Er að birta yfir hjá bönkunum?

Um leið og umræða hófst á þinginu um stöðu efnahagsmála bárust þær fréttir að Kaupþing banki hafi lokið við fjármögnunin á kjörum sem eru töluvert lægri en núverandi skuldatryggingaálag bankans er á markaði. Þetta eru ánægjulegar fréttir og sýnir að bankinn hefur að einhverju marki náð að útskýra raunverulega stöðu sína. Þetta ætti að róa nokkuð fjármálamarkaðinn því þetta bætist við þá nýlega frétt um að bankinn bætti lausafjárstöðu sína um 1,3 m.a. Evra með breytingum á áherslum sínum í rekstri Singer & Friedlander.

Í stað þess að þingmenn sæju birtuna í umræðunni drógu þeir allir meira og minna upp svarta pensilinn og máluðu allt svart að undanskildum forsætisráðherra Geir H. Haarde sem fór yfir stöðuna og greindi hana án allra öfga eins og honum er einum lagið.

Stjórnmálamönnum er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir raunverulegri stöðu efnahagsmála hverju sinni og það er ekki góð pólitík að stinga höfðinu í sandinn. Hins vegar er það ekki hlutverk þeirra að tala niður ástandið og gera það enn verra en raun ber vitni. Slíkt getur virkað eins og spírall niður á við á efnahagslífið og gert ástandið verra en það raunverulega er.

Sérfræðingar Moody's hafa ásamt mörgum öðrum sérfræðingum sem gleggst til þekkja staðfest mikinn styrk íslenskum bankanna. Vonandi eru þessar fréttir af Kaupþingi forsmekkurinn af því sem koma skal og álag á bankana fari nú að þróast í eðlileg átt. Í því sambandi erum við fyrst og fremst háð hinum alþjóðlega fjármálamarkaði en nýjustu fréttir af húsnæðislánamarkaðnum í Bandaríkjunum gætu verið betri.


Báknið kjurt eða báknið burt?

Þrátt fyrir að sífellt sé verið að tala um nauðsyn þess að draga úr umsvifum hins opinbera þá er þróunin stöðugt í þá veru að umsvifin aukast. Gjarnan er gripið til þeirrar skýringar að þar sem þjóðfélagsgerðin sem hefur mótast á undanförnum árum og áratugum í kjölfar upplýsingabyltingarinnar sé mjög flókin og mun flóknari en sú sem mótaðist samfara iðnbyltingunni. Má þá að sama skapi spyrja er það eðlilegt að sú tækni sem við skópum til að einfalda okkur lífið skuli gera það sífellt flóknara?

Í svari við fyrirspurn sem ég lagði fyrir fjármálaráðherra fyrr í vetur kemur fram að þrátt fyrir mikinn vöxt í íslensku atvinnulífi og tilkomu margra nýrra atvinnugreina þá hefur störfum hins opinbera fjölgað meira sl. 10 ár en á almennum vinnumarkaði. Þá er mikil umræða um eflingu einstakra stofnana og nauðsyn þess að stofna til nýrra. Nýjasta dæmið er frumvarp um skipulags og byggingarlög sem gerir ráð fyrir því að koma á fót sérstakri byggingarstofnun vegna þess að Skipulagsstofnun sinnti því hlutverki ekki nægilega vel.

Í þessum vangaveltum mínum bæði í þinginu og í fjölmiðlum hef ég talað um "báknið kjurt" sem er skírskotun til gamla frasans "báknið burt". Hef ég með því reynt að undirstrika það að við erum ekki að ná árangri í að minnka báknið. Í skýrslunni; Alþjóðleg fjármálastarfsemi á Íslandi, sem gefin var út í október 2006 er komið inn á aðgerðir til að einfalda stjórnkerfið. Ein aðgerð sem ætti að mínu mati að geta komið til framkvæmda strax fjallar um að hvert og eitt ráðuneyti geri áætlun um einföldun stjórnsýslu þeirra málaflokka sem undir það heyra. Það getur falist í því að uppfæra og einfalda lög og reglugerðir, samræma reglur og einfalda þær með þarfir borgaranna í huga. Slíkar áætlanir skulu byggja á raunhæfum og mælanlegum markmiðum.

Ég tel að þetta þetta sé eitthvað sem ráðast ætti í sem allra fyrst. Þegar búið væri að móta málið betur ætti reglan að vera sú að með hverju frumvarpi fylgdi greinargerð sem skýrði með hvaða hætti ný lög einfölduðu stjórnsýsluna. Er eftir einhverju að bíða?


Sein viðbrögð Hafró

Árni Friðriksson við loðnuleit

Ólíklegt er talið að loðnumælingar skili niðurstöðum í dag. Árni Friðriksson, rannsóknarskip Hafrannsóknarstofnunar, leitar nú að loðnu sunnan við landið. Fjögur fiskveiðiskip leggja stofnuninni lið við leitina.

 -------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

(stuttu síðar) 
Innlent |mbl | 26.2 | 21:09

Loðnumælingar standa enn yfir

Hafrannsóknarskipið Árni Friðriksson er nú við loðnumælingar rétt vestan við Vík í Mýrdal. „Hún er komin þangað gangan og við erum að mæla,“ sagði Sveinn Sveinbjörnsson leiðangursstjóri í samtali við mbl.is nú í kvöld. Hann segist ekki geta sagt til um það hvenær mælingunum muni ljúka.

----------------------------------------------------------------------------------------------------------------------------

Í ljósi þess að Kristján Þór Júlíusson alþingismaður kallaði eftir því að rannsóknaskip Hafrannsókanstofnunarinnar leystu festar í blíðskapaveðri á fimmtudag í síðustu viku eru ofangreindar fréttir stór merkilegar. Ástæðan var sú að hann hafði undir höndum mælingar frá 2 fiskiskipum sem sýndu loðnutorfur á miðunum sem ekki voru teknar með í reikninginn þegar loðnuveiðum var aflýst á hádegi sama dag. Kallaði hann eftir því að Hafrannsóknastofnunin og útgerðamenn hittust undir eins og færu yfir málið. En hvað var gert? Beðið var fram yfir helgi og þá fyrst haldið til hafs á rannsóknaskipinu Árna Friðrikssyni. Í kjölfarið bárust ofangreindar fréttir sem sýna að menn höfðu enga trú á upplýsingum sjómanna.

Ég hef alltaf verið tilbúinn til þess að verja málstað Hafrannsóknastofnunarinnar og vísindamanna hennar. Ég hef líka ákveðnar efasemdir um loðnuveiði yfirleitt. Það breytir hins vegar ekki því að þær veiðar eru stundaðar og að hver mínúta skiptir máli þar sem loðnan verður ekki veidd eftir að hún er búin að hrygna. Hver dagur í veiði skapar um 60 milljónir króna í tekjur fyrir þjóðarbúið og veitir víst ekki af.

Hvers vegna var ekki blásið til samráðsfundar og síðan ýtt úr vör og lagt af stað til mælinga þegar nýjar upplýsingar um loðnu bárust sl. fimmtudag? Eftir hverju var verið að bíða. Þetta sýnir að málstaður þeirra sem hafa hvatt til samkeppni í hafrannsóknum á fullan rétt á sér.


Sérfræðingaveldið

Í Morgunblaðinu í dag var greint frá því að komum barna á heilsugæslustöðvar hefði fjölgað mikið síðan um áramót eftir að breyting var gerð á reglugerð sem felur það í sér að ekki þarf að greiða fyrir þær. Gunnar Ingi Gunnarsson yfirlæknir á heilsugæslu Árbæjar segir að allt of mikið sé um það að verið sé að taka sýni vegna gruns um streptókokkasýkingu og að hálfgerð móðursýki hafi gripið um sig.

Svo segir hann; strok á hins vegar bara að framkvæma í völdum tilvikum og þá vegna ákvarðana fagfólks. Það ætti að vera reglan. Annars er þetta orðið eins og þjónusta bensínstöðvanna, þetta er nú þegar komið yfir öll velsæmismörk.

Í ljósi þess að margir hafa heyrt slæmar streptókokkasögur þá get ég vel skilið "móðursýkina" En af hverju spurði blaðamaður ekki af hverju fagfólk ætti bara að ákveða og taka strokurnar? Ég held  að Gunnar hafi einmitt hitt naglann á höfuðið og það ætti að vera hægt að kaupa strokupróf á bensínstöðvum og víðar til þess að minnka álagið á heilsugæslustöðvunum. Síðan geta þeir sem fá jákvæða niðurstöðu farið til læknis til nánari skoðunar og rannsókna. Þessu má líkja saman við það að kaupa þungunarpróf úti í næstu búð. Síðan leita þær konur sem fá jákvæða niðurstöðu til læknis í kjölfarið. Hvernig væri álagið á heilsugæslustöðvunum ef læknar gerðu ennþá öll þungunarpróf í landinu?

Margir muna að það var stórmál þegar Hagkaup tók að selja ódýr gleraugu án þess að sérfræðingar kæmu þar nálægt og gerðu þeir allt til að koma í veg fyrir það. Raunin er sú að þetta skaðar engan og þeir sem ekki eru sáttir við "Hagkaupsgleraugun" geta leitað til augnlæknis og annarra sérfræðinga.  

Er sérfræðingasveldið farið að ganga of langt í að hugsa út frá hagsmunum sínum? Það skyldi þó ekki vera.

 

 


Ábyrgir kjarasamningar

Nú þegar við höfum þurft að skerða þorskinn, aflýsa loðnuveiðum og horfa upp á glímu bankanna var mikilvægt að fá þær góðu fréttir að búið væri að skrifa undir kjarasamninga sem gilda til loka nóvember mánaðar 2010 ef forsendur þeirra ganga eftir. Það er gríðarlega mikilvægt að þetta sé í höfn og að við ættum að geta séð stöðugleika á þessu sviði næstu árin og er grunnurinn að því að stöðugleiki komist á í efnahagslífinu yfirleitt.

 Annað sem er mjög mikilvægt í þessum samningum er að þeir taka raunverulega á launum þeirra sem lökust hafa kjörin. Hversu oft hefur ekki verið talað um að bæta kjör þessa hóps en ekkert gengið eftir í þeim efnum þar sem prósentuhækkanir hafa gengið upp allan launastigann með tilheyrandi vísitöluhækkunum. Með krónutöluhækkunum eins og þessir kjarasamningar kveða á um og þá sérstaklega fyrir hópa sem ekki hafa notið launaskriðs, er beitt nýrri hugsun við gerð kjarasamninga og því ber að fagna.

 Ég held að allir geti tekið undir með forsætisráðherra um að þeir sem komu að gerð þessa kjarasamnings eigi heiður skilinn fyrir áhersluna á hækkun lægstu launa og ábyrga afstöðu að öðru leyti. Þá mun útspil ríkisstjórnarinnar vera mjög mikilvægt í öllu þessu samhengi og styrkja samkomulag það sem aðilar vinnumarkaðarins gerðu með sér.


Stöðugleiki er forsenda þess að taka upp annan gjaldmiðil

Það er einungis nokkrir dagar síðan ég byrjaði að blogga og þessar örfáu færslum mínar tengjast allar borgarstjórnarskiptunum. Nú er mál að linni.

Í þinginu í gær var mikil og góð umræða um Evrópumálin og komu margar skoðanir fram. Bjarni Benediktsson formaður utanríkismálanefndar þingsins fjallaði, eins og hann hefur reyndar gert áður, um mikilvægi þess að Alþingi kæmi mun meira og fyrr að stefnumótun og einstökum ákvörðunum varðandi Evrópumálin. Þá var mikil umræða um Evruna og hvort rétt væri að taka hana upp. Steingrímur J. Sigfússon og varði krónuna með kjafti og klóm á meðan Árni Páll Árnason hélt fram kostum þess að taka upp Evruna. Mörg rök eru með og á móti en hvar sem menn standa í pólitík er ljóst að staða krónunnar er orðin miklu veikari eftir að alþjóðavæðingin hélt innreið sína inn í íslenskt efnahagslíf.

Þorsteinn Pálsson ritstjóri Fréttablaðsins vekur athygli á því í blaðinu í dag að það sé rétt að staða okkar innan Evrópu sé að veikjast vegna þess að alþjóðastofnanir sem við erum aðilar að eru orðnar veikari en áður. Staða Evrópu er líka að breytast, valdahlutföll heimsins eru önnur en fyrir nokkrum árum síðan og því verður að skoða stöðu Íslands í því samhengi. Kína er orðið mikið efnahagsveldi nú þegar, Indland stefnir í sömu átt og Rússland hefur styrkt stöðu sína hratt í efnahagslegu tilliti.

 Af þessu má sjá að staðan er ekki einföld og engan veginn augljóst að hagsmunir Íslands liggi í því að taka upp Evruna. Hins vegar þurfum við að koma efnahagsmálum okkar í þann farveg að við getum tekið upp annan gjaldmiði ef við teljum það rétt. Til þess þarf að koma á stöðugleika í efnahagsmálunum, ná verðbólgunni og vaxtastiginu niður og auka jafnvægi í inn- og útflutningi svo eitthvað sé nefnt. Það er nærtækasta verkefnið og stendur stjórnmálamönnum næst. Eitt af því sem er nauðsynlegt til að árangur náist er að einbeita sér að ríkisútgjöldunum og vonast ég til þess að þeir stjórnmálamen sem horfa til upptöku annars gjaldmiðils en krónunnar einbeiti sér að þessu verkefni og skal ég styðja þá í því hvar og hvenær sem er.


Af viðkvæmni grínverja og blaðamanna

Rétt eins og mér fannst fyndið að heyra grínverjan Karl Ágúst Spaugstofumann útskýra marg umræddan Spaugstofuþátt þá fannst mér ekki síður fyndið að lesa pistil grínverjans Þorsteins Guðmundssonar í Fréttablaðinu í dag.

Ég hef stundum verið að hugsa um það að það sé dálítið skrítið að þær tvær stéttir sem eru hvað viðkvæmastar fyrir gagnrýni eru blaðamenn og grínistar. Báðar þessar stéttir nærast á því að varpa ljósi á umhverfi okkar með gagnrýnum hætti, þótt undir ólíkum formerkjum sé. Þær ættu því að vera vel undir það búnar að einhverjir séu á öndverðum meiði við þær. En það eru þær svo sannarlega ekki. Ef einhverjir, ég tala nú ekki um stjórnamálamenn, voga sér að gagnrýna fyrrgreindar stéttir þá leggjast þær undantekningarlaust í nauðvörn. Iðulega er vísað til málfrelsis og má þá helst skilja að það hafi verið fundið upp fyrir blaðamenn og grínista en alls ekki fyrir okkur hin. Svo er farið að útskýra fyrir okkur, hinum fávísu, hvað sé blaðamennska og hvað sé grín. Ef við síðan kyngjum ekki framsetningu fjölmiðla eða hlæjum á réttum stöðum að grínistunum þá er umvöndunartónninn sendur út.  

Ég man eftir því frá skólaárum mínum að það voru það alltaf þeir sem stríddu mest sem brugðust verst við stríðni. Það sama virðist eiga við um þá sem vinna við að gagnrýna aðra. Þeir þola síst af öllum gagnrýni. Hins vegar mættu stjórnmálamenn læra af samheldni grínista og blaðamanna. Hún er mikil en nokkuð spaugileg.

Vonandi næ ég því svo í framtíðinni að komast ofar á viðmælandalista blaðamanna. Þá er það eitt af markmiðum mínum í pólitíkinni ná þeirri stöðu að grínistar nenni að gera grín af mér.


Spaugilegar afsakanir Spaugstofumanna

Ég er einn af þeim sem skildi ekki húmorinn í síðasta Spaugstofuþætti og fannst satt best að segja farið langt yfir strikið. Hvað sem hver segir þá er umfjöllun um sjúkdóma mis viðkvæm. Það er allt annað að gera grín að bruna á baki en t.d. krabbameini svo dæmi sé tekið. Þá segir einhversstaðar að aðgát skuli höfð í nærveru sálar og víst er að þær eru fleiri en sál borgarstjórans í þessu tilviki. 

Loksins kom þó eitthvað fyndið út úr þessum blessaða þætti þegar talsmenn Spaugstofunnar fóru að útskýra húmorinn. Þeir voru semsagt ekki að gera grín að borgarstjóranum heldur fréttamönnunum. Nú skil ég og líður miklu betur, sé allavega spaugilegar hliðar á þessum lélegu afsökunum. 


Uppákoman í Ráðhúsinu

Maður getur ekki orða bundist þegar maður horfir upp á farsann í Ráðhúsinu. Hvað sem mönnum finnst um borgarstjóraskiptin þá hlýtur fólk að vera sammála um að það er ekki í anda lýðræðisins að koma í veg fyrir að borgarstjórnarfundir geti farið  fram. Það ótrúlegasta við þetta er að þeir sem telja sig geta túlkað framgang lýðræðisins öðrum betur standa fyrir þessari uppákomu með fulltingi ungliðahreyfinga flokkanna.

Það er enginn munur á myndun þessa meirihluta og þess síðasta nema hvað flokkarnir sem standa að baki honum eru nú helmingi færri. Og nú er Björn Ingi að hætta í borgarstjórn sem er varla til þess fallið að bæta stöðu fráfarandi meirihluta. Ef mönnum var annt um lýðræðið í kjölfar borgarstjórnarkosninganna hefðu fulltrúar VG og samfylkingar átt að taka tillit til þess og bjóða Sjálfstæðisflokknum upp í dans. Nei, aðalmálið var að stærsti flokkurinn kæmist ekki að frekar en 12 árin þar á undan, burt séð frá niðurstöðum kosninga. Þannig lásu sjálfskipaðir yfirtúlkar lýðræðisins í niðurstöður kosninganna og ef aðrir fylgja ekki þessari skoðun þá eru þeir að vanvirða lýðræðið. Svo á bara kjósa aftur og kannski aftur og aftur. Væntanlega þangað til kosningarnar eru ákveðnum öflum þóknanlegar. Ábyrgðarleysi og valdasýki vinstriflokkanna í kjölfar síðustu borgarstjórnarkosninga er rótin að vanda dagsins í dag, því miður.


Fjórflokkabræðingurinn var andvana fæddur

Síðustu 100 dagar hafa verið skrautlegir hvað pólitík varðar í borginni og örugglega ekki til þess fallnir að lyfta henni á hærra plan. En merkilegt er hvað vinstri menn eru glúrnir við að stimpla allt sem þeir sjálfir gjöra sem sjálfsagt, eðlilegt og í þágu lýðræðisins en ef Sjálfstæðisflokkurinn spilar eftir sömu leikreglum þá er það árás á lýðræðið. Þannig þótti R-listanum sjálfsagt og eðlilegt að láta völd í Reykjavík snúast um það að Sjálfstæðisflokknum væri haldið frá ráðhúsinu í 12 ár þrátt fyrir að vera stærsti flokkurinn með um 40% fylgi. Fyrir 100 dögum síðan þótti svo sjálfsagt að mynda fjögurra flokka borgarstjórn í sama tilgangi. 

Sá bræðingur var sagður traustur og af yfirlýsingum að skilja þá var ekki nokkur veikur hlekkur í samstarfinu. En auðvitað vissu allir að þetta gat aldrei gengið upp og strax á fyrstu dögunum kom vandræðagangurinn fram. Ekki var nokkur leið að bræðingurinn kæmi sér saman um málefnasamning. Gífuryrði um stöðu Orkuveitunnar gufuðu upp  og við tók ferli sem enginn skildi og nú síðast Laugavegsfarsinn þar sem 4 skoðanir jafn margra flokka tókust á. Þá var stöðnun á öllum sviðum enda fór allur tími í að miðla málum milli flokkanna fjögurra. Þetta var skv. forystumönnum "fjórflokksins" hinn stjórntæki meirihluti í Reykjavík og framgangur lýðræðisins.

Í þeirri stöðu sem nú er upp komin vilja sumir borgarfulltrúar og Alþingismenn breyta kosningalögunum þannig að hægt sé að efna til auka sveitastjórnarkosninga ef upp koma vandamál. Þetta er fullkomlega óábyrg afstaða. Hvað væri þá eiginlega oft búið að kjósa í Reykjavík á þessu kjörtímabili eða því síðasta?

Ein helsta ábyrgð sveitastjórnarmanna er að setja hagsmuni sveitarfélagsins í fyrsta sæti og mynda trausta sveitastjórn. Þeir sem eru í pólitík í þeim tilgangi að halda stjórnmálaflokki, sem hefur hátt í helming kjósenda á bak við sig, frá völdum af einhverjum óútskýranlegum ástæðum eru í pólitík á röngum forsendum. Slík afstaða er ólýðræðisleg og leiðir til þess að ekki er hægt að mynda þann meirihluta sem klárlega væri sveitarfélaginu fyrir bestu. Fyrir þetta hefur Reykjavíkurborg liðið um langt skeið og hefur borgarstjórafæribandið vart undan að flytja nýtt fólk inn og útúr ráðhúsinu.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband