Fleiri kostir í félagaslega íbúðakerfinu

Í því efnahagsumhverfi sem nú er til staðar er mjög mikilvægt að auka eins lítið og kostur er við skuldir ríkissjóðs og skuldir sveitarfélaganna. Af þeim sökum hef ég ásamt fleiri þingmönnum lagt fram frumvarp á Alþingi þess efnis að ríki og sveitarfélögum sé heimilt að leigja húsnæði til endurleigu í viðkomandi sveitarfélagi í stað þess að festa kaup á því. 

Ljóst er að á næstunni munu sífellt fleiri fjölskyldur uppfylla kröfur sem sveitarfélögin setja um félagslegt íbúðarhúsnæði. Það fyrirkomulag sem nú er við lýði byggist upp á því sveitarfélögin kaupa íbúðir og  leigja þær síðan út í samræmi við ákveðnar reglur og viðmið. Framlag ríkissjóðs liggur í því greiða niður vexti á lánum sem sveitarfélögin taka til íbúðarkaupa í þeim tilgangi að leigja íbúðirnar aftur til sinna umbjóðenda. Í Fjárlögum ársins 2009 nemur þessi upphæð 1 .100 m.kr.  

Sveitarfélögin þurfa hins vegar að reiða 10% kaupverðsins fram sjálf við hver íbúðakaup. Þetta eru gífurlega háar fjárhæðir á hverju ári. Sé dæmi tekið af sveitarfélagi eins og Kópavogi myndi bærinn þurfa að greiða með hverri íbúð í kringum 2 m.kr. auk þess að taka yfir 90% lánið. Því mætti gera ráð fyrir að heildarskuldbinding bæjarsjóðs vegna íbúðarkaupanna yrði í kringum 600 m.kr. Í ljósi þess að Kópavogur telur um 10% íbúa landsins má gera ráð fyrir að heildarskuldbinding allra sveitarfélaga hækki um 6 milljarða króna vegna félagslegra íbúðarkaupa á ári, en auðvitað kæmi inn eign á móti. 

Frumvarpið kemur í veg fyrir mikla skuldsetningu hins opinbera, skilar skjótri lausn fyrir þá sem bíða eftir félagslegu íbúðarhúsnæði, minnkar skuldsetningu ríkis og sveitarfélaga og úrræðin verða fjölbreyttari og fleiri vegna hagkvæmninnar. Þá er mikilvægt í þessu sambandi að nefna að þessi leið á ekki að ýta undir hækkun leiguverðs þar sem framboð á leiguhúsnæði er mikið um þessar mundir. Hins vegar gæti þetta bætt rekstrargrundvöll þeirra sem stunda útleigu á húsnæði, sem kemur sér einnig vel fyrir ríkissjóð þar sem nánast öll lán leigufélaga eru hjá  ríkisbönkunum eða íbúðalánasjóði. 

Þetta frumvarp hefur því marga kosti eins og að framan greinir. Hér er um tilvalda leið að ræða sem fjölgar úrræðum og kemur til móts við núverandi ástand.  

http://www.althingi.is/altext/136/s/0568.html

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: K Zeta

Legg til að þú Ármann, sem virkur sveitastjórnarmaður og aðili að löggjafarþingi þjóðarinnar, komir á fót skóla fyrir sveitarstjórnarmenn þar sem þeim er kennt á forritið Excel og tvær þrjár síður í hagfræði 101.  Þú gætir líklega setið þessa bekki svona til að skerpa á sjálfum þér eftir áratuga setu með síðustu ráðamönnum þjóðarinnar.  Þannig gætu sveitastjórnarmenn reiknað út hvað þarf að byggja miðað við hagfræðilegar þarfir og svo sett uppí Excel og lagt saman hvað er verið að byggja í kringum þá og "Sum Above" og fundið út hvað er raunhæft og hvað ekki.  Ég skal meira að segja kenna þér prívat Excel Árnann, ef þú kærir þig um að þiggja það.

K Zeta, 24.2.2009 kl. 11:27

2 identicon

Yndislegt að þú komir fram með tillögu um eignaupptöku og klikkir út með því að  fólk sem lendir í eignaupptöku ríkisins uppfylli skilyrði um að leigja hjá félagsmálayfirvöldum.  Spurðu sjálfan þig um þína ábyrgð sem alþingismann þessarar þjóðar!  Stattu áfram vörð um fjármagnseigendur og haltu áfram að réttlæta það að fátæka fólkið eigi að borga fyrir sukkið og jafnvel lenda í eignaupptöku!  Þú getur réttlætt fyrir fólkinu sem er að missa húsin sín að fyrrverandi ríkisstjórn hafi nú fært fjármagnseigendum 200 milljarða í Glitnissjóði en hún hafi ekki geta hjálpað fólkinu í landinu! 

Svei þér!

Þóra Elísabet (IP-tala skráð) 24.2.2009 kl. 21:38

3 Smámynd: Ármann Kr. Ólafsson

Þessi tillaga snýr að því að stytta biðlista sem hafa alltaf verið til staðar. Sumt fólk þarf á þessum úrræðum að halda og er partur af okkar öryggisneti.

Ármann Kr. Ólafsson, 24.2.2009 kl. 22:36

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband