Upphrópanir Guðna standast ekki skoðun

Þrátt fyrir fjölmargar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum að undaförnu tók Guðni Ágústsson þá ákvörðun að snúa út úr þeim á fundarferð sinni um landið og í þinginu. Allsstaðar þar sem hann hefur mætt hefur hann kennt ríkisstjórninni um það mótlæti sem Íslendingar standa frammi fyrir í efnahagsmálum um þessar mundir.

Í umræðu um efnahagsmál á Alþingi 2. september sakaði Guðni ríkisstjórnina um aðgerðarleysi og  mátti helst á honum skilja að hækkun á olíuverði og hrávöruverði almennt væru henni að kenna og að lánsfjárkreppan væri einnig  komin til af hennar sök.Þessar upphrópanir  Guðna standast hins vegar enga skoðun eins og ýmsir, sem ekki eru í pólitík, hafa séð sig knúna til að benda á. Þetta kom til að mynda fram í fréttabréfi Glitnis sama dag og efnahagsumræðan fór fram. Í Morgunkorni greiningardeildar bankans kemur fram að þegar litið sé í baksýnisspegilinn er ljóst að stjórnvöld hafi brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Fjallað er um það með hvaða hætti gjaldeyrisforðinn hefur verið styrktur eins og svo oft hefur verið kallað á og hvernig Seðlabankinn hafi rýmkað reglur til að auka getu bankanna til að bregðast við vandanum. Þá er jafnframt bent á að bankinn hafi gengið inn í samstarf við ESB og EFTA um varnir gegn óstöðugleika á fjármálamörkuðum.

Í útvarpsviðtali sama dag við forstöðumann greiningardeildar Landsbankans kom þetta einnig fram. Auk þess benti fulltrúi bankans á að ástandið víða annars staðar væri síst betra en hér á landi og nefndi sérstaklega til sögunnar Bandaríkin, Bretland og Danmörku í tengslum við stöðuna á fasteignamarkaði.

Til viðbótar við það sem að framan er greint tilkynnti Geir H. Haarde forsætisráðherra um lántöku upp á 30 m.a. kr. sem er enn einn liðurinn í því að styrkja gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar. Hefur gjaldeyrisforðinn því verið fimmfaldaður á tveimur árum.

Aðrar aðgerðir sem einnig miða að því að mæta erfiðleikum í efnahagslífinu eru skattalækkanir á fyrirtæki og einstaklinga. Þá hafa fyrstu skref í afnámi stimpilgjalda verið stigin og viðmiðum breytt hjá Íbúðalánasjóði en  báðar þessar aðgerðir hafa það að markmiði að örva fasteignamarkaðinn.Af þessu má sjá að annaðhvort hefur formaður Framsóknarflokksins ekki fylgst með eða hann hefur kosið að snúa út úr og fara vægast sagt frjálslega með sannleikann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband