Innganga í ESB = minna lýðræði á Íslandi?

Ein af mörgum spurningum sem hver og einn Íslendingur verður að svara fyrir sjálfan sig áður er hann gerir upp hug sinn til inngöngu í Evrópusambandið er hvort rétt sé að draga úr lýðræði á Íslandi?

 

Fyrir stuttu síðan var ég í París á vegum EFTA nefndar Alþingis en þar hittum við nokkrir Alþingismenn kollega okkar hjá franska þinginu. Frakkar höfðu þá daginn áður tekið við formennsku í Evrópusambandinu en hvert formennskutímabil varir í 6 mánuði. Í umræðum við þingmennina var komið inn á þjóðaratkvæðagreiðsluna í Írlandi og fjallað um afstöðu Íra til Lissabonsáttmálans.  Þingmennirnir töldu að niðurstaðan á Írlandi endurspeglaði um margt hug almennings í löndum Evrópusambandsins og sýndi þá gjá sem er á milli sambandsins og almennings. Niðurstaðan sýndi líka að stofnanir þess eru fjarlægar fólkinu og það hefði litla hugmynd um hlutverk og gagnsemi þeirra.  Þessi staðreynd gæti haft mikil áhrif á þróunina til  framtíðar ef ekki tækist að snúa við blaðinu. Athyglisvert var hversu opinskáir þingmennirnir voru jafnvel þótt þetta hafi legið fyrir í langan tíma eins og kosningaþátttaka til Evrópuþingsins undirstrikar.

 

Í umræðunni um inngöngu í Evrópusamandið þurfa Íslendingar meðal annars að svara eftirtöldum spurningum. Erum við sem lýðræðiselskandi þjóð, þar sem kosningaþátttaka er alltaf með því hæsta sem þekkist í heiminum, tilbúin til að lúta valdi Evrópusambandsins þar sem við höfum í besta falli lítil áhrif. Viljum við undirgangast stofnanir sem eru okkur eins fjarlægar og raun ber vitni? Viljum við um leið og sífellt er verið að kalla á beint lýðræði marvisst koma í veg fyrir að við getum beitt því á mörgum sviðum í framtíðinni þar sem ákvarðanir um ýmis hagsmunamál eru teknar í Brussel? Með öðrum orðum viljum við minnka lýðræði á Íslandi?

 

Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki gert upp hug minn varðandi inngöngu í ESB og fagna því frekari umræðu um málið og styð heils hugar að Sjálfstæðisflokkurinn taki forystu í þeim efnum. Mér hefur því miður stundum fundist eins og að þeir sem eru fylgjandi inngöngu telji að þeir sem eru á móti henni tilheyri ekki umræðunni. Þ.e.a.s. að umræðan hafi ekki átt sér stað nema að hún snúist um að vera fylgjandi aðild. Slík nálgun gengur ekki þegar eitt mikilvægasta hagsmunamat í sögu landsins fer fram.

Legg þetta inn í umræðuna en þetta er auðvitað bara brot að þeirra heildarmynd sem við þurfum að teikna upp fyrir okkur áður en við tökum afstöðu til inngöngu í ESB.  

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Sæll Ármann Kr. Ólafsson og kærar þakkir fyrir þennan pistil.


ESB, sem einusinni var óskabarn hægrimanna og atvinnurekenda í Evrópu er fyrir löngu fallið fyrir fjandsamlegri yfirtöku sósíal-demo-krata og vinstri miðjumanna (hostile takeover) í Evrópu. Þessi yfirtaka fór farm innanfrá. Þetta verður að sjálfsögðu alltaf svona með verkefni sem byggja á kassahugsun, ófrelsi og miðstýringu sem hugsjóna. En það var þetta sterka lyf sem fór með Sovétríkin (samband ríkja sósíalista) í gröfina á sínum tíma. Þau þoldu ekki lyfin. Þessi nýja sameining Evrópu, nú með pennavaldi, mun fara sömu leið.

ESB er því núna undir sterkri krata-væðingu og mun alls ekki ná sér sem sjúklingur, því mun aðeins hraka áður en það svo fer á hausinn, en þangað stefnir það því það sem áður fyrr gerði Evrópu ríka, frelsið, er því miður að hraka all verulega í þessari allherjar krata-væðingu Evrópu. Það þarf ekki annað en að skoða hagtölur ESB til þess að sjá að þessi niðurtúr er fyrir löngu hafinn.

Ef Sjálfstæðisflokkurinn vill endilega fremja pólitískt sjálfsmorð um alla eilífð með því að ganga í ESB, og þar með afhenda sigurinn frá 1944 á silfurfati til krata-væddrar Evrópu, þá segi ég bara gjörið svo vel! Skyldi þetta hinsvegar ekki vera alveg augljóst öllum Sjálfstæðimönnum þá held ég að sumir þeirra þurfi að leita að áttavitanum sínum á ný, og sem kanski aðeins er dottin ofaní Café Latte bollann, eða jafnvel kaupa sér nýjan áttavita. Eða lesa hagtíðindi.

ESB hefur og verður aldrei óskabarn fólksins. Aldrei. Eina raunverulega óskabarn fólksins í Evrópu í okkar samtíð, var fall Múrsins 1989. Það var raunverulegt óskabarn sem kom að neðan. Ég vil minna á að Adolf Hitler var kosinn af þjóð sinni. Með þessu er ég ekki að gefa neitt annað í skyn en að atkvæði eru atkvæði sama hvernig þau eru fengin.

Almenningur hefur engan áhuga á ESB verkefninu. Engan! Enda afhverju ætti hann að hafa það? ESB er alltaf að verða fátækara og fátækara miðað við Bandaríkin og miðað við Ísland. Skattar í ESB eru núna komnir í 40% af landsframleiðslu ESB. Atvinnuleysi í ESB er núna í sögulegur lágmarki en sem samt er 7,2%! og fer núna hækkandi aftur, og atvinnuleysi ungmenna undir 25 ára aldri er 15%. Í sumum löndum er það allt að 30%. Meðalaldur ESB búa fer hratt hækkandi sökum þess að þeir nenna ekki að eingast börn lengur, svo ekki hefur ESB beinlínis hjálpað sjálfri sér til að eingast góða framtíð. Elliheimilið ESB mun ekki verða vettvangur nýsköpunar í framtíðinni né segulstál fyrir fjármagn sem svo fjármagnar nýsköpun.

Lissabon 2000 markmið ESB, sem átti að gera ESB að ríkasta og samkeppnishæfasta hagkerfi heimsin árið 2010 féll um sjálft sig strax árið 2001. Staða þess núna er þessi. Það eru því aðeins tvö ár þangað til við verðum rík hérna í ESB:

Árangur Lissabon 2000 markiða ESB er núna þessi:

Þjóðartekjur á mann í ESB 2004 voru 18 árum á eftir tekjum í BNA

Þjóðartekjur á mann í ESB 2006 voru 21 árum á eftir tekjum í BNA

Þjóðartekjur á mann í ESB 2007 voru 22 árum á eftir tekjum í BNA


Framleiðni í ESB 2004 var 14 árum á eftir framleiðni BNA

Framleiðni í ESB 2006 var 17 árum á eftir framleiðni BNA

Framleiðni í ESB 2007 var 19 árum á eftir framleiðni BNA


Rannsóknir og þróun í ESB 2004 var 23 árum á eftir BNA

Rannsóknir og þróun í ESB 2006 var 28 árum á eftir BNA

Rannsóknir og þróun í ESB 2007 var 30 árum á eftir BNA


Atvinnuþáttaka í ESB er núna 11 til 28 árum á eftir BNA


Ef menn vilja ganga í klúbbinn þá væri það í hæsta máta skrýtið því það hefur aldrei gerst áður að svo rík þjóð sem Íslendingar nú eru orðnir - þökk sé því frelsi sem vannst árið 1944 - hafi gengið í ESB. Flest þau lönd sem hafa gengið í ESB á mörgum undaförnum árum hafa verið fátæk og verið jafna sig eftir gjöreyðingu kommúnisma, gjaldþroti velferðarkerfa eða undan skugga óþægilegs risa í austri.

Ísland er ríkt land í dag af því að það er frjálst, og af því að Íslendingar kunna að nota vöðva frelsisins sjálfum sér til framdráttar. Vöðvar frelsisins munu alltaf visna í faðmi ESB sökum þeirrar einföldu ástæði að þeir verða notaðir í æ minna og minna mæli hér í ESB. Þess vegna gengur ekkert með Lissabon 2000 markmið ESB. Það gengur aðeins afturábak.

Frelsið er besta myntin, og þess fyrir utan þá er ESB ekki gjaldmiðill og Ísland er ekki króna. Ekki selja þetta dýrmæta frelsi fyrir tíkall því það verður ekki hægt að fá það aftur.

Bestu kveðjur

úr himnaríki ESB

Gunnar Rögnvaldsson, 10.7.2008 kl. 14:33

2 Smámynd: Atli Hermannsson.

"Viljum við um leið og sífellt er verið að kalla á beint lýðræði marvisst koma í veg fyrir að við getum beitt því á mörgum sviðum í framtíðinni þar sem ákvarðanir um ýmis hagsmunamál eru teknar í Brussel?"

Sæll Ármann. Ég hef nákvæmlega engar áhyggjur af fullveldi þjóðarinnar eða að hagsmunum hennar verði verr borgið eftir inngöngu í ESB, þó einhverjar viðbótar-ákvarðanir verði teknar í Brussel umfram það sem nú er. Frekjan, yfirgangurinn og tillitsleysið getur varla verið meira en við íbúarnir á Kársnesinu upplifum þessa dagana. Þú ættir að þekkja það sem bæjarfulltrúi og hægri hönd Gunnars. Því held ég að það sé fullkomlega óþarfi að hafa áhyggjur af "lýðræðisást" þjóðarinnar þegar Sjálfstæðismenn í Kópavogi virðast ekki skilja orðið íbúalýðræði og hafa að engu tillögur og ábendingar samtakanna Betri byggð á Kársnesi eins og komið hefur fram í fjölmiðlum síðustu daga.     

Atli Hermannsson., 10.7.2008 kl. 18:55

3 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Þarna sérðu kæri Ármann. Atli hefur engar áhyggjur af lýðræði Íslands í ESB. Því Evrópu-sambandi sem "nær norður frá Lapplandi yfir 27 lönd suður til Gíbraltar og austur í Svartahaf þar sem Tyrkir hanga á hurðarhúninum. Innan þess eru nær 500 milljónir manna sem nota nokkrar myntir og tala að minnsta kosti tuttugu tungumál". Það er ná-lægðin sem mun náttúrlega redda þessu.

En ef við skoðum þær "byltingarkenndu framfarir" sem hafa átt sér stað í "sósíal"-Evrópu undanfarin 100 ár þá eru þær þessar:

1) Rússneska byltingin: hún koma svífani OFANfrá og yfir haus þegnana. Og hún var sósíal

2) Nazi-Þýskaland: allir vita hvernig það fór. Það kom einnig að OFAN. Þetta var einnig sósíal

3) Gjaldþrot sænska velferðarkerfisins: einnig sósíal. Kom einnig að OFAN

4) ESB steig svo niður af himnum með penna og áætlanir, sem í byrjun voru ágætar en eru núna orðnar sósíal. ESB kom einnig að OFAN

5) Fall kommúnismans og Múrsins. Þetta er eina byltingin sem kom frá fólkinu sjálfu. Hún kom meðal annars með mikilli hjálp Bandaríkjamanna og með engri hjálp frá ESB. Þessi bylting koma frá fólkinu sjálfu og ekki frá ESB. Bandaríkjamenn "redduðu" einnig ESB-Evrópu á berum rassinum á Balkanskaga. Það eru einungis nokkur ár síðan.

Sem sagt: allt kom að OFAN og er sósíal - nema aðeins eitt: og það kom frá fólkinu og það var ekki sósíal.

En Atli er samt að blogga beint við einn þingmann Alþingis Íslenska Lýðveldisins, núna! Næst mun hann kanski blogga við Barosso eða einhverja aðra fyrirætu í ESB og senda honum bænaskjal um epli til barna í leikskólum á Íslandi

Bestu kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 10.7.2008 kl. 19:47

4 Smámynd: Bumba

Minna lýðræði á Íslandi???????????????????????  Eins og það sé eitthvað?????  Með beztu kveðju.

Bumba, 10.7.2008 kl. 21:50

5 Smámynd: Sigurður Þórðarson

Góðar pælingar og áhugaverðar athugasemdir hjá Gunnari.

Ég er uggandi um framtíðna báðar fjölmiðlasamsteypurnar berjast fyrir inngöngu í EB, en Styrmir var "síðasti Móíkaninn". Hér eftir munu fréttaskýringar og ritstjórnarpistlar boða EB aðild einum rómi.  

Hvað með sjávarútveginn?  Vilja menn eiga hann undir Bretum, sem sendu margsinnis og á löngu árabili herskip og dráttarbáta gagngert til að laska öll varðskipin?  Það var mikil mildi að ekki fórst nema einn maður í beinum átökum síðustu tveggja þorskastríða. 

Og hvernig er með samfylkingarkonurnar sem nú hóta að slíta stjórnarsamstarfinu út af kenískum manni, sem ákvað að styðja sama flokk og núverandi forsætisráðherra í Kenía og er því skilgreindur pólitískur flóttamaður því hugsanlega gætu hans mann tapað í næstu kosningum eftir 3 ár?  Sumar velja Birni Bjarnasyni verstu orð og maður skyldi ætla að þær væru glaðar yfir að fjallað verði um mál mannsins í hinu fyrirheitna Evrópusambandi. 

Sigurður Þórðarson, 10.7.2008 kl. 23:24

6 Smámynd: Sigurður Þorsteinsson

Sæll Ármann góðar hugleiðingar. Hins vegar er ég ekki eins ánægður með ástandið hér heima eins og mér finnst þú vera. Það vantar mikið upp  á lýðræðislega vinnu hjá okkur. Heima í sveitarfélögunum, í félögum, í samtökum, í fjölmiðlunum (sjá ritstjóri Morgunblaðsins hefur ekki kjark til þess að skrifa undir nafni). í stjórnkerfinu, á Alþingi,og jafnvel í ríkisstjórninni. Við höfum verk að vinna. Það eru kostir og gallar við inngöngu í Evrópubandalagið. Áður en við tökum ákvörðun um það þurfum við að taka til í efnahagsmálum okkar og í lýðræðislegri vinnu!

Sigurður Þorsteinsson, 22.7.2008 kl. 22:35

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband