Er innganga í Evrópusambandið á næsta leiti?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hrint af stað viðamikilli stefnumótunarvinnu sem snýr að því að ákveða hvort nú sé rétt fyrir Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Afstaða flokksins mun liggja fyrir á næsta landsfundi flokksins sem haldinn verður 29. janúar n.k.

Ný staða í þjóðmálunum kallar á endurmat ýmissa grundvallaratriða í þjóðfélagsskipuninni og nýtt hagsmunamat fyrir land og þjóð. Sú efnahagslægð, eða kreppa, sem heimsbyggðin stendur nú frammi fyrir er mörgum þjóðum dýrkeypt þótt vonandi lendi engin þeirra í eins umfangsmiklum áföllum og við höfum gert. Hvað sem hverjum kann að finnast um aðild að Evrópusambandinu má ljóst vera að krónan hefur sett okkur upp að vegg. Það hefur sýnt sig svo um munar að hún er of veikur gjaldmiðill fyrir það alþjóðasamfélag sem við viljum vera hluti af.

Kosið um niðurstöðu aðildarviðræðna

Ein af þeim stóru ákvörðunum sem þarf að taka, ef niðurstaðan verður sú að rétt sé að ganga í Evrópusambandið, er hvaða aðferðarfræði verður notuð til að fá fram vilja þjóðarinnar. Mikilvægt er að sátt sé um ferlið meðal hennar svo ekki þurfi að eyða kröftum í að takast á um þann þáttinn. Sumir hafa komið fram með þá hugmynd að rétt sé að byrja á því að kjósa um það hvort við eigum að sækja um inngöngu. Þessari aðferð fylgir sá galli að ekki er ljóst hvað er í pakkanum og því kallar hún á aðrar kosningar um raunverulega niðurstöðu aðildarviðræðna. Hér er um óþarfa millileik að ræða þar sem í aðdraganda slíkra kosninga yrði karpað um margt það sem karpað hefur verið um til fjölda ára án þess að niðurstaða liggi fyrir.

Tími karps er liðinn

Það er búið að ræða nóg um það hvort tillit verði tekið til okkar í sjávarútvegsmálum eða ekki. Það virðist engu máli skipta hvort hátt settir embættismenn innan sambandsins komi fram og segi að sú undanþága sem við fáum verði takmörkuð og tímabundin. Alltaf skulu einhverjir koma fram og segja að þetta sé ekki rétt. Það er síðan rökstutt á alla enda og kanta. Er þá jafnan vísað til sérstöðu landsins, velvild Evrópusambandsins gagnvart landsbyggðinni, hlutfallslegs stöðugleika við úthlutun veiðiheimilda og hugsanlegar heimildir til að skilyrða fjárfestingu í sjávarútvegi á Íslandi við búsetu. Ef kosið yrði um það hvort sækja ætti um eða ekki er hætt við að mikil orka færi í að karpa um þessa hluti. Tími karps um þetta er liðinn. Nú verður að fara að vinna út frá staðreyndum og þær fást ekki fram nema með aðildarviðræðum.

Ef niðurstaða Landsfundar Sjálfstæðisflokksins verður sú að rétt sé að sækja um inngöngu í Evrópusambandið tel ég að ríkisstjórnin sé búin að fá það umboð sem henni er nauðsynlegt til þess að hefja undirbúning og fara í samningaviðræður þar sem vilji Samfylkingarinnar er skýr. Það er síðan niðurstaða aðildarviðræðna sem ber að kjósa um og þá geta aðilar innan flokka og milli flokka háð baráttu um það hvort kjósa skuli með eða á móti aðild.

Veik staða í kjölfar hruns

Eitt að því sem hlýtur að angra marga er tímapunkturinn. Í kjölfar bankahrunsins hefur staða Íslands sjaldan ef nokkru sinni verið veikari gagnvart ríkjum Evrópusambandsins. Ísland hefur fengið að finna fyrir því að þegar kemur hagsmunum stóru ríkjanna, eins og Bretlands í okkar tilviki, þá skipta þjóðréttarlegar reglur engu heldur fyrst og síðast hagsmunir viðkomandi ríkis. Bretar svínbeygðu túlkun sína á hryðjuverkalöggjöfinni til þess að komast yfir eignir Landsbankans og í raun Íslendinga. Þá hafa ýmsir virtir lögfræðingar túlkað tilskipunina um ábyrgðarsjóð banka á þann veg að ríkið beri ekki ábyrgð umfram það sem sjóðurinn á inneign fyrir. Engu að síður þvinguðu þjóðir Evrópusambandsins okkur til samkomulags við sig í stað þess að samþykkja það að látið yrði á málið reyna fyrir dómsstólum.

Þetta lítur ekki út fyrir að vera freistandi félagsskapur og því sárt ef gjaldmiðillinn þvingar okkur til umsóknar og verður jafnframt til þess að varpa skugga á heildarmyndina. Þá er hætt við að ýmis mikilvæg atriði fái ekki þá vigt sem nauðsynleg er þegar um svo mikilvæga ákvörðun er að ræða. Slíkt ber að varast enda gæti það haft slæmar afleiðingar síðar meir.

  

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ef það er ekki ákjósanlegt að taka einhliða upp annan gjaldmiðil t.d. Evruna þá liggur það í "augum úti" að innganga í ESB er óumflýjanleg.  Allar aðgerðir ríkisstjórnar á undanförnum vikum er þrepaskipt leið þangað.  Þú veist þetta vissulega betur en ég.  "Trendið" er augljóst.  Ekki skrýtið að Sjálfstæðisflokkur flýti landsfundinum.  Þið eruð komnir út í horn Ármann minn og þetta er eina færa leiðin þaðan.  Flott að þið skuluð vera að vinna að þessu skipulega.  Mér sýnast aðrir flokkar enn vera eingöngu að velta sér upp úr vandanum. 

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 20:57

2 Smámynd: Einar Björn Bjarnason

Ég vil aðeins vekja athygli á skilyrðum ERM II, ekki vegna þess eingöngu að ég vilji vera leiðinlegur, heldur vegna þess að þau skipta máli:

  • A) Verðbólga ekki meira en 1,5% hærri heldur en verðbólgan á Evrusvæðinu. B) Árlegur halli ríkisútgjalda ekki meira en 3% fjárlagaárið á undan. C) Skuldir ríkisins ekki hærri en 60% af þjóðarframleiðslu fjárlagaárið á undan. D) Land sem í hlut á, skal hafa verið meðlimur í gjaldmiðlasamstarfi Evrópusambandsins (ERMII) í 2 ár a.m.k. og gengið skal ekki hafa fallið yfir það tímabil. E) Meðalvaxtastig skal ekki vera meira en 2% hærra heldur á Evrusvæðinu.
  • Augljóslega, í ljósi skulda ríkissjóðs nú áætlaðar að lágmarki um 1,5 þjóðarframleiðsla og það miðast við það mat að við eigum raunverulega miklar upphæðir inni á eignasafni þrotabúa bankanna, verðbólga sem nálgast 18%, vexti sem standa nú í 18% en verða líklega hækkaðir í 20%; mun það taka umtalsvert langan tíma að uppfylla skilyrði ESB um Evruna. Að lágmarki verður að gera ráð fyrir 10 árum, einkum vegna skuldanna. Hugsanlega 15 – 20 ár. Þannig að Evra er ekki lausn á næstunni. Á móti, er hægt að taka upp Dollar, þessvegna þegar eftir næstu áramót.
  • Af öllu þessu sést, að ef menn hugsa sér að flýta sem mest efnahags bata Íslands, er Evra augljóslega ekki valkostur á næstur árum, lágmarksskilyrði ERM II kveða á um +/- 15% vikmörk, þ.e. gengissveiflur geta orðið allt að á milli 20 – 30 prósent, ef þær eiga sér stað beggja megin við viðmiðunargengið, án þess að ECB (European Central Bank) skipti sér af málum. Þannig, að það er all nokkuð orðum aukið að þegar við inngöngu í ERM II muni gengisjafnvægi nást. Það rétta er að jöfnun gengissveiflna, og nálgun Evruskilyrða, verður löng en einnig dýr barátta, því einungis með gríðarlegum kostnaði sem varið væri til að verja hana öllum sveiflum sem krefðist stórs gjaldeyrisvarasjóðs, sem ausa þyrfti fé í reglulega, væri smám saman hægt að temja sveiflur krónunnar niður, Augljóslega, sé upptaka Dollars, miklu mun skjótvirkari aðferð, en síðast en ekki síst; miklu, miklu mun ódýrari. Það er enginn vafi á að það sé fær leið að taka upp Dollar. Jákvæð áhrif þess að fá sterka alþjóðlega mynnt geti fengist þegar frá næstu áramótum. Þetta sé einfaldlega þjóðþrifamál sem allir ættu að geta tekið undir.

Mín niðurstaða er, tökum upp Dollar.

Einar Björn Bjarnason

Einar Björn Bjarnason, 3.12.2008 kl. 00:50

3 Smámynd: Atli Hermannsson.

Sæll Ármann. Umsókn um aðildarviðræður er vonandi á næsta leiti. Og því er ekki seinna vænna en að einhenda sér í að skilgreina markmiðin. Það ætti að henta þér ágætlega að skilgreina þá þætti í sjávarútvegstefnu sambandsins sem við getum illa sætt okkur við - og finna flöt sem báðir aðilar gætu sæst á. Ég hef töluvert verið að velta þessum þætti fyrir mér og þér að segja gengur bölvanlega að finna þau atriði sem við ættum ekki að geta aðalagað okkar að.

Fyrir mína parta er allt of mikið gert með þann þátt að endanlega ákvörðun um heildarafla verði hjá ráðherraráðinu. Í praxís er þetta spurning um minniháttar verkskipulag sem sára litlu skiptir fyrir okkur þegar upp er staðið. Það má segja að þetta sé fyrst og fremst andlegs eðlis. 

Hér á blogginu ber hins vegar allt að sama brunni, því margir eru búnir að skipa sér í sveit... einskonar lúðrasveit þar sem blásið er á allt það jákvæða og því er upplýst umræða er af þeim sökum einhvers staðar úti í vindinum. Það er  t.d. nákvæmlega sama hvað maður setur inn af upplýsingum hjá sumum þeirra sem teljast til Heimsýnarmanna -  að þeir vilja ekki vita af neinu sem breitt gæti skoðunum þeirra...og þá láta þeir sig hafa það nokkrum dögum seinna að endurtaka kannski sömu þvæluna eins og ekkert hafi í skorist.... alveg merkilegur fjandi

Atli Hermannsson., 3.12.2008 kl. 00:54

4 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þó fyrr hefði verið - svona 10 árum fyrr. 

Þó allt annað hefði farið á sama veg værum við í það minnsta ekki að núna taka risalán hjá IMF og sæta þeirra skilmálum. Við þyrftum þess ekki ef hér væri engin króna og þá hefði gjaldeyrissjóður hér ekkert erindi og við gætum snúið okkur beint að uppbyggingunni og nýtt velvilja og lánamöguleika í hana í stað þess að fullnýta þá bara til bjarga krónunni.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.12.2008 kl. 03:47

5 identicon

Ef Sjálfstæðisflokkurinn kýs að ganga í ESB, hvert er þá hlutverk Sjálfstæðisflokksins eftir þann gjörning?

Palli (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 08:56

6 identicon

Hvað höfum við að gera í félagsskap ríkja sem svínbeygðu okkur?  Við verum þvinguð til að taka á okkur manndrápsklyfjar sem eru hlutfallslega margfalt meiri en Versalasamningurinn sem Þjóðverjar þurfta að lúta eftir Fyrri heimstyrjöldina, allt vegna nokkurra útrásarvíkinga sem stálu fullt af peningum og lifa nú í vellystingum erlendis og hlægja af okkur hérna á kalda klakanum.  Þjófnaður borgar sig augljóslega!

Nei, ESB eru engin góðgerðarsamtök.  Þeir munu eflaust fara fram á að við "skuldajöfnum" skuldir útrásarvíkinganna og IceSave-netsvindlið með því að ESB fái óskipt yfirráð fiskimiðunum hér við land.

Og á hvaða gengi eigum við að láta krónuna upp í Evruna? - á núverandi gengi 187?  Það myndi þýða varanlega eignaupptöku og kjararýrnun fyrir okkur.  Við yrðum m.ö.o. undirmálsþjóð og láglaunaríki innan ESB.  Þetta eru staðreyndir sem Samfylkingin og ESB-sinnar reyna með öllu móti að leyna fyrir fólki og reyna með öllu móti að dissa alla umræðu um þetta mikil atriði.

Ég treysti núverandi stjórnvöldum með Samfylkingargrátkórnum í broddi fylkingar til að klúðra þessum málum eins og öðrum, og selja okkur ódýrt inn í ESB þjóðinni og atvinnuvegunum til ævarandi vansældar.

Við eigum ekki að flana inn í ESB núna í einhverri taugaveiklun og múgsefjun.  Samningstaða okkar gagnvart ESB er afleit.  Það eru einungis nokkrir aðilar sem myndu hafa hag af því að fara inn í ESB og það eru ESB-kratar sem hugsa sé glatt til glóðarinnar sem einhverjir ESB-burókratar niður í Brussel og verða þar á fínum sendimannalaunum, skattfrjálst!

Eiríkur H. Þorsteinsson (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 09:07

7 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Fyrst var það:

1) bankaheimsveldið

2) svo útrásarheimsveldið

3) svo öryggisráðsheimsveldið

og núna er það kanski Evópuheimsveldið og nýir Versalasamningar (hér á þýsku í Brussel) fyrir Ísland við ESB sem jú er nýtt heimsveldi í smíðum eins og Barroso orðar það. Hvernig væri að Íslendingar gengju í sjálfa sig aftur, bara í smá tíma í smá afruglun?

Ef Sjálfstæðisflokkurinn ætlar að fara út í afsal á fullveldi, sjálfræði og sjálfstæði Ísland fyrir einn tómann tíkall með gati, þá verður Sjálfstæðisflokkurinn að skipta um nafn. Sjálfur myndi ég stinga uppá nýja nafninu Nýi Uppgjafarflokkurinn.

Á meðan þarf krónan okkar svo alltaf að taka alla þessa stórveldisdrauma og standa í eilífri afruglun á gjörðum ykkar. Á gjaldmiðill lýðveldis okkar ekki betra skilið en þetta?

Þetta var orðsending frá mér úr Evrópusambandinu. Fyrri skilaboð úr ESB voru þessi

Skýr skilaboð frá Evrópusambandinu - ICESAVE sett á herðar íslenskra skattgreiðenda

 

Ingibjorg_Solrun_Gisladottir

Alveg eins og Ingibjörg Sólrún sagði: Skilaboðin frá Evrópusambandinu voru skýr. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir er hér fyrirsæta, lufsa og dyramotta Evrópusambandsins á Íslandi. Auðvitað fara menn eftir skilaboðum að hand. . afsakið . . skilaboðum frá Brussel. Það er jú þar sem allt í heiminum "er bara að gera sig" 

Kæru Íslendingar. Langar ykkur í fleiri skýr skilaboð frá Evrópusambandinu? Fyrst Icesave, og næst fiskimiðin og afkoma ykkar? Allt á einu bretti fyrir tómann tíkall með gati

Evrópusambandið er ekki gjaldmiðill. Það er nýtt ríki í smíðum 

Gunnar Rögnvaldsson, 3.12.2008 kl. 09:36

8 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Eiríkur segir:

„Nei, ESB eru engin góðgerðarsamtök“

Eiríkur, þrátt fyrir allt er ESB búið til og byggt upp á hugsjónum varanlegan frið í Evrópu.

Friður í Evrópu er grunnhugsjón þess og var grundvallað eftir fyrri heimsstyrjöldina.

Það er enginn einstaklingur eða lítill hópur einstaklinga í ESB sem hefur þar mikil formleg völd. Þeir sem hafa ákvörðunarvald í ráðherráðinu og leiðtogaráðinu eru ráðherrar ríkistjórna landanna sem koma og fara eins og ríkisstjórnir -eða örar.

Allar ákvarðanir um reglusetningu og stefnumótun fer langt samráðsferli þar sem jafnvel ASÍ á Íslandi á aðgang að því í gegnum evrópsk samtök verklýðsfélaga og þekkir því vel hið mikla samráðsferli sem þar er. 

Tillögur verða til hjá framkvæmdastjórninni sem ákveður ekkert og nú einnig hjá þinginu. Síðan fara mál langan veg þar og ef þarf annan hring þar til lokaákvörðun er tekin í ráðherraráðinu sem öfugt við framkvæmdastjórnina hefur ekki tillögurétt heldur aðeins ákvörðunartökuvald um tillögur sem farið hafa þetta mikla samráðsferli.

ESB er frontur heimsins um frelsi, frið, umhverfisvernd, neytendavernd og félagslegt réttlæti. Þess vegna hata öfgahægri menn það, þeir þeirra sem eru í raun fasistar en ekki íhaldsmenn. Þeir prísa líka í hástert USA og hernaðarumsvif þess og vilja taka upp dollar - allt frekar en evru og ESB.

Mér er hinsvegar algerlega hulið af hverju VG berst ekki fyrir ESB-aðild.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.12.2008 kl. 18:58

9 identicon

Hversu mikil er ábyrgð eða óábyrgð sjálfstæðisflokksins að vera ekki búinn að taka þetta mál föstum tökum fyrr Ármann?

Karl (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 20:22

10 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

ESB er frontur heimsins um frelsi, frið, umhverfisvernd, neytendavernd og félagslegt réttlæti


Vaú, Helgi, ég hef undralega ekki orðið var við þetta hérna í þessi 24 ár sem ég hef búið í ESB . Samkvæmt skýrslu sameinuðu þjóðanna var best að búa á Íslandi árið 2007.

En svona lýsingar sem þú kemur með gat maður einusinni lesið í gamla Þjóðviljanum - en þá voru þær um Sovétríkin og skrifaðar af þeim sem þekktu ekki til raunverulegra staðhátta í Sovétríkjunum. En því miður Helgi. Show me the money! Hvar eru peningarnir? Ég sé ekkert félagslegt réttlæti í 30 ára massífu atvinnuleysi og fátækt stórs hluta þegna ESB. 17% atvinnuleysi í Berlín. 35% atvinnuleysi í nýlendum ESB. 12% atvinnuleysi á Spáni. 8-10% atvinnuleysi í öllu ESB í samfleytt 25 ár. Ekki undarlegt að ESB sé alltaf að dragast meira og meira afturúr efnahag Íslands og Bandaríkjanna. Ekkert land hefur efni á að sólunda heilum kynslóðum fólki sínu í ekki neitt.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 3.12.2008 kl. 20:48

11 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þú skrökvar grimmt Gunnar eins og venjulega. Ein aðferð þín er val á tölum, t.d. er 2% atvinnuleysi í Danmörku þar sem þú elur manninn en þú nefnir það ekki.

ESB stýrir ekki atvinnustigu landa eða svæða. ESB er 27 ríki með mjög mismiklu atvinnuleysi t.d. er það eins og fyrr segir nú um 2% í Danmörku en er hvað mest á Spáni þar sem þó er talið að fjölmargir vinni svarta vinnu í ferðamannaiðnaðinum og því séu tölur þar ekki marktækar.

- ESB fer þó ekki með nema um 1% af landsframleiðslu og skilar beint 8/10 af því  til baka í niðurgreiðslur og styrki. Hið opinbera í ríkjunum fer hinsvegar 40-50% landsframleiðslu.

USA fann upp snilldar aðferð til að fækka atvinnulausum á tíma Bush eldri Þeir einfaldlega ákváðu að eftir fáa mánuði á atvinnuleysisskrá teldist einstaklingur ekki lengur til vinnuafls og hyrfi því úr dæminu þó svo hann væri enn í atvinnuleit.  - Tölur í USA eru því bara tölur um nýskráningar.

Yfirburða staða ESB um félagslegt réttlæti yfir t.d. USA kemur hvað skýrast fram í fjölda vopnaðra rána, morða og ofbeldis. Þar sem er félagslegt óréttlæti er svo mikið sem í USA þarf stór hluti þjóðarinnar að sjá sér farborða með byssuhlaupinu.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.12.2008 kl. 22:56

12 Smámynd: Helgi Jóhann Hauksson

Þetta small nú inn fyrir en ég ætlaði

Það sem ég er þó að prísa ESB fyrir er ekki ástandið í löndunum sjálfum, því það er æði mismunandi og leyfir fráleitlega alhæfingar hvorki með eða móti ESB, heldur er ég að tala um viðleitni og baráttu ESB sem stofnunar fyrir reglum, stjórnarháttum og stjórnsýslu bæði í Evrópu og utan Evrópu um þessi mál. Ef ekki væri fyrir ESB væri ekki „Kyoto“ eða „Ríó“ og miklu meiri líkur væru fyrir því að USA hefði þegar ráðist á Íran svo dæmi sé tekið, -og félagsmálasamþykktir ESB og tengdar yfirlýsingar og tilskipanir eru svo metnaðarfullar að íslenskir atvinnurekendur sjá ofsjónum yfir þeim. Reglum ESB um samkeppni og neytendamál færðu okkur Neytendastofu og Samkeppnisstofnun vegna EES svo fátt sé nefnt.

Í heiminum er ESB einfaldlega framsæknasta aflið sem hefur völd og mátt til að breyta og hafa áhrif á þessum sviðum: frelsi, frið, umhverfisvernd, neytendavernd og félagslegu réttlæti. - Það er engin stofnun eða ríki með marktækan mátt, völd og áhrif sem slær ESB við um þess efni - og hefur vilja til.

Ég veit hisnvegar eð sumir ultra hægri menn vilja ekki sjá neitt af þessu.

Helgi Jóhann Hauksson, 3.12.2008 kl. 23:33

13 Smámynd: Gunnar Rögnvaldsson

Því miður Helgi. Tölurnar eru frá sjálfu ESB (eurostat) svo ef þér líkar ekki við þær þá er bara að kvarta við Eurostat.

Það er rétt að atvinnuleysi í Danmörku hefur lækkað mikið síðustu 3 ár. En Helgi, árið 2006 gerðist það að atvinnuleysi í Danmörku fór í fyrsta skipti niður fyrir 5% siðan 1976. En allir sem þekkja efnahag Danmerkur vita að opinbert atvinnuleysi er miklu lægra en raunverulegt atvinnuleysi því hið háa atvinnuleysi undanfarna áratugi hafði þau áhrif að mikið af launþegum var ýtt út af vinnumarkaðinum og yfir í geymslukassa hins opinbera þar sem þetta fólk svo rotnaði upp. Þetta fólk telur ekki með í tölunum. En það telur með þegar atvinnuþáttaka er mæld. Það er ekki tilviljun að danskir launþegar greiða hæsta tekjuskatt í heimi, í 3% atvinnuleysi!

En eins og þú kanski veist þá hefur full atvinna yfirleitt þau áhrif að hægt er að lækka skatta. En það er bara ekki hægt þar sem svo margir sitja í aflvana rútunni. Samfélagsvélin var eyðilögð í áratuga háu atvinnuleysi. Vinnuaflið var eyðilagt.

Ef eitthvað er þá er það að raunverulegt atvinnuleysi í ESB stórlega vanmetið. Það er ástæða fyrir því að þjóðartekjur á mann í ESB dragast alltaf meira og meira aftur úr þjóðartekjum á mann á Íslandi og t.d. í Bandaríkjunum. Massíft massa atvinnuleysi og félagsleg eymd í áratugi kostar þjóðfélögin mjög mikið - og stundum mun það kosta heilu velferðarríkin lífið.

Kveðjur

Gunnar Rögnvaldsson, 4.12.2008 kl. 10:56

14 Smámynd: Benedikt Sigurðarson

Áfram Ármann!  Tími karpsins er liðinn - við verðum að vinna saman að því að koma okkur inn í framtíðarsamband við það efnahagskerfi Evrópu sem er okkur langsamlega mikilvægast.  Tími hins sér-íslenska efahagslega rússíbana verður að taka enda.   Sameinuð náum við betri samningum við ESB og sameinuð náum við að nýta okkur samleiðina með Danmörku, Svíþjóð og Finnlandi og nálgun við þær þjóðir sem vilja vinna með okkur á jafnræðisforsendum.  Við ættum ekki að vanmeta þann vinskap sem við eigum í Baltnesku ríkjunum og Póllandi og fleiri ríkjum Mið og A-Evrópu.

Benedikt Sigurðarson, 8.12.2008 kl. 20:02

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband