Ný vinnubrögð við gerð fjárlaga

Sama dag og síðari umræða fjárlaga fyrir árið 2009 fór fram lagði ég fram svohljóðandi þingsályktunartillögu: Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að endurskoða vinnubrögð við gerð fjárlaga þar sem kannaðir verða kostir þess að tekin verði upp núllgrunnsfjárlög. 

Breyttir tímar kalla á ný vinnubrögð. Fjárlagagerð sem gengur út á að horfa eingöngu til þess hversu miklu hefur verið eitt í einstaka liði á undanförnum árum og bæta við þá eða lækka lítillega á milli ára er úrelt. Hefðarréttur í fjárveitingum gengur ekki við þær aðstæður sem við stöndum frammi fyrir. Hann brenglar markmið fjárlagagerðarinnar þar sem hækkun fjárveitinga frá einu ári til annars er gerður að mælikvarða á árangur.  

Fjárlagagerð byggð á núllgrunni (zero-base budgeting) er vinnuaðferð þar sem markmiðið er draga úr sjálfvirku hækkunarferli núverandi fyrirkomulags. Gildi aðferðarfræðinnar felst fyrst og fremst í því að fjárveitingarvaldið samþykkir ekki fjárveitingar án þess að ítarlegur rökstuðningur liggi að baki einstökum verkefnum. Ríkisstofnanir og ráðuneyti sem eru stærstu notendur fjár úr opinberum sjóðum eru því neydd til endurmeta og rökstyðja öll sín útgjöld frá grunni. Verkefni ríkisins eru lögð til grundvallar en ekki einstaka fjárlagaliðir.

Núllgrunnurinn ýtir undir að hugsað sé út frá hreinu borði og horft til ákveðinna verkefna í stað einstakra fjárlagaliða, stofnana eða ráðuneyta. Nálgunin er tilvalin um leið og sett eru fram markmið um fækkun stofnana. Dæmi um verkefnanálgun er að skilgreina verkefni sem gæti t.d. heitið; Húsnæðis umsýsla ríkisins en hún heyrir undir fjölda ráðuneyta og stundum undir fjölda liða í hverju ráðuneyti þrátt fyrir að til sé sérstök stofnun sem heitir Fasteignir ríkisins. Þá mætti víkka verkefnið og gæti það heitið; Fasteignir og framkvæmdir en ein ríkisstofnunin heitir einmitt Framkvæmdasýsla ríkisins. Verkefnanálgunin myndi ganga þvert á ráðuneytin, stofnanirnar og einstaka liði og ýta undir heildarsýn og stærðarhagkvæmni. Þá gæti annað verkefni heitið; Náttúra og umhverfi og næði yfir alla heildina í stað þess að vera skipt niður á Náttúrufræðistofnun, Umhverfisstofnun, Landgræðslu Ríkisins, Skórækt ríkisins. Efnahagsrannsóknir fara fram bæði í forsætis- og fjármálaráðuneytinu en það getur varla verið hagkvæmt og svona mætti lengi telja. 

Rík þörf er á róttækum aðgerðum til að bæta vinnslu og framkvæmd fjárlaga. Ríkisútgjöldin eru alltof há eftir fall bankanna.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gott hjá þér Ármann að leggja til vott af nútímavæðingu fjármálastjórnunar.  Líst vel á en heyrir strax hróp, kvart og kvein í forstjórum og forstöðumönnum ríkisstofnana.  En sjálfsagt og vonandi eru flestir tilbúnir í þetta enda miklu meira hvetjandi en hitt.  Þetta gæti líka verið fyrsta nálgun í að ferlavæða aðeins ríkisbatteríið þar sem horft er á aðföng sem sett eru inn í ferli/verkefni og afurðir úr ferlum/verkefnum.  Enda, eins og þú segir, ganga ferlar þvert á ráðuneyti og stofnanir.  Þá neyðast menn að skilgreina afurðir og rök fyrir tilgangi og nýtingu þeirra, til að geta krafist peninga fyrir útgjöldum til að greiða fyrir kostnaðinn við "gerð" afurða.  Vonandi nærðu þessu í gegn.

Einar Áskelsson (IP-tala skráð) 19.12.2008 kl. 16:24

2 identicon

Hver heldurðu að trúi þér, þú og þínir líkir eru RÚNIR ÖLLU TRAUSTI. Fáðu þér aðra vinnu. Burt með þig og þína líka.BURT MEÐ ÞESSA RÍKISSTJÓRN.Með kveðju frá lág launakonu í KÓP.

Guðrún Hlín (IP-tala skráð) 20.12.2008 kl. 00:09

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband