Standa þarf sérstakan vörð um barnafjölskyldur sem byggt hafa sér heimili í Kópavogi en horfast nú í augu við atvinnuleysi, fallandi fasteignaverð og stökkbreyttar skuldir.
16.10.2009 | 16:39
Endurskoðun samkeppnislaga nauðsynleg
Mér finnst skrýtið að fyrst núna skuli menn hafa áhyggjur af samkeppni eða réttara sagt skorti á samkeppni milli fyrirtækja á Íslandi. Það rifjaðist upp fyrir mér að ég hafði lagt fram þingsályktunartillögu fljótlega í kjölfar hrunsins, í lok desember 2008, sem fjallaði um það hversu mikilvægt væri að endurskoða samkeppnislöggjöfina. Grunntónninn í henni var að virk samkeppni yrði til þess að koma hjólum atvinnulífsins hraðar af stað en ella í kjölfar hrunsins. Þörfin fyrir þessari endurskoðun hefur aukist enn frekar í kjölfar þess að íslenska ríkið hefur tekið yfir fjölda fyrirtækja með tilheyrandi kennitöluflakki og markaðsráðandi stöðu í samkeppni við þau fáu fyrirtæki sem héldu lífi eftir fall bankanna. Læt þessa þingsályktunartillögu fylgja með um leið og ég segi betra seint en aldrei.
http://www.althingi.is/dba-bin/ferill.pl?ltg=136&mnr=265
Stjórnmál og samfélag | Breytt 17.10.2009 kl. 20:10 | Slóð | Facebook
15.10.2009 | 20:47
Skattleggjum greiðslur í lífeyrissjóði
Almenningur hefur komið því skýrt til skila að stjórnmálamenn verði að hefja sig upp úr hefðbundnum hjólförum stjórnmálanna og sameinast um lausnir í efnahags- og atvinnumálum. Þetta hefur víða gengið eftir á sveitastjórnarstiginu en alls ekki í landsmálapólitíkinni. Á þeim vettvangi er pólitíkin eins og ekkert hafi breyst. Það virðist ennþá hafa úrslitaáhrif á afstöðu þingmanna hver kemur fram með einstaka hugmynd. Í því sambandi má nefna að það sætir furðu að stjórnarflokkarnir skuli ekki hoppa á þá hugmynd að auka tekjur ríkissjóðs með því að greiddur verði tekjuskattur af lífeyrisgreiðslum við innborgun í lífeyrissjóðina.
Þessi leið hefur marga augljósa kosti. Þeir helstu eru að ríkissjóður getur aukið tekjur sínar um tugi milljarða til skamms tíma litið án þess að skattgreiðendur verði varir við það. Aðgerðin veldur ekki vísitöluhækkun eins og margar aðrar skattahækkanir gera eins og t.d. aukinn skattur á eldsneyti, áfengi og sykur. Þá má færa fyrir því rök að ávöxtun þegnanna verði meiri með þessu móti þar sem þjóðin er að greiða hærri vexti af lánum sínum en ávöxtun lífeyrissjóðanna nemur. Skattlagningin minnkar ekki kaupmátt eins og hefðbundnar skattahækkanir, sem er mikilvægt við núverandi aðstæður. Sífellt lækkandi kaupmáttur þýðir að spírallinn niður á við verður lengri en ástæða er til.
Það kemur ekki á óvart að forsvarsmenn lífeyrissjóðanna séu á móti þessum breytingum því þær þýða að sjóðirnir hafa úr minni fjármunum að spila. Hins vegar finnst þessum sömu forsvarsmönnum ekkert mál að setja fjármuni okkar í svokallaðan endurreisnarsjóð. Sjóð sem er ekkert annað en áhættusjóður. Ég minnist þess ekki að slíkir sjóðir hafi skilað miklu. Dæmi um það eru byggðasjóður sem heyrir undir Byggðastofnun og Nýsköpunarsjóður. Ávöxtun þeirra hefur verið afar léleg, við því mega lífeyrissjóðirnir ekki.
13.10.2009 | 22:08
Enn eitt snilldar útspil umhverfisráðherra...eða þannig
Þegar norska stórfyrirtækið REC ákvað að byggja upp sína starfsemi í Kanada í stað Íslands, nánar tiltekið í nágrenni Þorlákshafnar, sögðu forsvarsmenn þess að ein meginástæðan væri sú að stjórnvöld gætu engu lofað um það hversu langan tíma það tæki að klára umhverfismat. M.ö.o að stjórnvöld höguðu sér eins og þeim sýndist gagnvart fyrirtækjum sem horfðu til atvinnuuppbyggingar í landinu.
Í slíku umhverfi treysti fyrirtækið sér ekki til að starfa. Í því ljósi og þeirri stöðu sem landið er í nú er vægast sagt ótrúlegt að lesa eftirfarandi í frétt á Mbl. is. í dag.
"Ráðuneytið segir, að fullyrðingar þess efnis að úrskurðurinn sé ólögmætur vegna þess að málshraðareglur hafi verið brotnar eigi ekki við rök að styðjast. Samkvæmt lögum um mat á umhverfisáhrifum sé frestur ráðherra til að úrskurða vegna mats á umhverfisáhrifum tveir mánuðir frá því að kærufrestur rennur út. Í dómaframkvæmd og samkvæmt fræðikenningum hafi það eitt og sér ekki verið talið valda ógildi stjórnvaldsákvarðana þótt farið hafi verið fram úr lögbundnum afgreiðslufrestum."
Ennfremur segir: "Umhverfisráðuneytið tekur undir þær ábendingar að málshraði sé oft og tíðum ekki í samræmi við lögbundna fresti".
Sem sagt, eigi ekki við rök að styðjast. Kenningarnar hafa samkvæmt þessu meira gildi en lagabókstafurinn sjálfur. Hins vegar ef þegnar þessa lands virða ekki tímafresti fá þeir gjarnan sekt fyrir það. Það er því greinilega ekki sama Jón og séra Jón. Hversu langt á að ganga í vitleysunni?
Fréttin á Mbl.is í heild sinni: http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2009/10/13/segir_urskurd_um_sudvesturlinu_vera_logmaetan/
10.10.2009 | 21:28
Er Svandísi Svavars illa við Ísland?
Framganga Svandísar Svavarsdóttur umhverfisráðherra hefur verið með ólíkindum að undaförnu. Í fyrsta lagi stóð hún í vegi fyrir því að undirbúningsvinna við álverið á Bakka héldi dampi. Í öðru lagi kom hún í veg fyrir að undirbúningur fyrir byggingu álvers í Helguvík héldi dampi. Þar virti hún lög um tímafrest að vettugi og tók því ákvarðanir sem hún mun sennilega ekki geta staðið við. Í þriðja lagi réðist hún svo á Orkuveitu Reykjavíkur með svo ósmekklegum og skaðlegum hætti að fjárhagslegur trúverðugleiki fyrirtækisins er verulega skertur. Í kjölfarið sáu stjórnendur fyrirtækisins sig knúna til þess að gefa út sérstaka yfirlýsingu vegna málsins.
Þegar maður lítur til verka umhverfisráðherra rifjast upp fyrir manni það sem formaður Framsóknarflokksins sagði, en það var eitthvað á þann veg að þessari ríkisstjórn tækist alltaf að taka vitlausar ákvarðanir í öllum málum. Þótt ég sé enginn sérstakur aðdáandi Framsóknarflokksins verð ég að viðurkenna að ég er Sigmundi algerlega sammála. Af hverju, af hverju getur þetta blessaða fólk í ríkisstjórninni ekki gert neitt rétt? Af hverju vill það gera allt til þess að koma i veg fyrir að Ísland nái vopnum sínum á ný og að erlendir aðilar öðlist trú á landinu? Ég bara spyr.
Ákvörðun Seðlabanka Íslands segir okkur það eitt að ríkisstjórnin og seðlabankastjóri ráða engu um stýrivaxtastigið hér á landi. Því væri mun nær að leggja Seðlabanka Íslands niður og opna þar lúxus hótel í tengslum við byggingu tónlistar- og ráðstefnuhúss. Það myndi a.m.k. gera þjóðinni gagn með aukinni gjaldeyrissköpun.
Nánast allar þjóðir heims að Íslandi frátöldu hafa brugðist við heimskreppunni með því að lækka vexti og fara í aðgerðir til þess að örva efnahagslífið. Hér á Íslandi er þessu öfugt farið. Hér er allt gert til þess að koma í veg fyrir að Ísland nái flugi á ný. Ríkisstjórnin skríður fyrir Evrópusambandinu og sér ekkert að því að það noti Alþjóða gjaldeyrissjóðinn sem innheimtubúllu í sína þágu.
Hvernig má það vera að stýrivöxtum sé haldið í 12 prósentum þegar innlánsvextir bankanna eru á milli 6 og 7%? Þetta þýðir það eitt að fyrirtækjum og einstaklingum er gert ókleift að fá lán nema á okurvöxtum í bankakerfinu. Vaxtaokrið dregur allan mátt úr atvinnulífinu og kemur í veg fyrir nýja sókn sem við svo sannarlega þurfum á að halda nú.
Tilgangurinn er augljós. Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er notaður til þess að pína okkur til hlýðni svo að gömlu nýlenduveldin, Bretland og Holland, fái útrás fyrir mikilmennskubrjálæði sínu. Sá tími mun samt koma að aðrar þjóðir Evrópu munu sjá í gegnum hræsnina. Íslensk stjórnvöld hafa því ekki annan kost en að rísa upp gegn þessari kúgun. Við höfum áður boðið þjóðum heims birginn og sigrað að lokum. Það sama mun gerast í þessu máli ef stjórnvöld hafa eitthvert bein í nefinu.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook
25.9.2009 | 11:21
Hver er stefnan, samkeppni eða samráð?
Maður veit aldrei í hvaða átt þessi ríkisstjórn stefnir þar sem fulltrúar hennar tala út og suður. Á Mbl.is var verið að birta eftirfarandi frétt:
Ísland verði eitt af samkeppnishæfustu ríkjum heims
Stefnt er að því að Ísland verði eitt af 10 samkeppnishæfustu ríkjum heims árið 2020. Þetta er liður í ætlun stjórnvalda sem kallas 20/20 - Sóknaráætlun fyrir Ísland.
Í vikunni bloggaði Guðlaugur Þór Þórðarson alþingismaður um viðtal í Kastljósinu við Jón Bjarnason ráðherra í ríkisstjórn Íslands. Í færslunni benti hann á að ráðherran sagðist hafa haldið því fram að samráð væri réttlætanlegt og að samkeppnislög væru arfur fortíðar og ekki í anda þess raunveruleika sem við búum við í dag. Sérstaka áherslu lagði hann á að nauðsynlegt væri að koma á verðsamráði í landbúnaði og koma í veg fyrir frjálsa samkeppni!
Orðrétt sagði ráðherrann í því sambandi;
Ef það er nauðsynlegt ef að það eru hagsmunir þjóðarinnar sem felast í samráði, félagshyggju og samhjálp þá á það að hafa forgang.
Í framhaldinu talaði hann um að samráðið ætti að vera á félagslegum grunni við að tryggja hér fæðuframboð á sem bestum verðum.
Með öðrum orðum þá talar hér ráðherra í ríkisstjórn Íslands um að það eigi að vera í forgangi að koma í veg fyrir samkeppni!
8.3.2009 | 22:51
Fjárfestum í ferðaþjónustu
Ferðaþjónusta hefur sýnt það og sannað á undanförnum árum að hún er ein mikilvægasta atvinnugrein okkar Íslendinga og hefur stækkað jafnt og þétt á undanförnum árum. Fyrir 10 árum komu hingað til lands í kringum 200 þúsund ferðamenn en á síðasta ári voru þeir yfir 500 þúsund.
Í þeim tilvikum sem ferðaþjónustan og ríkið hafa farið í átaksverkefni í markaðssetningu á Íslandi og íslenskri ferðaþjónustu hefur komið kippur í komu erlendra ferðamanna til landsins. Það hefur skapað fjölda starfa og miklar gjaldeyristekjur. Af þessu sést að öflug markaðssetning og uppbygging innviða ferðaþjónustunnar skilar miklu fyrir land og þjóð.
Ein auðveldasta leiðin til þess að efla atvinnulíf á Íslandi og til þess að auka gjaldeyrisflæði til landsins er að efla markaðssetningu í ferðaþjónustu bæði í Ameríku og Evrópu. Í ljósi þess að ríkið er að fara eyða miklum fjármunum til atvinnusköpunar er nærtækt að auka fjármuni til landkynningarverkefna. Það er fjárfesting sem kemur hratt til baka.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 22:55 | Slóð | Facebook