Er innganga í Evrópusambandið á næsta leiti?

Sjálfstæðisflokkurinn hefur hrint af stað viðamikilli stefnumótunarvinnu sem snýr að því að ákveða hvort nú sé rétt fyrir Ísland að sækja um aðild að Evrópusambandinu. Afstaða flokksins mun liggja fyrir á næsta landsfundi flokksins sem haldinn verður 29. janúar n.k.

Ný staða í þjóðmálunum kallar á endurmat ýmissa grundvallaratriða í þjóðfélagsskipuninni og nýtt hagsmunamat fyrir land og þjóð. Sú efnahagslægð, eða kreppa, sem heimsbyggðin stendur nú frammi fyrir er mörgum þjóðum dýrkeypt þótt vonandi lendi engin þeirra í eins umfangsmiklum áföllum og við höfum gert. Hvað sem hverjum kann að finnast um aðild að Evrópusambandinu má ljóst vera að krónan hefur sett okkur upp að vegg. Það hefur sýnt sig svo um munar að hún er of veikur gjaldmiðill fyrir það alþjóðasamfélag sem við viljum vera hluti af.

Kosið um niðurstöðu aðildarviðræðna

Ein af þeim stóru ákvörðunum sem þarf að taka, ef niðurstaðan verður sú að rétt sé að ganga í Evrópusambandið, er hvaða aðferðarfræði verður notuð til að fá fram vilja þjóðarinnar. Mikilvægt er að sátt sé um ferlið meðal hennar svo ekki þurfi að eyða kröftum í að takast á um þann þáttinn. Sumir hafa komið fram með þá hugmynd að rétt sé að byrja á því að kjósa um það hvort við eigum að sækja um inngöngu. Þessari aðferð fylgir sá galli að ekki er ljóst hvað er í pakkanum og því kallar hún á aðrar kosningar um raunverulega niðurstöðu aðildarviðræðna. Hér er um óþarfa millileik að ræða þar sem í aðdraganda slíkra kosninga yrði karpað um margt það sem karpað hefur verið um til fjölda ára án þess að niðurstaða liggi fyrir.

Tími karps er liðinn

Það er búið að ræða nóg um það hvort tillit verði tekið til okkar í sjávarútvegsmálum eða ekki. Það virðist engu máli skipta hvort hátt settir embættismenn innan sambandsins komi fram og segi að sú undanþága sem við fáum verði takmörkuð og tímabundin. Alltaf skulu einhverjir koma fram og segja að þetta sé ekki rétt. Það er síðan rökstutt á alla enda og kanta. Er þá jafnan vísað til sérstöðu landsins, velvild Evrópusambandsins gagnvart landsbyggðinni, hlutfallslegs stöðugleika við úthlutun veiðiheimilda og hugsanlegar heimildir til að skilyrða fjárfestingu í sjávarútvegi á Íslandi við búsetu. Ef kosið yrði um það hvort sækja ætti um eða ekki er hætt við að mikil orka færi í að karpa um þessa hluti. Tími karps um þetta er liðinn. Nú verður að fara að vinna út frá staðreyndum og þær fást ekki fram nema með aðildarviðræðum.

Ef niðurstaða Landsfundar Sjálfstæðisflokksins verður sú að rétt sé að sækja um inngöngu í Evrópusambandið tel ég að ríkisstjórnin sé búin að fá það umboð sem henni er nauðsynlegt til þess að hefja undirbúning og fara í samningaviðræður þar sem vilji Samfylkingarinnar er skýr. Það er síðan niðurstaða aðildarviðræðna sem ber að kjósa um og þá geta aðilar innan flokka og milli flokka háð baráttu um það hvort kjósa skuli með eða á móti aðild.

Veik staða í kjölfar hruns

Eitt að því sem hlýtur að angra marga er tímapunkturinn. Í kjölfar bankahrunsins hefur staða Íslands sjaldan ef nokkru sinni verið veikari gagnvart ríkjum Evrópusambandsins. Ísland hefur fengið að finna fyrir því að þegar kemur hagsmunum stóru ríkjanna, eins og Bretlands í okkar tilviki, þá skipta þjóðréttarlegar reglur engu heldur fyrst og síðast hagsmunir viðkomandi ríkis. Bretar svínbeygðu túlkun sína á hryðjuverkalöggjöfinni til þess að komast yfir eignir Landsbankans og í raun Íslendinga. Þá hafa ýmsir virtir lögfræðingar túlkað tilskipunina um ábyrgðarsjóð banka á þann veg að ríkið beri ekki ábyrgð umfram það sem sjóðurinn á inneign fyrir. Engu að síður þvinguðu þjóðir Evrópusambandsins okkur til samkomulags við sig í stað þess að samþykkja það að látið yrði á málið reyna fyrir dómsstólum.

Þetta lítur ekki út fyrir að vera freistandi félagsskapur og því sárt ef gjaldmiðillinn þvingar okkur til umsóknar og verður jafnframt til þess að varpa skugga á heildarmyndina. Þá er hætt við að ýmis mikilvæg atriði fái ekki þá vigt sem nauðsynleg er þegar um svo mikilvæga ákvörðun er að ræða. Slíkt ber að varast enda gæti það haft slæmar afleiðingar síðar meir.

  

Íslandsvafningar

Stjórnendur gömlu bankanna bera mikla ábyrgð á þeirri gífurlegu skuldsetningu sem þjóðin er í vegna svo kallaðrar krónubréfaútgáfu, sem nú veldur miklum erfiðleikum við fleytingu krónunnar. Það voru bankarnir sem höndluðu með afurðina gagnavart erlendum bönkum sem voru síðan milliliðir gagnvart sínum umbjóðendum. Í kjölfarið þurfti að koma  miklu lánsfjármagni hér heima í umferð og þess vegna voru freistandi lánapakkar settir á markað og skuldsetning heimila og fyrirtækja óx og óx. Bankarnir fengu sín umboðslaun, allir fengu lán og veislan virtist ekki geta tekið enda. 

Þetta voru okkar vafningar. Bankarnir okkar hrósuðu sér af því að hafa ekki fjárfest í fasteignavafningum í Bandaríkjunum. Þeir virtust hins vegar ekki átta sig á því að þeir voru að búa til svipað ástand með Íslandsvafningum hérna heima. Þ.e.a.s að lána langt umfram það sem þjóðin, lántakendur, gátu staðið undir. Sama og gerðist með fasteignalánin í USA.

Ég sem hélt að bankaviðskipti væru í raun með einföldustu viðskiptum sem hægt væri að stunda þar sem peningar væru lánaðir með þeirri vissu að þeir fengjust greiddir til baka með sanngjörnu álagi.

Einhversstaðar gerðist eitthvað á leiðinni þar sem aðalmálið var að koma út peningum án þess að vissa væri fyrir því að þeir fengjust greiddir til baka. Í slíku ástandi verða til bólur sem springa. Þeir sem blésu bólurnar áttu að heita okkar bestu sérfræðingar í bankaviðskiptum. Þeir geta ekki kennt öðrum um eins og Fjármálaeftirlitinu eða Seðlabankanum.

Nú er sá tími kominn að þeir þurfi að svara fyrir gjörðir sínar. Ekki aðeins almennt um hvers vegna lánum var dælt út eins og raun ber vitni, heldur líka fyrir einstaka gjörninga eins og lán til eigin nota, ráðstöfun peningamarkaðssjóða, fáránlega háa lánveitingu til einstakra aðila og margt fleira í þeim dúr.

Hvað varð um almenna skynsemi?

Es. Þessi pistill er ekki skrifaður til varnar Seðlabankanum eins og sjá má í eldri pistlum á bloggi þessu.    

 


UVG krefjist afsökunarbeiðni af formanni sínum

Ung vinstri græn skora á Pál Magnússon að biðjast afsökunar á að hafa hótað G. Pétri með lögfræðingum fyrir að fyrrum fréttamaðurinn braut trúnað við fréttastofuna og viðmælanda sinn. Óskiljanleg afstaða ungliðanna til þessa siðferðis- og trúnaðarbrests sem fréttamaðurinn sýndi.
Skildu UVG ekki hafa horft á fréttinna af formanni sínum Steingrími J. Sigfússyni þar sem hann sýndi þinginu algjöra lítilsvirðingu með framkomu sinni í garð tveggja ráðherra með ógnandi tilburðum sínum. Fyrst veittist hann að Birni Bjarnasyni þar sem hann flutti mál sitt úr ræðustól Alþingis og bjuggust ýmsir viðstaddir við að formaðurinn myndi að ráðast á hann. Hann sleppti því reyndar en snéri sér þess í stað að formanni Sjálfstæðisflokksins og danglaði í öxlina á honum. Það yrði undarlegt þinghaldið ef fleiri höguðu sér með þessum hætti. 
Hvað ætli að UVG hefðu sagt ef þessu hefði verið öfugt farið? UVG ætti að líta sér nær og álykta um afsökunarbeiðni  formanns VG í stað þess að skrifa upp á ófagmannleg vinnubrögð G. Péturs sem hefur með þessu niðurlægt starfsheitið blaðamaður. 

Jákvæðar aðgerðir ríkisstjórnarinnar

Ég get ekki hrósað mér af því að hafa verið duglegur að blogga að undanförnu en það stendur vonandi til bóta.

Ég vil byrja á því að lýsa yfir ánægju minni með aðgerðarplan ríkisstjórnarinnar sem tekur fyrst og fremst mið af því að létta undir með þeim heimilum sem eru að lenda í vanda vegna hækkandi greiðslubyrðar. Ýmsar af aðgerðunum eru í takt við það sem sérstakur átakshópur, sem skipaður var af félagsmálaráðherra í kjölfar falls bankanna, lagði til. En auk mín sátu í honum þingmennirnir Ólöf Nordal, Steinunn Valdís Óskarsdóttir og Guðbjartur Hannesson ásamt Hrannari B. Arnarssyni aðstoðarmanni ráðherra..

Án þess að ég vilji gera séstaklega upp á milli aðgerðanna gleður mig að sjá að tekin verður upp sérstök greiðslujöfnunarvísitala. Í fyrirspurn minni til félagsmálaráðherra þann 14. október velti ég því upp hvort rétt væri að taka upp einhverskonar hamfaravísitölu þar sem það yrði skoðað hvort hægt  væri að gera sérstaka undanþágu eða nálgast vísitöluútreikningana með öðrum hætti meðan þessi holskefla eða hamfarir ganga yfir. Í kjölfarið skipaði hún starfshóp sérfræðinga til að fara yfir málið og komu þeir fram með þessa greiðslujöfnunarvísitölu. Nú er það mál í höfn og er það vel.

Annað mál sem hefur verið mér hugleikið og varðar færsluna hér á undan er einnig komið í gegn en það varðar útflutning á notuðum bílum. Hugmynd sem ég fékk (og ýmsir höfðu eflaust hugleitt) þegar mér var sagt að verið væri að selja úr landi dráttarvélar og aðrar vinnuvélar í stórum stíl. Ég fékk stuðning þingflokksins og fjármálaráðherra til að vinna að framgöngu þessa máls og nú er það að komast í höfn. Útflutningur notaðra bifreiða er mál sem á sér margar hliðar eins og lesa má um hér að neðan. Það verður þó að hafa þann fyrirvara á að ástandið í öðrum löndum hefur verið að versna hratt líka sem hefur sín áhrif á bílamarkaðinn.

Næsta skref er að koma með aðgerðarpakka fyrir fyrirtækin sem er ekki síður mikilvægt. Það er ljósara en að frá þurfi að segja að afkoma heimilanna byggir á afkomu fyrirtækjanna. Atvinnulífið verður að sjá ljós í öllu því svartnætti sem nú hangir yfir okkur.


Úflutningur bíla er ekki síst fjölskyldumál

Við þær aðstæður sem við Íslendingar stöndum frammi fyrir um þessar mundir er mikilvægt að stjórnvöld bregðist hratt við með það að markmiði að einstaklingar og fyrirtæki nái vopnum sínum sem fyrst á ný. Í þessu samhengi er mikilvægt að grípa til aðgerða sem miða af því að bjarga sem mestum verðmætum og auðvelda öllum eins og mögulegt er að standa við skuldbindingar sínar.

Eitt þeirra mála sem nú er unnið að, og kemur vonandi fljót til meðferðar hjá Alþingi,  eru breytingar á lögum og reglum hins opinbera sem snúa að útflutningi notaðra bifreiða úr landi. Breytingin felst í því að við útflutning eru virðisaukaskattur og innflutningsgjöld endurgreidd að hluta í þeim tilgangi að örva sölu á erlenda markaði.

 Undanfarin ár hefur innflutningur nýrra og notaðra bíla verið gífurlega mikill og er nú svo komið að það eru fleiri bílar en ökuskírteini í landinu. Við blasa breiður af bílum bæði nýjum og notuðum sem bíða þess að öðlast hlutverk. Í ljósi ástandsins núna er ljóst að þeir fá ekki hlutverk hér á landi og því verður að koma þeim á annan markað ef flotinn á ekki að grotna niður með tilheyrandi afskriftum. Ljóst er að um mikil verðmæti er að ræða því samkvæmt upplýsingum frá Bílgreinasambandinu er áætlað að það séu í kringum 10 þúsund óseldar bifreiðar í landinu.

Þessi mikli umframfloti kemur ekki bara niður á afkomu bílaumboðanna eins og stundum mætti ætla af umræðunni. Hér er um eina samhangandi keðja að ræða. Bílaumboðin hafa vissulega hagsmuna að gæta en það sama má segja um fjármögnunarfyrirtækin, bílaleigurnar og síðast en ekki síst fjölskyldurnar í landinu sem geta  létt verulega á fjárhag sínum með því að selja t.d. annan bílinn.

Til skamms tíma hefur endurgreiðslan talsverðan kostnað í för með sér, en um leið flýtir hún því að eðlilegur innflutningur á bílum hefjist á ný með tilheyrandi tekjuauka. Þá gefur þetta ákveðið tækifæri til þess að endurskilgreina þann bílaflota sem við viljum að sé í landinu. Því jafnvel þótt það sé ekki í anda Sjálfstæðisflokksins að neyslustýra þegnunum þá held ég að við getum verið sammála um að það kerfi sem við höfum búið við hefur að mörgu leyti verið óskynsamlegt. Birtingarmynd óskinseminnar kom mjög sterkt fram við gríðarlegan innflutning á eyðslufrekum pallbílum frá Bandaríkjunum. Þeir báru lægri aðflutningsgjöld en hefðbundnir fólksbílar í skjóli þess að um atvinnutæki var að ræða. Engu að síður var öllum ljóst að þeir voru fluttir inn í gífurlegu magni til einkanota. Ný staða í efnahagsmálum þjóðarinnar gefur okkur tækifæri til þess að endurskoða bílainnflutning til Íslands frá grunni. Ég sé fyrir mér að í framtíðinni verði ýtt undir betur samsettan bílaflota landsmanna þar sem umferðar- og öryggismál munu hafa mun meira vægi en nú er.


Bresk stjórnvöld hafa fyrirgert öllum lagalegum og siðferðilegum rétti sínum

Í mínum huga gekk Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra of langt með bréfi sínu til breskra yfirvalda þar sem hann sagði að íslensk stjórnvöld myndu, ef á þyrfti að halda, að styðja Tryggingasjóð innistæðueigenda til að afla nægra fjármuna þannig að sjóðurinn geti staðið við lágmarksbætur fari svo að Landsbanki og útibú hans í Bretlandi falli.

 

Í kjölfar bréfsins segir fjármálaráðherra svo í margumræddu símtali við Alistair Darling fjármálaráðherra Bretlands að við höfum tryggingarsjóð og því til viðbótar verði stutt við sjóðinn.

 

En burt séð frá því hvað mér finnst um bréf viðskiptaráðherra undirstrikar það ásamt símtali fjármálaráðherra vilja Íslenskra stjórnvalda. Með þetta tvennt í farteskinu hefði átt að vera útilokað fyrir Darling að beita hryðjuverkalögunum og frysta eignir Landsbankans með öllum þeim afleiðingum sem það hafði í för með sér.

 

Í ljósi þeirrar valdbeitingar tel ég að yfirlýsingar Viðskipta- og fjármálaráðherra séu úr gildi fallnar og Íslensk stjórnvöld þurfi ekki á nokkurn hátt horfa til samninga við Hollendinga sem fyrirmynd í samningum við Breta. Með því að brenna upp eigur Íslendinga hafa Bretar gert Íslenska ríkinu ókleift að gangast við þeim skuldbindingum sem Bresk stjórnvöld fara fram á. Þau brenndu upp eigur íslensku bankanna og þurfa að taka afleiðingunum af því. Bresk stjórnvöld hafa fyrirgert öllum rétti sínum á hendur íslenska ríkinu, bæði lagalegum og siðferðilegum.


Jöklabréfafaraldurinn

Í Morgunblaðinu og Fréttablaðinu í dag er mikið fjallað um stöðu krónunnar og virðast allir sammála um að hún eigi eftir að styrkjast a.m.k. til lengri tíma. Þá virðast aðilar líka sammála um að hið háa vaxtastig Seðlabankans hafi ekkert að segja um gengisskráningu hennar heldur muni ástandið hér endurspegla ástandið á erlendum mörkuðum. Vaxtamunur við útlönd hefur snar minnkað auk þess sem lánsfjármagn er af skornum skammti sem þrengir enn frekar stöðu þeirra sem vilja spila á vaxtamuninn. 

Ein skýringin á því að krónan hefur fallið svo ört sem raun ber vitni er líklega sú að aðilar á markaði hafi verið að gera ráðstafanir vegna krónu- eða jöklabréfanna svo kölluðu þar sem talsvert háar upphæðir eru á gjalddaga á næstunni.

Eins og áður hefur komið fram hér á bloggi mínu þá er ég óánægður með að bankarnir og Seðlabankinn skildu ekki gera ráðstafanir til þess að sporna gegn Jöklabréfafaraldrinum. Nú er staðan sú að sennilega erum við að borga í kringum 60 milljarða króna á ári í vaxtatekjur sem fara beint úr landi. Til samanburðar má nefna að það lætur nærri að vera í kringum 1/3 af útflutningsverðmæti sjávarafurða fyrir sama tímabil. Þetta eru því engar smáupphæðir sem við erum að borga í leigu af íslensku krónunnar ár hvert.

Ég ætla því að leifa mér að halda því fram að best sé að sem mest falli af þessum bréfum sem fyrst. Það er skömminni skárra að fá höggið strax í stað þess að láta kvelja sig í langan tíma. Því fyrr sem við losnum við þessi bréf út úr hagkerfinu því fyrr á krónan möguleika á að komast í eðlilegt ástand. 

 

 


Upphrópanir Guðna standast ekki skoðun

Þrátt fyrir fjölmargar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í efnahagsmálum að undaförnu tók Guðni Ágústsson þá ákvörðun að snúa út úr þeim á fundarferð sinni um landið og í þinginu. Allsstaðar þar sem hann hefur mætt hefur hann kennt ríkisstjórninni um það mótlæti sem Íslendingar standa frammi fyrir í efnahagsmálum um þessar mundir.

Í umræðu um efnahagsmál á Alþingi 2. september sakaði Guðni ríkisstjórnina um aðgerðarleysi og  mátti helst á honum skilja að hækkun á olíuverði og hrávöruverði almennt væru henni að kenna og að lánsfjárkreppan væri einnig  komin til af hennar sök.Þessar upphrópanir  Guðna standast hins vegar enga skoðun eins og ýmsir, sem ekki eru í pólitík, hafa séð sig knúna til að benda á. Þetta kom til að mynda fram í fréttabréfi Glitnis sama dag og efnahagsumræðan fór fram. Í Morgunkorni greiningardeildar bankans kemur fram að þegar litið sé í baksýnisspegilinn er ljóst að stjórnvöld hafi brugðist við breyttum aðstæðum í hagkerfinu með ýmsum hætti undanfarna mánuði. Fjallað er um það með hvaða hætti gjaldeyrisforðinn hefur verið styrktur eins og svo oft hefur verið kallað á og hvernig Seðlabankinn hafi rýmkað reglur til að auka getu bankanna til að bregðast við vandanum. Þá er jafnframt bent á að bankinn hafi gengið inn í samstarf við ESB og EFTA um varnir gegn óstöðugleika á fjármálamörkuðum.

Í útvarpsviðtali sama dag við forstöðumann greiningardeildar Landsbankans kom þetta einnig fram. Auk þess benti fulltrúi bankans á að ástandið víða annars staðar væri síst betra en hér á landi og nefndi sérstaklega til sögunnar Bandaríkin, Bretland og Danmörku í tengslum við stöðuna á fasteignamarkaði.

Til viðbótar við það sem að framan er greint tilkynnti Geir H. Haarde forsætisráðherra um lántöku upp á 30 m.a. kr. sem er enn einn liðurinn í því að styrkja gjaldeyrisstöðu þjóðarinnar. Hefur gjaldeyrisforðinn því verið fimmfaldaður á tveimur árum.

Aðrar aðgerðir sem einnig miða að því að mæta erfiðleikum í efnahagslífinu eru skattalækkanir á fyrirtæki og einstaklinga. Þá hafa fyrstu skref í afnámi stimpilgjalda verið stigin og viðmiðum breytt hjá Íbúðalánasjóði en  báðar þessar aðgerðir hafa það að markmiði að örva fasteignamarkaðinn.Af þessu má sjá að annaðhvort hefur formaður Framsóknarflokksins ekki fylgst með eða hann hefur kosið að snúa út úr og fara vægast sagt frjálslega með sannleikann.

 


Innganga í ESB = minna lýðræði á Íslandi?

Ein af mörgum spurningum sem hver og einn Íslendingur verður að svara fyrir sjálfan sig áður er hann gerir upp hug sinn til inngöngu í Evrópusambandið er hvort rétt sé að draga úr lýðræði á Íslandi?

 

Fyrir stuttu síðan var ég í París á vegum EFTA nefndar Alþingis en þar hittum við nokkrir Alþingismenn kollega okkar hjá franska þinginu. Frakkar höfðu þá daginn áður tekið við formennsku í Evrópusambandinu en hvert formennskutímabil varir í 6 mánuði. Í umræðum við þingmennina var komið inn á þjóðaratkvæðagreiðsluna í Írlandi og fjallað um afstöðu Íra til Lissabonsáttmálans.  Þingmennirnir töldu að niðurstaðan á Írlandi endurspeglaði um margt hug almennings í löndum Evrópusambandsins og sýndi þá gjá sem er á milli sambandsins og almennings. Niðurstaðan sýndi líka að stofnanir þess eru fjarlægar fólkinu og það hefði litla hugmynd um hlutverk og gagnsemi þeirra.  Þessi staðreynd gæti haft mikil áhrif á þróunina til  framtíðar ef ekki tækist að snúa við blaðinu. Athyglisvert var hversu opinskáir þingmennirnir voru jafnvel þótt þetta hafi legið fyrir í langan tíma eins og kosningaþátttaka til Evrópuþingsins undirstrikar.

 

Í umræðunni um inngöngu í Evrópusamandið þurfa Íslendingar meðal annars að svara eftirtöldum spurningum. Erum við sem lýðræðiselskandi þjóð, þar sem kosningaþátttaka er alltaf með því hæsta sem þekkist í heiminum, tilbúin til að lúta valdi Evrópusambandsins þar sem við höfum í besta falli lítil áhrif. Viljum við undirgangast stofnanir sem eru okkur eins fjarlægar og raun ber vitni? Viljum við um leið og sífellt er verið að kalla á beint lýðræði marvisst koma í veg fyrir að við getum beitt því á mörgum sviðum í framtíðinni þar sem ákvarðanir um ýmis hagsmunamál eru teknar í Brussel? Með öðrum orðum viljum við minnka lýðræði á Íslandi?

 

Ég viðurkenni fúslega að ég hef ekki gert upp hug minn varðandi inngöngu í ESB og fagna því frekari umræðu um málið og styð heils hugar að Sjálfstæðisflokkurinn taki forystu í þeim efnum. Mér hefur því miður stundum fundist eins og að þeir sem eru fylgjandi inngöngu telji að þeir sem eru á móti henni tilheyri ekki umræðunni. Þ.e.a.s. að umræðan hafi ekki átt sér stað nema að hún snúist um að vera fylgjandi aðild. Slík nálgun gengur ekki þegar eitt mikilvægasta hagsmunamat í sögu landsins fer fram.

Legg þetta inn í umræðuna en þetta er auðvitað bara brot að þeirra heildarmynd sem við þurfum að teikna upp fyrir okkur áður en við tökum afstöðu til inngöngu í ESB.  

 

Seðlabankinn verður að horfast í augu við raunveruleikann

Það voru mikil vonbrigði að Seðlabankinn skildi ekki lækka stýrivexti í dag og vekur það upp spurningar um það hvort bankinn geti ekki horfst í augu við raunveruleikann. Leiðir bankans til að bregðast við verðbólgu og stöðu efnahagsmála almennt hafa alls ekki gengið eftir á undanförnum árum. Þegar bankinn hækkaði vexti í sífellu varð það til þess að erlend lán urðu eftirsóknaverðari valkostur en íslensk og hlutfallslega sífellt ódýrari. Þetta olli miklu innstreymi erlends fjármagns sem aftur leiddi til þess að krónan styrktist og innfluttar vörur fengust á lágu verði. Aukin eftirspurn eftir ýmsum neysluvörum kom því ekki fram í  verðbólgumælingunni enda var það hækkun húsnæðisverðs sem olli henni að stórum hluta.

 

Annað sem gerðist við sífellt hærra vaxtastig bankans var að það ýtti undir svo kallaða  jöklabréfaútgáfu sem varð við hækkandi vaxtastig stöðugt fýsilegri fjárfestingakostur fyrir erlenda aðila. Með jöklabréfunum er verið að spila á vaxtamun milli Íslands og annarra landa. Þetta leiddi til þess að enn meira framboð varð af erlendu fjármagni í landinu og ýtti enn frekar undir erlenda lántöku landans og ýtti svo enn og aftur undir einkaneysluna.

 

Gerðu menn sér ekki grein fyrir því að það kæmi að skuldadögum fyrr eða síðar? Af hverju var ekki slegið á þessa jóklabréfaútgáfu með lægri stýrivöxtum? Hefur verðbólgu einhversstaðar verið eitt með því að ýta undir aukna neyslu?

 

Nú er staðan sú að mjög litlir möguleikar eru til lántöku á erlendu fjármagni nema á okurvöxtum og lítill áhugi er á að framlengja jöklabréfin. Afleiðingarnar eru fall krónunnar með öfgakenndum hætti. Er þá einhver tilgangur með að halda upp háum stýrivöxtum? Ekki lengur, nema markmiðið sé að drepa íslenskt atvinnulíf og gera fjölskyldurnar í landinu gjaldþrota. Háir stýrivextir styrkja ekki gengi krónunnar við þær aðstæður sem nú eru á alþjóða vísu.

 

Í því ástandi sem nú varir er vaxtalækkun líklegri til þess að styrkja gengi krónunnar þar sem lækkunin yrði til þess að endurvekja trú manna á íslenskt atvinnulíf . Hvergi í heiminum geta atvinnuvegirnir staðið undir því vaxtastigi sem nú er við lýði. Afleiðingarnar af þessari stefnu eru farnar að koma í ljós. Við fáum með stuttu millibili fréttir af fjöldauppsögnum og ef að líkum lætur þá er þetta er bara byrjunin. Ef Seðlabankinn heldur áfram að líta framhjá raunveruleikanum eins og þegar skriða erlendrar lántöku gekk yfir og jöklabréfaútgáfan stóð sem hæst, bíða okkar fjöldagjaldþrot og meira atvinnuleysi en nokkurn hefði órað fyrir. Lækkun stýrivaxta er sterkasta úrspilið til að fyrirtækin geti lifað og komist verði hjá stórauknu atvinnuleysi. Lækkun vaxta þarf því að koma til nú þegar.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband