Fastur í gamla farinu

Þó við lifum í síbreytilegum heimi þá er eitt sem ekki breytist en það er afstaða Ögmundar Jónassonar til einkaframtaksins. Þetta kristallast á forsíðu Morgunblaðsins í dag þar sem haft er eftir honum að einkarekin velferðarþjónusta sé óhagkvæmari. Þá er jafnframt notað það gamla "trix" að segja að úthýsing sé á kostnað láglaunastéttanna. Þetta er sagt þótt allir stjórnmálaflokkar hafi lýst því yfir að allir skuli standa jafnir frammi fyrir velferðarþjónustunni burt séð frá því hvort hún er veitt af einkaaðilum eða opinberum starfsmönnum.

Fullyrðingar af þessum toga verða að teljast hæpnar ekki síst þegar horft er til þess að "einkareknu" heilsugæslustöðvarnar hafa verið að koma mjög vel út rekstralega og mikil ánægja með þjónustuna. Sem dæmi má nefna Salus, heilsugæslustöðina í Salarhverfi í Kópavogi. Hún er ódýrust í rekstri en um leið hefur ánægja viðskiptavina verið mest þar. Þessi heilsugæslustöð var boðin út en það breytir í engu um aðkomu viðskiptavina að öðru leyti en því að þeir eru ánægðari. Þá má nefna þjónustu Orkuhússins sem hefur þótt til mikillar fyrirmyndar. 

Annað sem vert er að draga fram er að samkvæmt úttekt OECD er íslenska heilbrigðiskerfið allt of dýrt hér á landi og eitt það dýrasta í heimi, sem ætti ekki að vera, þegar horft er til þess hversu ung þjóðin er. Í skýrslunni segir að við verðum að stokka upp í kerfinu í þeim tilgangi að fá meira fyrir það fjármagn sem við leggjum fram. Þegar hlutlægir aðilar eins og OECD koma fram með síkar fullyrðingar hljótum við að leggja við hlustir og taka mark á slíkum athugasemdum. Við megum ekki festast í kreddum. Ég er þeirrar skoðunar að það geti verið gott að hafa bæði rekstrarformin og fá með því ákveðin samanburð og samkeppni. Þá hljótum við að geta lagst saman á árarnar með að auka hagkvæmni í velferðarþjónustunni. Slíkt er oft hægt að gera um leið og komið er til móts við óskir og þarfir viðskiptavinarins eins og til dæmis aukin heimaþjónusta við eldri borgara undirstrikar.


Bílstjórar með mikilmennskubrjálæði?

Mikið þótti mér leiðinlegt að horfa upp á aðgerðir trukkabílstjóra í dag. Enn sárara þótti mér að horfa upp á unga fólkið úr framhaldskólunum taka þátt í þessari vitleysu. Toppurinn á dellunni var svo að heyra af því að bílstjóri hefði barið skólabílstjóra og bakkað inn á skólalóð barna- og leikskóla í Kópavogi.

Hvernig dettur trukkabílstjóra í hug að ógna öryggi barna í kópavogi með síkum hætti. Svo er því haldið fram að þessir atburðir tengist ekki. Múgæsingurinn er augljós 

Þetta var þó ekki það versta. Heldur hitt að við foreldrar höfum kennt börnum okkar að umgangast hvort annað af virðingu. Í skólanum þurfa þau svo að horfa upp á það að trukkabílstjóri af nálægu byggingarsvæði rennir vörubílnum sínum inn á skólalóð leikskóla og grunnskóla, hrópar ókvæðisorð að öllum í kringum sig og lemur bílstjóra skólarútunnar. Trukkabílstjórar, berið þið enga virðingu fyrir sjálfum ykkur?


Jafnræði þarf að vera í refsingum þegar svikið er fé úr ríkissjóði

Mikið hefur verið skrifað og rætt um skattlagningu undanfarin misseri. Mjög ólíkar skoðanir hafa komið fram um það hvaða leiðir séu bestar til þess að skattkerfið sé sem sanngjarnast. Ýmsir hafa jafnvel gengið svo langt að segja að skattar hafa verið hækkaðir undir forystu Sjálfstæðisflokksins og hefur það komið fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn hefur verið kallaður skattpíningaflokkur. Á hinn bóginn hafa ýmsir fjármálasérfræðingar margra fjármálafyrirtækja gagnrýnt stjórnvöld fyrir hið gagnstæða, bæði opinberlega og í heimsóknum sínum til fjárlaganefndar og efnahags- og viðskiptanefndar. Hefur sú gagnrýni fyrst og fremst snúið að tímasetningu skattalækkana. Það er því ekki er nema von að umræðan sé ruglingsleg þegar hún er með þessum hætti innan og utan veggja þingsins.

Málið er samt í raun langt frá því að vera flókið ef útúrsnúningum er sleppt. Skattprósenta á tekjur einstaklinga og fyrirtækja hefur verið lækkuð heilmikið. Tekjuaukning ríkisins kemur til vegna þess að laun hafa undanfarin ár hækkað mikið svo og hagnaður fyrirtækja. Þess vegna hafa tekjur ríkissjóðs hækkað. Það samræmist því markmiði sem skattkerfið byggir á sem er að þeir sem hafa mest á milli handanna borgi hæstu skattana.

Ég hef lengi verið þeirra skoðunar að skattar eigi vera réttlátir og til þess að gera lágir. Slík stefna dregur úr skattsvikum og eykur kraftinn í samfélaginu. Sanngjarnir skattar hafa það líka í för með sér að samstaðan í þjóðfélaginu um að þeir skuli greiddir verður meiri um leið og nauðsynlegt er að búa svo um hnútana að viðurlög við brotum á skattkerfinu bíti. Almennt hefur þetta verið gert og refsingar við brotum miklar.Um leið og rætt er um sanngjarna skatta er líka nauðsynlegt að tryggja sanngjarna og eðlilega úthlutun úr ríkissjóði, sameiginlegum sjóði okkar allra. Í skattumræðunni er gjarnan rætt um nauðsyn þess að bæta kjör þeirra sem minnst hafa á milli handanna og nauðsynlegt sé að hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Þetta eru réttmæt markmið sem vert er að taka undir.

Rúv skýrði frá því í vikunni að dómur hefur fallið í svo kölluðu Tryggingarstofnunarmáli þar sem karl og kona voru dæmd fyrir að taka þátt í að aðstoða starfsmann stofnunarinnar við að svíkja fé úr ríkissjóði. Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi karlinn í 8 mánaða fangelsi en konan fékk 6 mánaða dóm, skilorðsbundinn til 3 ára. Fólkið heimilaði starfsmanni Tryggingastofnunar að nota bankareikninga sína til að geyma fé sem hann sveik út úr stofnuninni og að hylma yfir með starfsmanninum gegn þóknun. Samtals sveik starfsmaðurinn hátt í 76 milljónir króna út úr Tryggingastofnun og lagði peningana inn á reikninga 19 manns sem flestir voru bótaþegar.

Alls lagði starfsmaðurinn tæpar 7 milljónir inn á reikning konunnar sem fékk í sinn hlut helming fjárins, sem hún vissi að væri illa fengið. Starfsmaðurinn lagði rúmar 9 milljónir inn á reikning karlsins sem segist hafa fengið rúmlega milljón í sinn hlut. Karlinn fékk hins vegar þyngri dóm þar sem hann á sakaferil að baki en konan var með hreint sakavottorð.

 

Rétt eins og það er grafalvarlegt að svíkjast undan skatti er ekki síður alvarlegt að svíkja fé út úr ríkinu með beinum hætti. Samt sem áður er refsiramminn miklu skýrari hvað varðar viðurlög við skattsvikum en svikum út úr almannatryggingarkerfinu. Mér er sagt af mér fróðari mönnum að sennilega hefðu skipulögð skattsvik fyrir jafn háa upphæði og að ofan greinir leitt til mun harðari refsingar. Þessu þarf að breyta og fullkomið samræmi að vera milli skipulagðrar sjálftöku úr ríkissjóði. Það á ekki að skipta máli hvort um skattsvik er að ræða eða svik út úr stofnunum ríkisins með beinum hætti.

ES. Pistill þessi birtist einnig á vef Tryggingastofnunar ríkisins; http://www.tr.is/

 


Tár í tómið

Það fór kaldur hrollur niður bakið á mér í gær þegar ég heyrði fréttir af því að enn eitt slysið hefði orðið á Reykjanesbrautinni og að þrír lægju á gjörgæslu. Enn eitt óþarfa slysið var staðreynd. Ég hef á þessari síðu vakið athygli á því hversu alvarlegt það er að slá slöku við þegar kemur að forvörnum gegn slysum. Pistillinn heitir "Engin slys takk" og var skrifaður 12. mars. Ég hef einnig skrifað blaðagrein um sama efni sem birtist í einu af dagblöðum landsins.

Í byrjun febrúar flutti ég þingsályktunartillögu sem miðaði að því að hið opinbera sýndi gott fordæmi í þessum efnum og setti ströng skilyrði í öryggismálum í sinni mannvirkjagerð ekki síst vegaframkvæmdum. Í umræðunni á Alþingi sagði ég meðal annars:

"Það á að vera réttur okkar allra að geta snúið heil heim að vinnudegi loknum og það á að vera réttur okkar allra að geta treyst því að fyllsta öryggis sé alls staðar gætt við framkvæmdir. Ég neita því ekki að þegar maður hefur horft upp á ýmsar vegaframkvæmdir að undanförnu og ítrekað hefur verið bent á t.d. vegaframkvæmdir við Reykjanesbraut og einnig ýmsar aðrar vegaframkvæmdir, bæði á Vesturlandi og Norðurlandi, þá finnst manni alveg með hreinum ólíkindum hvernig merkingar eru og það er verið að bjóða hættunni heim í mörgum þessara framkvæmda".

 Og enn berast fréttir af slysum af þessum sama vegakafla og ég var að vitna til. Ótrúlegt.

http://www.althingi.is/altext/135/s/0375.html


Það ku vera fallegt í Kína, kolaálver sýna

Pétur Blöndal Alþingismaður spurði Þórunni Sveinbjarnadóttur umhverfisráðherra um það í þinginu fyrir í vetur hvað Kárahnjúkavirkjun sparaði mannkyninu mikla losun koltvísýrings miðað við að álið væri framleitt í Kína með rafmagni framleiddu við brennslu á kolum. Svaraði ráðherrann því til að samkvæmt upplýsingum frá Umhverfisstofnun ylli raforkuframleiðsla með vatnsafli á Íslandi óverulegri losun, um 0,013 tonnum af koldíoxíði á hvert tonn af framleiddu áli. Framleiðslugeta álversins á Reyðarfirði, þegar það verður komið í fulla starfsemi, verður 346 þús. tonn á ári eins og kunnugt er. Orkuframleiðsla til álvers af þeirri stærð með vatnsafli eins og því sem nýtt er í Kárahnjúkavirkjun veldur losun um 5 þús. [á sennilega að vera 500 þús.] tonna af koldíoxíði á ári. Orkuframleiðsla af þeirri stærð með kolum mundi valda losun 4,29 millj. tonna af koldíoxíði á ári að gefnum forsendum. http://www.althingi.is/raeda/135/rad20080123T153103.html

Sem sagt ef einu "kola" álveri í Kína sem væri af sömu stærð og álverið á Reyðarfirði yrði lokað, væri hægt byggja um 8,5 í staðinn ef eingöngu er horft til koldíoxíðmengunar.

Í fyrirlestri sínum í morgun lagði Al Gore mikla áherslu á að jörðin væri sameign allra jarðarbúa. Ekki væri hægt að hugsa um hlýnun jarðar út frá einstökum löndum eða svæðum. Er nema von að Pétur hafi spurt þeirrar spurningar hvort Íslendingar gætu ekki lent í því að heimsbyggðin gerði þá kröfu til okkar að við myndum margfalda vistvæna orkuframleiðslu. 

Hvað sem því líður er ljóst að Orkuframleiðsla og orkunotkun er ekki einkamál einstakra þjóða. Við Íslendingar getum þó verið stoltir af því með hvaða hætti orkumálum er háttað hér á landi þegar litið er til koldíoxíðmengunar í tengslum við stóriðju. Það er eitt af okkar framlögum til að sporna við hlýnun jarðar.


Hvar á að skera?

Fór í lyftu í morgun í einu af stærri fyrirtækjum landsins sem ekki er í frásögur færandi, nema fyrir það að samferða mér var kona sem vék sér að mér og sagði að hún hefði átt að mæta með barnið sitt til tannlæknis fyrr um morguninn. Hún hefði hins vegar mætt allt of seint þar sem trukkabílstjórar stoppuðu alla umferð. Bætti hún því við að nú væri svo komið að hún myndi ekki styðja málstað þessara  aðila.

Þetta er akkúrat mergurinn málsins. Það eru margar leiðir til að vekja athygli á því sem borgararnir eru ósáttir við og er leið atvinnubílstjóra ein þeirra. Aðgerðir þeirra eru hins vegar þess eðlis að þær geta auðveldlega snúist í höndunum á þeim ef þeir ganga of langt gagnvart almenningi. Í tilvikinu hér að framan hafa frátafir frá skóla og vinnu orðið miklu meiri en áætlað hafði verið og kannski í annað, þriðja eða fjórða sinn með tilheyrandi tilkostnaði fyrir þjóðfélagið.

Um þessar mundir erum við að sigla í gegnum mikinn storm sem gustað hefur um heim allan. Þetta má sjá á þeim lausafjárskorti sem hefur verið viðvarandi allstaðar. Matvælaverð hefur hækkað mikið vegna verðhækkana á aðföngum ekki síst áburði. Hveitiverð hefur hækkað upp úr öllu valdi og í ofanálag hefur heimsmarkaðsverð á eldsneyti hækkað mjög mikið og hefur ríkisstjórn Íslands ekkert með það að gera.

Um leið og þessar hækkanir hafa dunið yfir okkur hefur ástandið á fjármálamörkuðum, lausafjárkreppan í heiminum, orðið til þess að ýmsir óprúttnir aðilar hafa séð viðskiptaleg tækifæri í því grafa undan íslensku viðskipta- og fjármálalífi. Margt bendir til þess að ágjöfin sé að minnka og ef botninum er náð ætti viðspyrna að geta skilað góðum árangri.

Það er hins vegar ekki sjálfgefið að taka eldsneyti út úr heildarmyndinni. Verkefnið er að koma í veg fyrir víxlverkanir með tilheyrandi verðbólgu og tryggja kjör þeirra sem minnst hafa handa á milli og festa nýgerða kjarasamninga í sessi. Álögur ríkisins á matvæli væri því mun nærtækari aðgerð.

Seðlabankinn vinnur nú að því hörðum höndum að styrkja undirstöður fjármálalífsins sem vonandi skilar sér í styrkingu krónunnar og þá um leið lægra eldsneytisverði. Ef þetta gengisstig krónunnar og sífellt hækkandi olíuverð er hins vegar viðvarandi ástand þá finnst mér koma til greina að endurskoða álögur. Það er aftur á móti ljóst að aukning tekna ríkisins upp á 1,6 ma.kr. vegna hækkunar á eldsneyti er ekki staðreynd nema því aðeins að Íslendingar myndu spara þann pening sem lækkun bensínverðs næmi. Það væri þá alveg nýtt hjá landanum. Líklegra er að peningarnir færu í aðra neyslu sem gæfi líka tekjur í ríkissjóð.

Spurningin er því hvar á að skera niður á móti? Á að draga úr vegaframkvæmdum, þjónustu við aldraða eða sjúka. Því þurfa þeir að svara sem ætla að draga úr tekjum ríkissjóðs umfram það sem bakslag í efnahagslífinu gerir.  


Eru bankarnir að hafa óeðlileg áhrif á krónuna?

Fyrir páska og svo aftur í dag hafði ég samband við aðila sem fjármögnuðu bíl sem ég keypti á síðari hluta síðasta árs þegar gengisvísitala krónunnar var í kringum 118. Ég ákvaðað taka lán í íslenskum krónum sem var að því að mér var sagt undantekning þar sem vextir væru svo háir. Ástæðan frá minni hendi var einföld, ég taldi krónuna of hátt skráða og var viss um að hún ætti eftir að veikjast. Fyrir páska fór gengi krónunnar svo í 160 og ætlaði ég þá að breyta yfir í erlent lán, enda hafði mér verið sagt þegar ég tók lánið að það væri ekkert mál. En það var nú aldeilis ekki svo, mér hefur verið neitað í tvígang um slíka breytingu.

Mér finnst þetta vægast sagt döpur þjónusta af hendi viðkomandi fyrirtækis sem er dótturfélag eins stærsta banka landsins. Er nema von að krónan veikist þegar skrúfað er fyrir eftirspurn eftir henni með þessum hætti.

Í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans sagði Davíð Oddsson seðlabankastjóri að bankinn hefði vísbendingar um að einhverjir kunni að haft óeðlileg áhrif á gengi krónunnar. Athyglisvert ekki síst í ljósi þess að kvittur hefur verið um að bankarnir hafi verið að skortselja krónu (selja krónu sem þeir eiga ekki en afhenda síðar) í þeim tilgangi að veikja hana með offramboði. Á sama tíma skrúfa þeir fyrir lántökur í erlendri mynt sem einnig verður til þess að takmarka eftirspurn eftir krónu og þar með veikja hana. Engu að síður eiga þeir yfir 500 milljarða í erlendum gjaldeyri.

Nú reynir á Seðlabankann og Fjármálaeftirlitið sem hefur það hlutverk að tryggja eðlileg viðskipti fjármálafyrirtækja. Ég vona svo sannarlega að bankarnir hafi ekki verið að stýra genginu til að laga afkomuna hjá sér á kostnað viðskiptavina þeirra og almennings í landinu.


Er krónan að syngja sinn svanasöng?

Sálarástand þjóðarinnar hefur verið að breytast mjög hratt á undanförnum vikum og mánuðum. Þetta má sjá á því að væntingarvísitalan hefur lækkað hratt og er nú svo komið að við höfum sveiflast frá því að vera ofubjartsýn yfir í það að vera svartsýn á ástandið. Því miður að það ekki svo að þetta sé einangrað við Íslendinga því þetta á við um nánast alla heimsbyggðina. Fylgni sálarástands þjóðarinnar virðist sveiflast í takt við íslensku hlutabréfavísitöluna.

Þetta er í sjálfu sér eðlilegt enda er ástand á hlutabréfamarkaðnum gjarnan spurning um stemningu. Oft er líka sagt að það séu tvær megin breytur sem ráða hegðun á markaðnum en það er annars vegar græðgin og hins vegar óttinn. Ég held því miður að við höfum séð talsverð sannindi í þessu þegar við horfum til baka.

Ekki er langt síðan að það voru fréttir af því dag eftir dag að byggingarmarkaðurinn væri allt of þaninn, verð á íbúðum væri orðið allt of hátt og að eftirspurn eftir vinnuafli væri allt of mikil sem aftur ýtti enn frekar undir þensluna. Allt hefur þetta síðan ýtt undir hátt vaxtastig þar sem reynt er að halda aftur af neysluæði þjóðarinnar en kemur sér auðvitað illa fyrir skuldsett fyrirtæki. Margir hafa því stigið fram á sjónarsviðið og sagt að þessu verði að linna því umrætt ástand gengi ekki upp til lengdar.

Nú hefur það svo gerst að þenslan virðist vera að ganga til baka. Sagðar eru fréttir af því að dregið hafi úr þenslu á vinnumarkaði og jafnvel svo komið að einstakir aðilar hafi sagt up starfsfólki. Það mætti því ætla að við værum á réttri vegferð miðað við það sem áður var sagt. Sú er þó ekki raunin því þjóðin er strax byrjuð að óttast bakslagið sem allir höfðu þó talið að væri bráð nauðsynlegt stuttu áður.

Markaðurinn er að bregðast við breyttu ástandi en ekki er ljóst hversu langan tíma það tekur að finna nýjan jafnvægispunkt. Það sem er þó öðruvísi nú í seinni tíð en fyrir aldamót er að krónan sem stjórntæki, nýtist okkur ekki með sama hætti og áður. Sveiflujöfnunin sem var henni eiginleg áður en útrásin hófst er ekki lengur til staðar. Sveiflujöfnunin fólst meðal annars í því að þegar viðskiptahalli þjóðarinnar varð óeðlilega mikill þá leiddi mikil eftirspurn eftir gjaldeyri til þess að hann hækkaði í verði, krónan veiktist, erlendar vörur urðu dýrari og það dró úr eftirspurn eftir neysluvöru. Á þessum tíma var heldur ekki aðgangur að erlendum “ódýrum” lánum sem héldu uppi neyslustiginu. (Hér er ekki litið til þess hlutverks sem halli á ríkissjóði spilaði á þessum tíma)

Umhverfi seðlabankans hefur breyst þar sem honum er ætlað að halda verðbólgu innan ákveðinn marka. Þetta hefur það í för með sér að þegar krónan hefur gefið eftir gagnvart öðrum gjaldmiðlum sem aftur leiðir til hærri verðbólgu hafa vextir verið hækkaðir. Þar sem Ísland er nú hluti af alþjóðlegu hagkerfi hefur það leitt til þess að erlendir fjármagnseigendur eru farnir að spila á vaxtamun milli Íslands og annara landa. Þetta hefur leitt til þess að þegar viðskiptahallinn er eins og hann hefur verið undanfarin ár leiðir það ekki til þess að aukin eftirspurn eftir gjaldeyri leiði til sjálfvirkrar leiðréttingar á krónunni þar sem hún gefur eftir og gjaldeyrir verður dýrari og innflutningu minnkar. Heldur þvert á móti hefur þetta leitt til þess að útlendingar dæla gjaldeyri inn í landið, hann verður áfram ódýr og ekkert slær á viðskiptahallann. Eftir sem áður heldur krónan áfram að sveiflast sem skapar viðskiptalífinu erfitt rekstrarumhverfi.

Það er því ekkert óeðlilegt að spyrja sig þeirrar spurningar hvort rétt sé að halda í krónuna ef við höfum ennþá stærsta gallan hennar þ.e. sveiflurnar og kostirnir eru ekki lengur fyrir hendi þar sem hún endurspeglar ekki ástandið í efnahagsmálunum. Hún okkur ekki sem stýritæki lengur.Hver sem niðurstaðan verður þá koma skyndilausnir ekki til með að breyta þeim raunveruleika sem við stöndum frammi fyrir núna. Hér þarf að koma á stöðugleika og Seðlabankinn spilar stórt hlutverk í þeirri vegferð. Ýmsir hafa bent á að nauðsynlegt sé að hleypa verðbólgunni í gegn og fá þannig verðbólguskot. Í því samhengi verður ekki litið framhjá því að slík aðgerð getur veikt stöðu heimilanna mikið í ljósi þess að þau eru skuldsett í verðtryggðum lánum sem tækju miklum hækkunum. Betra væri ef okkur tækist að kæla hagkerfið þannig að verðbólgan rjúki ekki upp við lækkun stýrivaxta Seðlabankans. Það getur verið sársaukafullt tímabil en nauðsynlegt fyrir stöðugleikann. Þá fyrst er mögulegt sé að taka upp annan gjaldmiðil ef menn telja það þjóna íslenskum hagsmunum en það eru þeir sem þetta allt gengur út á.  


Engin slys takk

Mér brá nokkuð í brún þegar ég var að lesa frétt í 24 stundum í gærkvöldi þar sem verið var að fjalla um ungan mann sem bjargaðist giftusamlega er vinnupallar í Boðaþingi hrundu. Það var auðvitað mjög gott að hann skildi sleppa svo vel frá þessu slysi en hins vegar slasaðist vinnufélagi hans alvarlega. Það sem vakti þó mestu undrun mína var viðhorf byggingastjórans þar sem vitnað er í ummæli hans; það verða alltaf slys.

Ef byggingastjórar hafa almennt þetta viðhorf er komin skýring á því hvers vegna við erum sífellt að fá fréttir af vinnuslysum. Ekki síst fallslysum í byggingariðnaði. Það vakti t.d. athygli mína að með fréttinni var mynd af vinnupöllum við umrædda byggingu en þeir vor ekki með áföstu öryggisneti.

Í mínum huga er með réttu hugarfari og markvissum aðgerðum hægt að koma í veg fyrir öll þessi slys. Fróðlegt væri að vita hvaða reglur og markmið umræddur verktaki hefur sett sér í öryggismálum fyrirtækisins.

Ég hef vakið athygli á þessum málum á Alþingi og sagt að það sé óásættanlegt fyrir alla, bæði einstaklingana og fjölskyldur þeirra, að slasast í vinnunni. Allir eiga rétt á að koma heilir heim að vinnudegi loknum. Ég vil að við setjum okkur núllslysastefnu og til þess að stíga fyrstu skrefin hef ég lagt fram þingsályktunartillögu sem sjá má hér að neðan ástamt krækju í hana og greinargerðina inn á vef Alþingis.

Þá er meðfylgjandi grein sem birtist í Fréttablaðinu 16/2 sl.

 Alþingi ályktar að fela fjármálaráðherra að endurskoða innkaupastefnu ríkisins með það að markmiði að:
    a.      tryggja sem best öryggi, heilsu og aðbúnað starfsfólks bjóðenda svo að tíðni slysa og atvinnutengdra kvilla verði lægst á Íslandi meðal OECD-landa,
    b.      koma í veg fyrir óhöpp eða slys við framkvæmdir á vegum hins opinbera.

http://www.althingi.is/altext/135/s/0375.html

 

Engin slys takkÖll viljum við snú heil heim að vinnudegi loknum en því miður eru ekki allir svo heppnir. Rekja má fjölda slysa til þess að ekki hefur verið hugað að öryggismálum við ýmsar framkvæmdir. Slík slys eru með öllu ólíðandi og mega ekki eiga sér stað.Af þessum sökum er ástæða til þess að brýna stjórnvöld til þess að vera fyrirmynd þegar kemur að öryggi við framkvæmdir og gera ríkari kröfur en nú er gert til ýmissa verktaka. Til þess að stuðla að slíkri hugarfarsbreytingu hef ég flutt þingsályktunartillögu sem miðar af  því að fela fjármálaráðherra að endurskoða innkaupastefnu ríkisstjórnarinnar með það að markmiði;a) að tryggja sem best öryggi, heilsu og aðbúnað starfsfólks bjóðenda svo að tíðni slysa og atvinnutengdra kvilla verði lægst á Íslandi meðal OECD landab) að koma í veg fyrir að framkvæmdir hins opinbera valdi óhöppum eða slysum (hér er átt við utanaðkomandi aðila, eins og t.d. vegfarendur, þar sem um vegaframkvæmdir er að ræða). Sem stærsti framkvæmdaraðili á Íslandi getur hið opinbera haft mikið að segja í þessum efnum með því að sýna gott fordæmi og setja reglur þar af lútandi um að val á verktökum og birgjum m.t.t. frammistöðu þeirra í öryggismálum og heilsuvernd.Íslenskt atvinnulíf og samfélag hefur alla burði til þess að verða fyrst til þess að setja sér núll-slysa stefnu rétt eins og við setjum okkur háleit markmið þegar kemur að umferðaröryggismálum.Ríkiskaup og sveitarfélög geta komið miklu til leiðar ef val á verktökum/birgjum byggist á   árangri viðkomandi aðila í öryggis- og heilsuverndarmálum, þ.e.a.s. að bjóðendur þurfi að leggja fram slysa- og atvinnusjúkdómatölfræði og áætlun um hvernig öryggis- og heilsuverndarmálum skuli fylgt eftir. Það er því mikilvægt að setja sér markmið um engin slys, því lág tölfræði slysa bætir ekki stöðuna fyrir þann sem lendir í því eða aðstandendur þeirra. Því hlýtur núll-slysastefna að vera markmiðið.

 


Er rétt gefið úr ríkissjóði, sameiginlegum potti okkar allra?

Gjarnan er rætt um nauðsyn þess að bæta kjör þeirra sem minnsta hafa á milli handanna og hjálpa fólki til sjálfshjálpar. Þetta eru göfug markmið sem ég tek undir. Um leið er ljóst að það er Alþingis að ákveða hvernig deilt er úr okkar sameiginlega potti, ríkissjóði.

Mikið hefur verið talað um mannréttindi einstaklinganna og rík krafa gerð um það við útdeilingu allskyns bóta að ekki sér horft til tekna maka og ýmissa aukatekna. Þ.e. að bætur skerðist ekki hjá einum vegna tekna sem annar aflar og t.d. vaxtatekjur skerði ekki bætur. 

Þessar breyttu nútímaáherslur hafa haft það í för með sér að Alþingi hefur verið að hækka mest bætur hjá þeim sem oft á tíðum hafa það best, að því gefnu að við séum tilbúin til þess að horfa á fjölskylduna sem einingu. Þannig hafa hjón, fjölskyldur, með mörg hundruð þúsund í tekjur á mánuði verið að fá hækkun sem nemur tugum þúsund á mánuði. Þetta gerist á meðan í kerfinu eru fjölmargir einstaklingar, fjölskyldur, með um 130 þúsund krónur á mánuði.

Það sem mér hefur líka þótt merkilegt er að Sjálfstæðisflokkurinn hefur lent í því hlutverki að verja tekjutengingar á meðan fulltrúar gamla Alþýðuflokks og Alþýðubandalags sem höfðu forgöngu um tekjutengingar hafa viljað sleppa þeim í mörgum tilfellum. Fyrirfram hefði ég haldið að þessu væri öfugt farið.

Burt séð frá Því; hver er hvað og hvur er hvurs þá standa eftir þessar spurningar. Er verið með sanngjörnum og eðlilegum hætti að deila úr okkar sameiginlega potti, ríkissjóði? Erum við að ná fram markmiðum okkar að bæta kjör þeirra verst settu og hjálpa fólki til sjálfshjálpar? Það held ég ekki.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband